22.10.1945
Neðri deild: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

34. mál, sala spildu úr Kjappeyrarlandi

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það þarf ekki mikla framsögu fyrir þessu máli, þar eð grg. skýrir frá því, hvers vegna frv. er fram komið, sem sé að fyrirsjáanlegt er, að Búðakauptún muni byggjast inn á þá lóðaspildu, sem þar er gert ráð fyrir, að þorpið fái kaupandarétt á. Þetta hefur verið auðséð nokkuð lengi, og síðast þegar jörðin var leigð af hendi ríkisins, þá er þessi sama landspilda undanskilin í byggingarbréfinu, en gert ráð fyrir því, að ábúendur hefðu hennar not, meðan landið yrði ekki notað í bryggjulóðir eða á annan hliðstæðan hátt, og ætlumst við að sjálfsögðu til þess, að ábúendur haldi þeim sama rétti, sem þeir hafa nú, hjá hreppnum eins og þeir höfðu hjá ríkinu, unz landið yrði tekið til afnota.