06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

10. mál, jarðræktarlög

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Ég á hér á þskj. 82 brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég ætla nú, að hún sé svo augljós, að það þurfi ekki að útskýra hana mikið. Hún fjallar um það eitt, að það skuli tekið fram í þessum l., að það fylgifé, sem hefur safnazt meðan 17. gr. jarðræktarl. var í gildi og verkaði, skuli falla til jarðanna aftur og verða eign jarðeiganda. Ég geri ráð fyrir, að allir, sem nú vilja fallast á að afnema 17. gr. jarðræktarl., verði sammála um það, að svona eigi þetta að vera með fylgiféð. Það mundi verða að teljast ósamræmi og fálm, ef fylgiféð, sem myndazt hefur þessi tiltölulega fáu ár, sem gr. hefur verið í gildi, félli ekki til jarðeigenda, fyrst hætt er við að láta þessa gr. verka og draga saman, eins og hún hefur gert um skeið, framlag ríkisins til umbóta á jörðunum sem fylgifé. Um hitt kynni kannske að verða einhver skoðanamunur, hvort það væri þörf á þessu lagafyrirmæli, og um það fullyrði ég ekki neitt, en mér þykir samt heldur líklegra, að svo sé. Og mér finnst það aldrei vera til baga, þótt sagt sé skýrt og tvímælalaust í l. það, sem löggjafinn meinar og ætlast til.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessa brtt. nú. Mér þykir líklegt, að hún verði samþ., og ég tel það alveg rétt.