29.11.1945
Neðri deild: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Ég undrast dálítið, að hv. 4. þm. Reykv. lætur atkv. sitt um frv. velta á því, hvort brtt. hans verða samþ. eða ekki, því að satt að segja er skoðanamunur um þetta mál mjög veigalítill. Ég er þeim hv. þm, alveg sammála um það, að það eru engar líkur til þess, að unnt verði eftir eitt ár hér frá, þ. e. 1. des. 1946, að láta falla niður öll lagaákvæði um innflutning og gjaldeyrismeðferð og gefa það allt frjálst. Ég er sannfærður um það, að það verður óhjákvæmileg nauðsyn fram yfir þann tíma og líklega langt fram yfir þann tíma að hafa einhverjar hömlur á verzlun gildandi hér á landi. Og þetta ákvæði 9. gr. frv. er alls ekki við það miðað, að engin ákvæði eigi að gilda um þetta efni eftir 1. desember 1946, heldur er þetta sett inn til þess að minna Alþ. á að fylgjast með þeim breyt., sem kunna að verða á viðhorfinu í þessum efnum, og gera þær breyt., sem heppilegar kunna að verða taldar, þegar að því kemur, að l. eiga að falla úr gildi. Það má segja, að þetta skipti ekki miklu máli, en ég hygg þó, að ekki sé óheppilegt að veita Alþ. þetta aðhald. Ef svo verður litið á, að l. eigi að vera óbreytt eins og þau verða nú, kostar það hvorki mikinn tíma né fyrirhöfn að samþ. þau óbreytt.

Hvort heppilegra sé að nota orðið ríkisstjórn eða ráðherra í þessu sambandi, það er náttúrlega fyrst og fremst málsmekksatriði og hefur litla þýðingu, og skal ég ekki ræða um það sérstaklega.

Viðkomandi brtt. við 2. gr. frv., sem er shlj. brtt., sem hv. 3. landsk. flutti í hv. Ed., virtist hv. 4. þm. Reykv. út af fyrir sig ekki hafa neitt á móti því, þótt stefnt væri að því að gera verzlunina frjálsari en hún hefur verið. En það, sem hann setti fyrir sig, skilst mér vera það, að hann taldi, að gjaldeyriseftirlitið mundi verða minna, ef l. væri breytt á þá leið, sem ætlazt er til í þessu frv., og hann komst svo að orði, að eftirlitið yrði eftir því eftirleiðis í höndum bankanna. Ég ætla, að þessi skoðun hans sé á misskilningi byggð. Ákvæði frv. gera enga breyt. á gjaldeyriseftirlitinu. Það hefur verið í höndum bankanna og verður í höndum bankanna eftir að lagabreyt. er gerð. Það er alveg misskilningur hjá þessum hv. þm., að það létti gjaldeyriseftirlitið, þó að innflutningsleyfi séu veitt samtímis og gjaldeyrisleyfi. Innflutningsleyfi veita ekki tryggingu fyrir, að vara sé flutt inn í landið. Og gjaldeyriseftirlit getur ekki komið að gagni nema því aðeins, að samanburður fari fram á innflutningi og gjaldeyrisleyfum, og það verður að bera saman hjá tolleftirlitinu og bönkunum, hvað flutt er inn og að hverju leyti gjaldeyrisleyfi hafa verið notuð. Þegar þetta tvennt er tekið saman og athugað, kemur í ljós, hvort allur gjaldeyririnn kemur aftur fram, þ. e. hvort viðskiptamenn bankanna nota gjaldeyrinn til þess, sem þeir gefa upp, þegar þeir fá gjaldeyrinn keyptan. Því að vitanlegt er það, að þó að valdið til þess að selja gjaldeyri sé flutt frá viðskiptaráði til bankanna, verða viðskiptamenn samt sem áður að gera grein fyrir því, til hvers þeir nota þennan gjaldeyri. — Það er síður en svo hugsunin að slappa eftirlitið, eins og hv. þm. komst að orði. Það er þvert á móti tilætlunin — og það er verið að vinna að því nú — að koma á strangara gjaldeyriseftirliti en verið hefur. Það eru náttúrlega vissir erfiðleikar á því að koma gjaldeyriseftirlitinu í það horf, að það verði fullkomið, en að því verður keppt, það má hv. þm. vera viss um, hvor skipunin sem verður á þessu höfð.

Þá veik hv. þm. að því, að eðlilegt væri að skipa viðskiptaráð á þann hátt, að láta þingflokkana fjóra tilnefna menn í ráðið. Það er álitamál, hvað viðkunnanlegt er í þessu. Ég get ekki séð, hvað vinnst með því að lögfesta slíkt ákvæði. Innflutningurinn er ekki neitt flokkspólitískt mál, og því er ekki ástæða til að reyra þetta sem allra föstustum böndum við pólitísku flokkána. En hins vegar geri ég ráð fyrir því, að hver ríkisstjórn, sem með þettá mál færi, mundi hafa menn úr öllum þingflokkum í viðskiptaráði, ekki af því, að innflutningurinn sé flokkspólitískt mál, heldur af því, að það er sjálfsagt að skapa þann frið um þessi mál, sem unnt er. Og hann næst bezt með því að hafa menn úr öllum flokkum í viðskiptaráði. Niðurstaðan mundi því að þessu leyti verða ákaflega svipuð, hvort sem brtt. hv. 4. þm. Reykv. um þetta er samþ. eða ekki. — Aftur á móti má segja, að það skipti nokkru, hvort viðskiptaráðsmennirnir eru hafðir fjórir eða fimm. Það eina, sem að mínu áliti mælir með því, að þeir séu fjórir, er það, að við það sparast lítils háttar kostnaður. Ég játa, að ég geri ekki ráð fyrir, að störf viðskiptáráðs verði það mikil, að fjórir menn komist ekki yfir þau. Hins vegar er sá galli á því að hafa fjóra menn í Viðskiptaráði, að þá er tæplega hægt að komast hjá því að láta einn manninn, form., hafa tvö atkv., ef jöfn eru atkv. annars, og held ég, að það sé óheppileg tilhögun. Það þekkja nú allir, hve mikill styrr stendur yfirleitt um þessi innflutnings- og gjaldeyrismál og hve vanþakklátt verk það er að úthluta innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, og hve mjög þeir menn, sem við þessi störf fást, eru tortryggðir, stundum kannske með réttu, en þó miklu oftar með röngu. Það mundi ekki verða til þess að draga úr þessari tortryggni og óánægju, sem yrði með skipun þessara mála, ef einn maður í ráðinu, og það eftir vali hlutaðeigandi ráðh., hefði þar tvöfaldan atkvæðisrétt. Það má segja, að þetta komi nokkuð í sama stað niður, því að hlutaðeigandi ráðh. mundi skipa mann, sem honum væri handgenginn, og þá mann úr sama flokki sem hann sjálfur er í, sem form. í ráðið, þótt fimm menn séu þar. En það mundi þó yfirleitt verða betur séð, að meiri hluti atkv. réði niðurstöðum í ráðinu en að einn maður, sem skipaður væri af ríkisstj., hefði það vald að ráða úrslitum, þegar jöfn atkv. væru um mál.

Þá veik hv. 4. þm. Reykv. að því, að óeðlilegt væri, að verðlagsstjóri hefði ekki atkvæðisrétt um verðlagsmálefni, þegar viðskiptaráð fjallaði um verðlagsmál. Það hefur ekki verið svo eftir gildandi l., og mér er ekki kunnugt um, að það a. m. k. hafi valdið neinum árekstrum eða óánægju. Verðlagsstjóri á venjulega sæti á fundum viðskiptaráðs, þegar það fjallar um verðlagsmál. Hann hefur tillögurétt þar, og ég ætla, að í framkvæmdinni hafi það verið svo, að það hafi verið hrein undantekning, að till. hans hafi ekki náð fram að ganga. Ég er ekki viss um, að það skapaði verðlagsstjóra á nokkurn hátt þægilegri aðstöðu, þó að hann með atkv. sínu ætti að skera úr um það, hvort hans eigin till. skuli ná fram að ganga eða ekki.

Það er ekkert, sem bendir til þess, að innflutningsnefnd verði tekin upp aftur. Þvert á móti eru viðskiptin meira og meira að færast í það horf, að ástæðulítið er að endurreisa þá stofnun, sem vissulega gerði þó gagn á vissu tímabili, en virtist að síðustu óþörf. Og það var að nokkru leyti eftir bendingu frá amerísku stjórninni, að innflutningsn. var lögð niður.

Fleira í ræðu hv. 4. þm. Reykv. sé ég ekki ástæðu til að ræða hér, enda hef ég gert ofurlitla grein fyrir frv.