29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég hef hér áður borið mig upp undan því, að hæstv. forseti hefur ekki tekið fyrir nokkur mál, sem ég hef flutt í Sþ. Önnur, sem hafa verið afgr. frá n., hafa ekki heldur verið tekin á dagskrá eftir að sú afgreiðsla hafði farið fram. Ég vildi endurnýja þetta. En að ég kvaddi mér hljóðs nú, er sérstaklega með tilliti til eins málsins, sem er þáltill. um aðgerðir varðandi væntanlega ferju yfir Hvalfjörð. Þessu máli var vísað til fjvn. á laugardaginn var. En ég sé á dagskránni, sem hér liggur fyrir, að það á ekki að taka þáltill. til meðferðar nú. Þar af leiðandi er það sýnilegt, að endanleg afgreiðsla fæst ekki á þessari till. á þessu þingi. Hins vegar sýnir afgreiðslan, sem farið hefur fram við fyrri umr., mjög eindregið fylgi með till., þar sem hún var samþ. með 30 shlj. atkv. í Sþ. Nú vildi ég skjóta máli mínu til hæstv. samgmrh. og spyrja hann um það, hvað hann treysti sér til að gera til fyrirgreiðslu þessu máli nú eftir að þingi slítur. Eins og kunnugt er, er búið að kaupa skip til þess að annast þetta flutningastarf, og það, sem eftir er til þess, að þetta geti komið til framkvæmda, er aðgerð báðum megin fjarðarins auk nokkurrar endurbótar á vegum. — Þætti mér vænt um, ef hæstv. samgmrh. vildi segja, hvað hann gæti gert til þess að greiða fyrir þessu máli, eins og það nú liggur fyrir.