23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þann 25. marz var útbýtt hér á hæstv. Alþ. þáltill, á þskj. 608, um vátryggingar fyrir vélbáta. Sú þáltill. hefur síðan tvisvar verið tekin á dagskrá, án þess að hæstv. forseti hafi leyft um hana umr., og í síðara skiptið var hún tekin af dagskrá mér að óvörum. Og enn hefur þessi þáltill. ekki verið tekin á dagskrá í dag. Vildi ég því gera fyrirspurn um það til hæstv. forseta, hvenær þáltill. þessi verði tekin á dagskrá og til afgreiðslu, því að málið, sem hún er um, er eitt af hinum mestu fjárhagsmálum sjávarútvegsins. Og á þeim tíma, þegar milljónir eru veittar til ýmissa atvinnutækja, verður það ekki varið af hæstv. forseta að láta þetta þing líða svo, að þetta mál fái ekki afgreiðslu. Vona ég því, að þetta mál verði tekið á dagskrá sem fljótast og það afgr. áður en þingi er slitið.