15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

34. mál, sala spildu úr Kjappeyrarlandi

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég vil geta þess í sambandi við þetta mál, að ég hef fengið skeyti frá hreppstjóra Fáskrúðsfjarðarhrepps, þar sem hann mótmælir þessari sölu á þeim hluta Kjappeyrarlands, sem þar er um að ræða. Sams konar skeyti hefur komið til hv. flm. frá oddvita þessa hrepps. Ég talaði við oddvitann í gær, því að þessi mál heyra fyrst og fremst undir hreppsn. Hann tjáði mér, að íbúar Fáskrúðsfjarðarhrepps væru yfirleitt andvígir, að þessi sala færi fram, og ef hún færi fram, óskuðu þeir eftir kauparétti á þessari landspildu.

Það, sem hann færði til, var, að þeir höfðu hugsað sér, að þar væri mjög hentug aðstaða til sveitaverzlunar.

Nú er, það að segja um þetta mál, að það er sama eðlis og mjög, mörg önnur mál, sem Alþingi hefur áður haft með að gera varðandi landakaup til handa þorpum, sem eru í landþröng og óska eftir landi frá nærliggjandi hreppi, og það er í sjálfu sér ekki nýtt, að ágreiningur verði um það milli viðkomandi hreppa, því að þetta er hagsmunamál beggja. Hins vegar er það svo, að þrátt fyrir þessi mótmæli hreppstjóra og oddvita í Fáskrúðsfjarðarhreppi hefur landbn. álitið, að hér væri um mál þess eðlis að ræða, að það væri ekki ástæða til annars fyrir Alþingi en að verða við þeirri beiðni, sem hér liggur fyrir frá Búðahreppi, því að ef farið væri inn á þá braut, sem er gagnstæð því, sem þingið hefur fylgt að undanförnu, og neita þorpinu um nauðsynlegt land, sem það þarf á að halda, út úr öðru sveitarfélagi, án þess að það séu einhver alveg sérstök rök, sem mæli gegn því, þá verð ég að segja, að þessi rök frá viðkomandi oddvita, sem hann hefur borið fram, eru að áliti landbn. ekki það sterk, að ástæða sé til að stöðva frv. þeirra hluta vegna. Hins vegar hafa hv. þm: þessa héraðs, sem þarna eiga hlut að máli, að sjálfsögðu tækifæri til að ræða málið nánar við hlutaðeigendur, og ég veit, að þeir munu, þó að málið haldi áfram, áður en það verður að l., leitast við að komá á samkomulagi.

Sem sagt eru þessar upplýsingar, sem ég hef fengið, og mótmælin, sem fela ekki í sér annað en þetta, þannig, að ég fyrir mitt leyti sé ekki ástæðu til að stoppa frv. af þeim orsökum á þessu stigi.