08.11.1945
Neðri deild: 28. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

64. mál, ábúðarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var að lesa þetta frv. yfir og komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi tæplega vera hægt að afgreiða það frá hv. þd. eins og það nú er. Ég hef ekki svo mikið að athuga við efni þess, en mér finnst aðalformið að sumu leyti nokkuð öðruvísi en vera ætti. Ég vil benda á til dæmis í 1. gr. frv., að 5. málsgr. hefst á þessum orðum: „Sinni sveitarstjórn ekki þeirri málaleitun ...“ o. s. frv. Þessi málsgr. skilst mér, að ætti að koma annars staðar inn í frvgr, — Í 2. gr., upphafi hennar, er talað um kröfu sveitarstjórnar, er um ræði í 2. málsgr. 1. gr. Þetta getur ekki staðizt, vegna þess að 1. gr. ábúðarl. er aðeins ein málsgr. og um annað efni en hér er vísað til. Mér þykir líklegt, að þetta eigi að vera 3. gr. l., eftir að búið er að breyta henni á þann hátt, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. — Eitthvað fleira finnst mér við frv. að athuga, t. d. það, að í því finnast aðeins 8 gr., þó að talið sé, að gr. séu 9.

Ég vil því beina því til hv. landbn., hvort hún vill ekki taka málið til athugunar, áður en það er afgreitt frá hv. þd., ef hæstv. forseti vildi fresta umr. á meðan.