12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Páll Zóphóníasson:

Í sambandi við þetta mál óska ég nú eftir að sjá þá umsögn vegamálastjóra, sem getur í nál. Hafi hann þar rakið, hve margar sýslusamþykktirnar eru og hvernig ástæðurnar eru í hinum ýmsu sýslum, væri það mjög mikils virði fyrir mig, sem ekki er að þessu leyti alls kostar kunnugur í öllum sýslum, hvernig þar er ástatt, áður en ég greiði atkv. með þessu frv. Annars skil ég ekki, hvernig á því getur staðið, að þetta plagg kemur ekki í dagsins ljós. Af sparnaði held ég, að það geti ekki verið.

En það, sem kom mér til þess að standa upp, var ekki þetta, heldur hitt, að samkv. þessu frv. er sýslusjóðsframlagið hækkað og þá hækkar það, sem ríkissjóður þarf að greiða á móti. Hins vegar hefur hæstv. Alþ. aldrei áætlað svo mikið fé til sýslusjóðsvega nú seinni árin, að ríkið hafi getað greitt lögskilið framlag móti framlagi sýslusjóðs, og því verður að hækka það, ef á að ná því marki, sem því er hér ætlað, og fá meira fé frá ríkissjóði móti framlaginu heima fyrir. —Á þetta vildi ég benda hv. fjhn.