07.02.1945
Efri deild: 120. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

84. mál, kjör forseta Íslands

Frsm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Þetta er stjfrv., fram borið samkvæmt fyrirmælum 5. gr. stjskr. um, að setja skuli l. um framboð og kjör forseta Íslands að svo miklu leyti sem stjskr. sjálf kveður ekki á um þessi efni.

Um forsetakjörið fer að sjálfsögðu eftir því, sem við getur átt eftir reglum kosninga til Alþ., en þar sem hér er um landskjör að ræða, hefur orðið að setja sérákvæði um undirbúning og úrslit kjörsins.

Frv. þetta er lagt fram í hv. Nd., og hefur stjskrn. þeirrar hv. d. haft það til meðferðar .og gert á því nokkrar breyt., sem allar voru samþ. Ein aðalbreyt. er sú, að nánar er kveðið á um það, hvenær forsetakjör skuli fram fara. Í frv. (3. gr.) stóð: „Forsætisráðherra ákveður hverju sinni, hvern dag í júní- eða júlímánuði forsetakjör fer fram“. Í brtt. n. er kveðið svo á: „Forsetakjör skal fara fram síðasta sunnudag í júnímánuði“. Og til er þar tekið auk þess, að það skuli fara fram fjórða hvert ár, sem frv. ákvað ekkert um, hve langt kjörtímabilið skyldi vera.

Önnur breyt., sem n. gerði, er á 12. gr., en hún er um það, hvað gera skuli, ef aðeins einn maður er í kjöri til forsetaembættisins. Brtt. tekur fram til viðbótar, að hann sé þá réttkjörinn forseti Íslands án atkvgr., enda fullnægi hann kjörgengisskilyrðum.

Allar ganga brtt. n. í þá átt að gera ákvæði frv. nákvæmari og skýrari.

Stjskrn. þessarar hv. d. hefur haft frv. til athugunar á tveim fundum, og hefur hún ekki séð ástæðu til að gera á því neinar breyt. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 1. þm. Eyf., var ekki á síðasta fundinum, er málið var afgreitt, en mun vera öðrum nm. sammála.

Sé ég ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum, en vil aðeins mæla með því fyrir hönd n. við hv. d., að hún samþ. frv. óbreytt, eins og það er komið frá hv. Nd.