29.10.1945
Neðri deild: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

44. mál, sláturfélag Skagfirðinga

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Frv. þetta er flutt eftir ósk Sláturfélags Skagfirðinga. Reynslan hefur sýnt, að allmikil brögð eru að því, að bréf þau, sem gefin eru út fyrir eign manna í stofnsjóði félagsins, hafa glatazt. Til þess að eigendur slíkra bréfa missi ekki stofnfjáreign sína í félaginu, verður að ógilda þau bréf með dómi, en það er allt of kostnaðarsamt. Félagið vill því fá leyfi til að innkalla bréfin með ákveðnum fyrirvara og ógilda þau bréf, sem koma þá ekki í leitirnar.

Frv. er sniðið eftir l. um heimild fyrir Sláturfélag Suðurlands til að innkalla stofnbréf sín. Ég vona því, að Alþ. sjái sér fært að verða við þessu, og óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.