06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

10. mál, jarðræktarlög

Páll Hermannsson:

Ég gleymdi að taka það fram áðan, þegar ég talaði, að ég hef látið uppi það álit hér í d. og óskað eftir því, að þetta lagafrv. og breyt. á 1. um byggingar- og landnámssjóð yrði sem mest samferða. Nú hefur landbn. athugað það frv., og gera má ráð fyrir, að meiri hl. n. verði sammála um afgreiðslu á því máli á þann hátt, sem ég get sætt mig við, en það er dálítið snúið að koma því á pappírinn, svo að það er ekki búið að því, en ég mun samt ekki láta það standa í vegi fyrir því að fylgja nú þessu frv. Mér sýnist, að þau geti orðið nokkurn veginn samflota þessi mál.

Ég þarf ekki mörgu að svara, sem hér hefur borið á góma. Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu, að hv. þm. Dal. væri lögfræðingur að nafnbót og líka starfandi lögfræðingur, en þegar hann var að prédika hér áðan, hefði ókunnugur getað trúað, að hér hefði guðfræðingur verið að tala. (ÞÞ: Það skaðar ekki að vera það líka). Hann talaði um, að hann ætlaði ekki að fara að halda líkræðu að jarðarfararsið. Nú sé ég, að honum muni farast vel að standa yfir moldum 17. gr. jarðræktarlaganna og að honum farist jafnvel að skíra eða halda undir skírn þeim nýju lagafyrirmælum, og ég vona og tel víst, að honum farist það vel. Hv. þm. Dal. sagði, að þessi brtt. mín væri afkáraleg, og bað mig að taka hana aftur. Ég get ekki komið auga á, að hún sé neitt afkáraleg, og sé þess vegna ekki ástæðu til að taka hana aftur.

Nú, hv. 3. landsk. (HG) er sammála þessari brtt., og þarf ég ekkert við hann að segja. Hér liggur ekki fyrir til umr. lagafrv. um það efni, sem hann les um í Tímanum, það kann að koma síðar.

Um hv. 2. þm. Árn. er það að segja, að hann hefði getað kynnt sér þessa brtt. og rætt hana við nm., því að það eru nokkrir dagar síðan hún kom fram, en vitanlega liggur það á valdi forseta, hvort hann sér ástæðu til þess að fresta fullnaðarafgreiðslu þessa máls nú. Það læt ég mér á sama standa.