09.11.1945
Efri deild: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

72. mál, strandferðaskip

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og sést á fylgiskjalinu með frv. á þskj. 94, hefur mál þetta fengið allvíðtækan undirbúning. Það var í Sþ. á síðasta Alþ. borin fram till. um það að gefa ríkisstj. heimild til þess að kaupa eitt skip líkt og Esju. En henni var vísað frá með rökst. dagskrá, þar sem ekki lágu fyrir þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir í málinu.

n., sem með þetta mál hafði að gera, þríklofnaði. En það má segja e. t. v., að það hafi verið nokkuð meira á yfirborðinu en í meginatriðum, því að þessi n. var sammála í meginatriðum um það, að það þyrfti að auka skipastól í strandferðum. Ég gaf út sérstakt álit, sem er prentað sér á þskj., og reyndi að gera mér grein fyrir, hver kostnaður mundi verða af þessu, þegar búið væri að kaupa þessi skip, og reiknaði með sex mismunandi aðferðum, eftir því hver skipastóll væri hafður í ferðum. Ég sé, að þegar þessi útreikningur er borinn saman við útreikning Skipaútgerðar ríkisins, þá skakkar þar að vísu nokkru, en ekki svo mjög frá mínum útreikningum, því að rekstrarhallinn, að óbreyttum ástæðum, er í útreikningum Skipaútgerðarinnar nálægt því, sem ég hafði gert ráð fyrir í mínum till. og útreikningum. En þar sést, að hagkvæmasti reksturinn mundi verða með tveimur skipum líkum Esju og 1–2 strandferðabátum af 300 tonna stærð, eins og hér er gert ráð fyrir í frv., en þá einnig gert ráð fyrir, að Súðin verði tekin úr ferðum. Að vísu kom þetta öðruvísi út, ef gert er ráð fyrir, að Súðin væri höfð í ferðum í staðinn fyrir þetta nýja skip og 2 nýir strandferðabátar hafðir í ferðum. En ég geri ráð fyrir, að með breyttum skilyrðum megi reka þetta svipað hagkvæmt eða hagkvæmara með því að reka þetta eins og gert er ráð fyrir í frv., með því að tveir minni bátar verði teknir með, einkum vegna þess, að þá væri frekar tækifæri til þess að afla annarra tekna, sem ekki er gert ráð fyrir hér í þskj., á þeim tíma, sem hægast er að afla tekna, með því að senda hið nýja skip eða Esju í ferðir, sem ekki beint koma strandferðunum við, en strandferðirnar þyrftu ekki að líða fyrir, til þess að bera kostnað af strandferðunum. — Það, sem ég lagði til í mínum till., var, að aflað væri fullkominna upplýsinga um það, hvað mundi kosta að fá skip byggt eins og Esju og 3–4 báta 300 tonna og hvernig væri hægt að afla þessa skipakosts.

Þetta var aðalskilyrði mitt fyrir fylgi við málið. Nú hefur þetta verið uppfyllt. Það liggur fyrir, að það er hægt að kaupa skip og hvað þau kosta. Og með því að ég hef persónulega fullvissað mig um, að þau tilboð, sem fyrir liggja, séu eins hagkvæm og hægt er að búast við á þessum tíma, get ég að sjálfsögðu lýst fylgi mínu við málið eins og það er borið fram af ríkisstj. Ég vil þó benda á, að í rekstraryfirliti Skipaútgerðar ríkisins er ekki gert ráð fyrir, að Súðin sé rekin eftir að þessi skip koma, sem í frv. er gert ráð fyrir að kaupa. Mér sýnist vera gert ráð fyrir því, að eitthvað annað sé gert við hana, ef marka má áætlunina um strandferðir árið 1947, því að þar er aðeins gert ráð fyrir, að séu ein 2 skip rekin af líkri stærð og Esja og 2 bátar. Og vildi ég þá gjarnan heyra álit hæstv. samgmrh. um, hvort ekki væri nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að fá heimild til þess að selja þann skipakost, ef gert er ráð fyrir, að það eigi ekki að nota hana í strandferðir það ár, eins og yfirlitið ber með sér.

Viðkomandi aths. hv. frsm. n. um stærð bátanna vil ég taka fram, að það atriði var mjög rætt í milliþn. Og ég hygg, að það, sem mestu réð um ákvörðun á stærð bátunna, hafi verið sú viðleitni að reyna að tryggja, að skip, sem ættu að hafa flutning á hendi, gætu flotið að sem flestum bryggjum, sem verður komið upp sem höfnum og lendingarbótum víða um land, til þess að ekki þurfi að flytja á uppskipunarbátum frá skipunum til lands nema sem allra minnst. Það er a. m. k. 100 kr. kostnaður, sem kemur á hvert tonn af vörum, við það að flytja þær á uppskipunarbátum. Þetta held ég, að mest hafi vakað fyrir nm. í samgmn., þegar ákveðin var stærð bátanna, auk þess sem við höfum fengið nokkuð mikla reynslu af skipum, sem m. a. hafa haft Breiðafjarðarferðir og hafa sýnt sig að geta staðið mjög vel undir sér fjárhagslega, þó að stærðin hafi ekki verið meiri en þetta. — Að öðru leyti hef ég ekkert við þetta frv. að athuga.