06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

10. mál, jarðræktarlög

Haraldur Guðmundsson:

Mér liggur við að halda, að hv. þm. Dal. hafi nú fullsnemma sett punkt við píslargöngu þessa máls hér, því að það er svo greinilega tekið fram hér við umr., að það eru margir, sem vilja bjarga bændunum nú á dögum. Er þá vonandi, að menn þurfi ekki að óttast, að fari fyrir þessu máli eins og segir í dönsku spakmæli, að ef kokkarnir eru margir, þá eyðileggist maturinn. Ég hef gert mitt bezta til að eyða allri sundurþykkju milli þessara ágætu samstarfsmanna, en ekki lánazt það betur en raun sannar. Ég held raunverulega, að það sé sjálfsagt, til að fyrirbyggja, að þetta fari í handaskolum, að samþ. báðar brtt., sem fram hafa komið, og fresta svo málinu. Það mætti verða til að lina þrautir hv. þm. Dal. í sambandi við þetta mál.

Við hv. þm. Str. vorum á sínum tíma sammála um 17. gr. þessara l. En hún átti að fyrirbyggja, að framlag ríkisins yrði til að hækka jarðir í verði, þannig að bændur yrðu ekkert betur settir, þótt þeir fengju góðar jarðir, því að þær yrðu þeim mun dýrari. Hv. þm. Str. sagði, að þessi tilgangur hefði ekki náðst að þessu leyti.

En frá mínum bæjardyrum séð á ekki að nema þessi ákvæði úr gildi, heldur setja önnur haldbetri. Þm. Str. sagði þó, að þessi ákvæði hefðu að nokkru náð tilgangi sínum óbeint, og get ég fallizt á það. En nú er vitað, að á rökstólum situr n., sem skipuð var af búnaðarþingi. Hún hefur m. u. það ætlunarverk að finna leið, sem nær sama tilgangi og 17. gr. jarðræktarlaganna var ætlað að ná, og í þessari n. á hv. þm. Dal. sæti. Nú finnst mér það óskiljanlegt bráðræði að ætla að nema burtu þessa 17. gr., áður en ný ákvæði koma. Það er sá venjulegi háttur á lagabreyt. að láta eitt ákvæði koma í stað annars. Og svo á að gera þetta einmitt á þeim tíma, sem jarðabraskið er sem allra mest.

Ég sé annars ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar, en ég hefði heldur óskað, að hæstv. forseti tæki till. til afgreiðslu í réttri röð.