29.11.1945
Neðri deild: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. hef ég leyft mér að bera fram nokkrar brtt, við þetta frv., og skal ég nú gera grein fyrir þeim.

1. brtt. varðar 1. gr. frv., og skal hún orðast svo: „Ríkisstjórnin skipar fjögurra manna nefnd, er nefnist viðskiptaráð. Skulu nefndarmenn skipaðir samkvæmt tilnefningu þingflokkanna, einn eftir tilnefningu hvers flokks. Skipa skal jafnmarga varamenn með sama hætti. Ríkisstjórnin skipar einn nefndarmanna formann, og ræður atkvæði hans úrslitum, ef atkvæði verða jöfn.“

En það, sem þó aðallega er lögð áherzla á af minni hálfu í þessu sambandi, er það, að fella ekki niður að öllu leyti eftirlit með ákveðnum hluta af útlendum gjaldeyri. En í frv. hæstv. viðskmrh. er gert ráð fyrir, að svo geti farið, að a. m. k. verði tekinn úr höndum viðskiptaráðs einhver verulegur hluti af yfirráðum yfir erlendum gjaldeyri, þannig að vissir vöruflokkar og viðskipti jafnvel við viss lönd verði gerð algerlega frjáls án íhlutunar viðskiptaráðs, og viðskiptaráð hafi ekki heldur nein afskipti af því, hvort veitt er gjaldeyrisleyfi til slíkra innkaupa eða ekki. Að vísu tók hæstv. viðskmrh. fram, að þetta gjaldeyriseftirlit — eftir að l. koma í gildi og eftir að gefinn hefði verið út eins konar frílisti til kaupa á vörum frá útlöndum, án íhlutunar viðskiptaráðs, — mundi verða um nokkurn hluta gjaldeyrisins í höndum bankanna. Ég álít, að slíku eftirliti verði miklu verr við komið, og að minni hyggju minni trygging í því fólgin um það, að erlendur gjaldeyrir verði ekki misnotaður. En það er víst, að þó að við eigum nú mikinn erlendan gjaldeyri, þá er okkur full þörf á því, jafnvel þó að um pundainnstæður sé að ræða, sem er gjaldeyrir alls staðar, að fara svo með hann, að tryggt sé, að honum sé ekki varið nema til vörukaupa eða einhverra slíkra útgjalda erlendis, sem samþ. séu af trúnaðarmönnum ríkisvaldsins. Það getur alltaf legið nokkur hætta í því, að menn hafi nokkra tilhneigingu til þess að flytja gjaldeyri úr landi og eiga hann í inneignum annars staðar. Og ef slævað er það eftirlit, sem haft er með notkun erlends gjaldeyris, frá því sem nú er, má frekar búast við því, að nokkru af gjaldeyrinum verði komið í slíkar inneignir erlendis. Að þessu miðar eitt höfuðatriði brtt.

Annað atriði brtt. er skipun sjálfs viðskiptaráðs. Ég legg til, að viðskiptaráð verði skipað í samræmi við till. minni hl. n. þeirrar, sem starfaði að undirbúningi þessa máls, þ. e. form. nýbyggingarráðs, hv. þm. Vestm. En hann lagði það til, að viðskiptaráð væri skipað fjórum mönnum, þar sem einn nm. væri tilnefndur af hverjum hinna fjögurra stjórnmálaflokka, sem skipa nú Alþ., og að ef ágreiningur yrði eða jöfn atkv., þá réði úrslitum atkv. form., sem skipaður væri af ríkisstj. En í sambandi við þetta bendi ég á, að í 6. tölul. 2. brtt. geri ég ráð fyrir, að verðlagsstjóri taki sæti í viðskiptaráði, þegar það ákveður verðlagningu á vörum. Eftir núgildandi l., nr. 3 frá 1943, á verðlagsstjóri ekki atkvæðisrétt um ákvarðanir um verðlag, heldur er það eingöngu viðskiptaráð og þá eftir þeim l. á þann veg, að það er rutt tveimur mönnum, er ella sitja í viðskiptaráði, og tveir menn skipaðir til atkvgr. um þau atriði, sem fjalla um verðlagningu, og þá er verðlagsstjóri ráðunautur n., en hefur ekki atkvæðisrétt. Í framkvæmd mun þetta hafa verið þannig með ruðning þessara manna úr viðskiptaráði, að þeir hafi setið alla fundi, sem fjallað hafa um verðlagningarmálefni, en ekki haft atkvæðisrétt um að úrskurða verðlagið. Hafa þannig setið þá fundi sjö menn úr viðskiptaráði, og auk þess hefur verðlagsstjóri verið til staðar til þess að gefa upplýsingar og gera till. Það virðist því augljóst, að verðlagsstjóri eigi að eiga sæti í viðskiptaráði, þegar um slík mál er fjallað, og færi vel á því, að hann sæti þar, ef samþ. yrði sú brtt. mín, að fjórir menn væru að öðru leyti í verðlagsráði í stað fimm.

Þá er hér ofurlítil brtt. um heimild fyrir innkaup ríkisins. Það er lagt hér til í 5. lið 2. brtt., að viðskiptaráð geti annazt innkaup og innflutning á þeim vörum, sem ríkisstj. telur nauðsynlegt eða hagkvæmt vegna viðskipta- og gjaldeyrisástands eða af öðrum ástæðum, að inn séu fluttar með þessum hætti. Það er hér ekki lagt fyrir ríkisstj. að gera þessar ákvarðanir, en hún hefur eftir till. heimild til þess. Og ég fyrir mitt leyti teldi nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir hverja ríkisstj. að hafa slíka heimild. Og jafnvel gæti svo farið í nánustu framtíð, að full þörf væri á að notfæra sér hana að töluverðu leyti.

Þá er enn eitt atriði, sem ég vil nefna, án þess að rekja alla brtt. lið fyrir lið, sem er smábreyt., að í stað „ráðherra“, sem í frv. er gert ráð fyrir, að málið varði, komi: ríkisstjórn. Hæstv. ráðh. sagði, að breyt. með frv. í þessu efni væri mjög lítil, þar sem það aðallega félli undir valdsvið viðskmrh. að hafa framkvæmd þessara málefna yfirleitt, og væri eðlilegt, að gert væri ráð fyrir honum einum um framkvæmd þessara mála, en ekki ríkisstjórn. En segja má með sanni, að þarna sé nokkur munur á. Því að ef gert er ráð fyrir, að þetta sé í höndum ríkisstj., þó að hlutaðeigandi ráðh. hljóti að hafa með höndum daglegar framkvæmdir, þá er það svo, að ef þetta á að vera á valdi ríkisstj., þá geta hinir ráðh. fjallað um einhver stærri atriði þessara mála, en viðskmrh. er þá rétt og skylt, ef um stærri atriði er að ræða, að ræða við samstarfsmenn sína í ríkisstj. Og innflutningsmálin eru ákaflega stór mál. Fer því vel á því, að ríkisstj. öll fjalli um meginatriði þeirra mála, ekki sízt þar sem ríkisstj. er skipum mönnum af þremur mismunandi stjórnmálaflokkum. Og í hinum stærstu málum, sem hér hafa verið á ferð síðan núv. ríkisstj. kom til valda, sem er nýbyggingarráð og innkaup á togurum, þá er einmitt gert ráð fyrir því, að ríkisstj. öll fjalli um þau málefni. Og heimildarl. um innkaup á togurum voru — sem samkv. eðlilegum hætti falla undir atvmrh. — látin falla að þessu leyti undir alla ríkisstj., og hafði forsrh. forgang og fyrirsvar þeirra mála á Alþ., en það var af því, að málið var talið svo stórt og umfangsmikið, að rétt væri, að öll ríkisstj. fjallaði um það saman, en ekki einn ráðh. — Ég tel, að gjaldeyris- og innflutningsmálin séu svo stór og viðamikil, að ekki veiti af, að löggjafinn gefi um það bendingar, að öll ríkisstj. taki um þau ákvarðanir í stærri atriðum. Þetta er ekki vantraust á viðskmrh., sem ég þekki að glöggskyggni og réttdæmi yfirleitt, heldur er þetta eftir eðli málsins rétta aðferðin að mínum dómi, sem að nokkru leyti e. t. v. gæti breytt framkvæmd mála.

Þá er loks lagt til í frv., að l. þessi falli úr gildi í síðasta lagi 1. desember 1946. Hæstv. viðskmrh. hefur bent á, að það hafi slæðzt inn í frv., að það væri í síðasta lagi 1946, sem l. féllu úr gildi, og get ég verið sammála hæstv. ráðh. um, að þetta leiðinlega ákvæði ætti að samþ., ef mín brtt. verður ekki samþ. En því aðeins legg ég til, að þetta frv. verði ekki ákveðið tímabundið eins og í frv. getur, að ég er þess algerlega fullviss, eftir útliti að dæma hér á landi og í heiminum yfirleitt, að hér á landi verði að vera löggjöf um gjaldeyris- og innflutningsmálefni einnig að ári liðnu. Það er margt, sem bendir til þess, því miður, að upp verði nú tekin með verzlunarsamningum endurnýjun á hinum gömlu, ég vil segja illræmdu clearing-samningum, þ. e., að ástandið í heiminum sé nú þannig, að það verði að einhverju leyti að fara aftur í þann gamla farveg, sem vel var þekktur og oft ekki að góðu, að hafa clearing-viðskipti eða tví- eða þrískiptingu á sölu milli landa. Þær athuganir, sem farið hafa fram um markaðsmálin og innkaup á vörum erlendis, ekki sízt á meginlandi Evrópu, benda til þess, að upp verði að vera tekin einhvers konar clearing-viðskipti við þessi lönd. Af þessu leiðir þá og það, að löggjöf hlýtur að verða að gilda að þessu leyti, sem heimili ríkisvaldinu afskipti af viðskiptunum, til þess að beina viðskiptum landsins inn á ákveðna farvegi, vegna nauðsynjar á að selja íslenzkar vörur, þannig að það verði að einhverju leyti að kaupa erlendar vörur frá vissum löndum vegna sölu okkar á erlendum markaði, þ. e. frá þeim löndum, sem líklegust væru til þess að kaupa afurðir okkar.

Ég læt þess getið, að þessar brtt. mínar eru algerlega shlj. brtt. við frv., sem hv. 3. landsk. þm. flutti í hv. Ed, við þetta frv., en allar voru þar felldar. Og Alþfl. hefur áður sagt hæstv. viðskmrh., að flokkurinn áliti þessar breyt. nauðsynlegar á frv., en þær voru ekki til greina teknar. Og við Alþfl.-menn munum því láta þær koma undir atkv. á hæstv. Alþ. í báðum deildum. Og ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til að greiða atkv. með frv., ef þessar brtt. mínar á þskj. 253 verða felldar.