06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

10. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Við þessa síðustu yfirlýsingu hv. 1. þm. N.-M. datt hér einum óvígðum manni í hug við hliðina á mér, þegar séð var um það, að 17. gr. jarðræktarl. er að andast og á að fara að kasta rekunum á hana, að moldin hverfur til jarðarinnar, þ. e. jarðeigenda, en andinn fer til Framsfl., sem gaf hann.

Við 2. umr. gat ég þess, að það hefði farið fram athugun á því, hvort bæta þyrfti þessu ákvæði, sem brtt. á þskj. 82 felur í sér, inn í l. við afnám 17. gr. jarðræktarl. Og álit helztu lögfræðinga, sem ég hef talað við um það, er, að enga slíka breyt. þurfi að gera á l., sem í brtt. hv. 1. þm. N.-M. felst. Og þá gat ég þess einnig, að það væri skoðun og álit okkar nm., sem stóðum að þessu máli, að öll höft, sem 17. gr. jarðræktarl. hefur lagt á fasteignir, hyrfu af sjálfu sér um leið og 17. gr. væri afnumin, og þess vegna væri slík breyt. sem þessi alveg ónauðsynleg og þyrfti ekki að koma hér fram till. um hana. En ég vil segja það líka, að auk þess er sú breyt., sem hér er lagt til á þskj. nr. 82, að gerð verði á l., dálítið afkáraleg, og ég veit ekki vel, hvar ætti að fella hana inn í jarðræktarl. Ég hefði þess vegna viljað fara fram á það við hv. flm. þessarar brtt., að hann vildi taka hana aftur, láta hana hverfa. En nú er það, að þessi brtt. er óskaðleg málinu og segir ekki annað en það, sem við flm. frv. ætlumst til að verði, ef frv. nær fram að ganga óbreytt. Og nú virðist svo vera, að flokkur hv. þm., sem brtt. flytur, sæki það svo fast að fá að koma inn einhverri breyt. á frv., að ég get hugsað það, að það gæti farið svo, að frv. næði ekki fram að ganga, ef farið væri að ýta við brtt. þessari, og þar sem hér er ekki nein hætta á ferðum, þó að brtt. verði samþ., þá mun ég ekki bregða fæti fyrir hana, til þess að það sé tryggt, að frv. komist þá út úr hv. d. og d. geri sitt til þess að varpa rekum á þessa blessaða 17. gr., sem svo illa hefur gengið, að koma í jörðina, því að hún hefur brotizt um á hæl og hnakka, þó að hún hafi verið sokkin upp fyrir miðju og jafnvel upp að öxlum, og komið upp aftur. En nú vona ég, að Framsfl. geri krossmark yfir henni þegar hún er komin í moldina.