29.11.1945
Efri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vil biðja afsökunar á, að á mér hefur staðið. Mér var ekki kunnugt um, að þetta mál yrði tekið fyrir fyrr en á venjulegum fundartíma.

Ég gat ekki orðið sammála meiri hl. fjhn. um afgreiðslu þessa máls. — Ég vil fyrst minnast á það, sem kann að þykja aukaatriði, að samkv. núgildandi lögum er ætlazt til, að ríkisstj. öll annist þessi mál, en eins og þetta liggur hér fyrir, er gert ráð fyrir, að ríkisstj. skipi viðskiptaráð, en viðskmrh. hafi alla framkvæmd á hendi. Þetta er nokkur breyting frá því, sem er. Þar er gert ráð fyrir, að öll meiri háttar mál séu borin undir ríkisstj. í heild. Ég tel nauðsynlegt, að tryggt sé, að ætíð geti komið fram þau sjónarmið, sem eru innan ríkisstj. allrar. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. skipi alla rim., en samkv. till. minni skal fara eftir tilnefningu þingflokkanna um skipun þessara manna. Í frv. er fellt niður ákvæði í 1. gr., þess efnis, að ekki megi eiga sæti í viðskiptaráði menn, sem þar geti átt hagsmuna að gæta.

Samkv. till. minni er gert ráð fyrir, að 4 menn eigi sæti í ráðinu, en ríkisstj. skipi formann, og ræður hans atkvæði úrslitum, ef atkv. eru jöfn, og er þetta samhljóða till. hv. þm. Vestm.

Aðalbrtt. mínar eru við 2. gr. frv., um það, hvort tímabært sé að gefa gjaldeyrisverzlunina meira frjálsa en nú er. Ef ég skil frv. rétt, þá skal meginreglan verða sú, að innflutningurinn verði frjáls, en einungis takmarkanir á sumum vörutegundum. Ég tel þetta ekki gerlegt. Það mun nú þegar vera farið að ganga á dollarainnstæðurnar í Bandaríkjunum, sem eru okkur þó nauðsynlegar í fyllsta máta. Hins vegar er það hættulegt að hampa því framan í landsmenn, að innflutningur sé frjáls, þar sem það yrði sýnd veiði, en ekki gefin. Í sjálfu sér gæti ég fallizt á, að gerlegt væri að veita frjálsan innflutning á vissum vörutegundum um takmarkaðan tíma og þá við ákveðin lönd. En ég tel ekki gerlegt að draga úr því eftirliti, sem nú er. Mér virðist það háskalegt að minnka á nokkurn hátt eftirlit með gjaldeyrisverzlun, á meðan svo er óráðið um okkar hag sem nú er og meðan þannig er háttað í Evrópu sem kunnugt er. Eina leiðin er sú að koma á vöruskiptaverzlun, og þótt sú leið sé ekki æskileg, þá hygg ég, að samkv. þeim upplýsingum, sem ríkisstj. hefur fengið, sé það hin eina leið. Ég hygg, að það sé blekking ein að gefa það í skyn, að hægt sé að gefa innflutning frjálsan, þegar bein vöruþurrð er í miklum hluta álfunnar. (Fjmrh.: Hvað gera Bretar?) Þeir hafa ekki gefið sína verzlun frjálsa. — Sem sagt, ég tel það mjög misráðið að taka þessa stefnu nú og hygg, að það yrði ekki til gagns, þar sem það yrðu mest ónauðsynlegar vörur, sem við gætum fengið í vöruskiptum annars staðar frá. Ég legg því til, að í aðalatriðum sé núgildandi fyrirkomulag látið haldast, en komið geti til mála að veita nokkra rýmkun um takmarkaðan tíma við ákveðin lönd, en að öðru leyti verði ekkert slakað til. Ég tel þó nauðsynlegt, að þeir, sem flytja inn á hinum frjálsa markaði, láti viðskiptaráði í té allar upplýsingar um vörutegundir og vörumagn.

Þá legg ég til, að verðlagsstjóri taki sæti í ráðinu, þegar það fjallar um mál, sem snerta verðlagseftirlitið.

Í núgildandi lögum er heimild fyrir ríkisstj. að láta viðskiptaráð annast kaup á nauðsynlegum vörum. Þetta er fellt niður í frv. Þessu ákvæði vil ég halda. En það er vitanlega á valdi ríkisstj., hvaða vörur hún vill láta flytja inn þannig.

Loks legg ég til, að síðari málsgr. 9. gr. falli niður. Mér finnst ekki ástæða til að tímabinda lög sem þessi. — Ég hef svo ekki fleira um þetta að segja.