05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

64. mál, ábúðarlög

Frsm. (Eirikur Einarsson) :

Herra forseti. Það skal játað með hv. þm. Barð., að margt er bæði í frv. þessu og ábúðarlögunum, sem er ábótavant. Ég geri ráð fyrir því, að þótt frv. þetta verði að lögum, geti bráðlega borið nauðsyn til þess að endurskoða ábúðarlögin. Ég geri ráð fyrir, að hv. þingdeild sé kunnugt, hvers vegna frv. þetta er fram komið. Það er tilraun til þess að afmá verstu annmarka ábúðarlaganna. Í mörgum sveitum eru vel byggilegar jarðir, sem fallið hafa í eyði, og er ekki alltaf hægt að kenna landsdrottni um það. En með hertum ákvæðum laga, ætti stundum að vera hægt að koma í veg fyrir, að svo fari. Það fer að vísu mikið eftir því, hvernig sveitarstjórnirnar vilja beita lögunum, hversu næma tilfinningu þær hafa fyrir því að gera það rétta. Sem svar við fyrirspurn hv. þm. Barð. (GJ) vil ég segja það, að ekki verður annað lesið út úr frv. þessu en að hið sama gildi um opinbera eign og einkaeign. Það er ekki mikið um það að segja. Þegar séð er fyrir nauðsynlegum skilyrðum til þess að byggð geti haldizt, þá sé ég ekki ástæðu til annars en að ríkissjóður haldi sínar skyldur á sama hátt og einstaklingarnir.

Ýmislegt getur komið til athugunar vegna legu jarðanna, eins og það, hvort til greina getur komið að skipta þeim eða þess háttar.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta frekar, en vænti þess, að frv. fái að halda sína leið til samþykktar.