18.10.1945
Neðri deild: 10. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

36. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Eysteinn Jónsson) :

Eins og tekið er fram í ástæðum fyrir frv. og það ber með sér, er það flutt að beiðni atvmrh. Það hefur verið um langan tíma heimilt að veiða með dragnót alls staðar nema á hafnarsvæðum. Hins vegar hefur mörgum verið ljóst, að þörf væri á að friða ýmis svæði, þar sem flatfiskur er að alast upp. Einkum er þetta á innilokuðum fjörðum, en þar er smákoli oft drepinn í hundraðatali. Nú hefur komið í ljós, að allir, sem dragnótaveiði stunda, vilja fá þessi svæði friðuð, en þó að reynt hafi verið að mynda samtök, hafa þau ekki borið tilætlaðan árangur. Hér er því lagt til, eftir beiðni atvmrh., að heimilt verði að friða þau svæði, þar sem beztar eru uppeldisstöðvar fyrir flatfisk, ef fiskideild atvinnudeildarinnar mælir með því og sömuleiðis Fiskifélag Íslands.

Mér hefur skilizt, að hæstv. ráðh. óski eftir, að þessu máli verði hraðað í gegnum deildina.