06.11.1945
Neðri deild: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

72. mál, strandferðaskip

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vil aðeins þakka samgmn. og frsm. hennar fyrir það, hve fljótt og vel n. hefur tekið undir þær óskir mínar að koma þessu máli hér áfram. Ég skal ekki rekja gang þess, — það er öllum hv. þm. kunnugt. Það hefur nú í mörg ár verið mikil óánægja með rekstur skipanna, hve illa þau hafa sinnt því hlutverki, sem þeim er ætlað. Hefur stundum kveðið svo rammt að þessu, að erfiðara hefur verið að komast á milli hafna hér á landi en að komast frá Íslandi til útlanda. Samtímis þessu hefur svo þessi lélegi skipakostur valdið því, að flutningar og rekstrarútkoman hefur orðið óhagstæðara en ástæður hefðu þó verið til, ef skipakostur væri fyrir hendi í landinu. Þetta varð til þess, að Alþ. samþ., að skipa mþn. til þess að athuga þetta mál, og var það gert fyrir 2 árum. Sú n. hefur skilað áliti, sem er prentað sem fskj. með frv. og hv. þm. geta þar kynnt sér. Niðurstaða n. hefur, þó að nm. skili áliti hver um sig, í rauninni orðið á einn veg, þannig að vinna beri að því að fjölga skipunum og helzt á þann veg, sem frv. gerir ráð fyrir. Þegar ráðuneytinu hafði borizt þetta álit frá mþn., þá var þegar í stað samþ. að afla tilboða og upplýsinga um möguleika á því að fá þessi skip. Fór forstöðumaður Skipaútgerðar ríkisins til útlanda þessara erinda og ferðaðist um þau lönd og kom á þá staði, þar sem nokkrir möguleikar virtust vera á að afla þessara skipa, og hafði hann samband við þá staði, sem hann gat ekki ferðazt til sjálfur. Niðurstöðuna af þessum ferðalögum og tilboðum má lesa hér á fskj. nr. 2, þar sem talin eru upp þau tilboð, sem borizt hafa og eru raunar enn að berast, því að það eru ekki nema 2 dagar síðan síðasta tilboðið barst. En þessi tilboð eru með sama marki brennd og önnur tilboð, sem nú berast frá skipasmíðastöðvum, að þær gefa mjög stuttan frest til ákvarðana. Eftirspurnin eftir skipasmíðum er svo mikil í heiminum, að þær heimta, að sagt sé af eða á og tilboðunum tekið með stuttum fyrirvara. Eins og í þessu fylgiskjali segir, hefur eitt aðalfirmað, sem gerði tilboð, gert það að skilyrði, að tilboðinu yrði svarað fyrir 29. okt. s. l., en þetta var ekki hægt. Þá fékkst þessi frestur lengdur til 15. þm., en fyrir þann tíma verður ákvörðun að vera tekin, ef þessi tilboð eiga að standa. Ég vil nú, að allt kapp sé á það lagt að ná þessu tilboði, en það mundi þýða, að málið yrði að vera afgr. frá Alþ. um 10. þ. m. Ég tel mig hafa góðar heimildir fyrir því, að hugur þm. sé allmjög á einn veg um það, að eitthvað beri í þessu að gera og þá í þá átt, sem farið er fram á, svo að það ætti ekki að tefja fyrir framgangi málsins. Hér hefur verið prentað með frv. fskj., áætlun, sem Skipaútgerð ríkisins hefur gert um afkomu útgerðarinnar eins og hún mun verða, eftir að þessi skip hafa verið tekin til notkunar, og sýnir sú áætlun mun betri útkomu en rekstrarreikningarnir fyrir 1944 þrátt fyrir það, að skipunum hefur verið á þennan hátt fjölgað, svo að það fer saman, að Skipaútgerðinni verður með þessu gert kleift að sinna betur ætlunarverki sínu, svo að það komi að betri notum, og um leið minnkar tekjuhallinn mjög verulega.

Hvernig rekstrinum verður hagað í einstökum atriðum, þegar þessi skip eru fengin, liggur ekki endanlega fyrir, en það benda allar líkur til þess, að ef þessi skip fást, muni verða hægt að taka upp reglubundnar hraðsiglingar kringum landið, þannig að stóru skipin, sem þá verða tvö, geti farið á 10 daga fresti í kringum landið hvort á móti öðru og haft fasta áætlun, skilað farþegum, pósti og vörum á þær hafnir, sem beztar eru, en smærri skipin flutt vörur og farþega lítils háttar til þeirra staða, sem stærri skipin eiga erfiðara með afgreiðslu á. Með þessu yrði gerbreyting á strandsiglingunum kringum landið og komið á þær betra skipulagi, sem mundi gera það að verkum, að betra yrði fyrir fólkið að nota strandferðaskipin en áður.

Ég vona þess vegna, að hv. dm. geti fallizt á að flýta málinu eins og mögulegt er, og ég vildi vænta þess, að hæstv. forseti vildi taka málið til 2. umr. á morgun, til þess að hægt sé að uppfylla þessar tímatakmarkanir, sem ég hef getið um áður.