05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

64. mál, ábúðarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég sé satt að segja ekki, að þetta frv. sé svo ægilegt eins og þeim virðist það hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Barð. Ég heyrði reyndar ekki ræðu hv. þm. Barð. til hlítar. En eftir því, sem minnzt var á úr henni, virtist honum þykja þetta ægilegt frv. Í 1. gr. frv. kemur ekkert nýmæli fram. Ef maður les 3. gr. l. nr. 87 frá 1933, þá er þetta tekið, a. m. k. tvær fyrstu málsgr., hér um bil orðrétt upp úr l. En þá kemur 3. málsgr. 1. gr. frv., um að sveitarstjórn geti krafizt þess, að landsdrottinn láti fylgja jörðinni nauðsynleg hús og mannvirki o. s. frv. En í 11. gr. í gildandi ábúðarl. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er landsdrottni að láta fylgja leigujörð sinni nauðsynleg bæjarhús og peningshús í góðu lagi, að dómi úttektarmanna.“

Nú er það einnig í ábúðarl. heimilað, að ef ekki eru nægileg hús á jörðum, svo sem ef hús fellur, þá er landsdrottni skylt eitt af tvennu, annaðhvort að byggja upp nægileg jarðarhús eftir mati úttektarmanna eða, ef hann ekki vill gera það, þá má leiguliði gera það, og síðan skulu húsin metin af úttektarmönnum og það framlag, sem leiguliða ber fyrir það frá landsdrottní, því að landsdrottinn þarf ekki að kosta rif húsanna eða flutning á innlendu efni, en hitt verður hann að kosta að mestu eða öllu leyti. Og þetta verður landsdrottinn að greiða eftir mati úttektarmanna til leiguliða, sem í slíku tilfelli byggir upp. Svo að það er hér um bil sama og það, sem hér er á ferð í þessu frv. Í frv. þessu er aðeins talað um, að nauðsynleg hús og mannvirki skuli vera á þessum jörðum ekki í lakara lagi en telja verður meðallag í þeim hreppi, sem jörðin er í, að dómi úttektarmanna, miðað við landverð jarðarinnar. Svo að þetta virðist vera mjög svipað ákveðið í þessu frv. eins og er í gildandi ábúðarl. — En aftur á móti er öðru máli að gegna um 2. gr. frv., um það, ef jarðeigandi þrjózkast við að láta jörð, sem hann á, á leigu eða vanrækir að bjóða sveitarstjórn jörðina til ráðstöfunar, ef sveitarstjórn viil taka hana til þess eftir mati úttektarmanna, þ. e. ef jarðeigandi vill ekki á neinn hátt láta jörðina í annarra hendur, þá geti komið til þeirra kasta, sem 2. gr. talar um, að uppboð fari fram á jörðinni eða því um líkt, ef jörðin er ekki nytjuð eða haldið við eins og tilskilið er.

Annars eru ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er borið fram, þ. e. þessa breyt. er lagt til að gera, sú, að ýmsir utansveitarmenn, sem hafa gert það sér til ágóða eða skemmtunar að kaupa jarðir, hafa svo ekki hugsað verulega um að yrkja þær. Þeir hafa þá kannske lánað eitthvað það bezta af slægjum jarðanna mönnum í sveit eða kaupstað, selt burt hey af túni eða þess háttar, en notað jörðina að öðru leyti til leikvalla eða lax- eða silungsveiði. Þetta mun vera það, sem hefur komið hv. flm, af stað til þess að reyna að fyrirbyggja þetta.

Annars er ekki hætt við því, að sveitarstjórnir gerist leigjendur jarða til þess svo að framleigja þaer nema nauðsyn beri til. Þess vegna segi ég, að frá mínum bæjardyrum séð sem form. landbn., þó að hv. þm. Barð. vilji ekki kannast við mig sem slíkan, verður engu um bætt með því að vísa þessu máli aftur til nefndar. Ég held, að það sé þá bezt að láta skeika að sköpuðu um það, hvort frv. þetta verður fellt eða samþ. Því að það er búið að eiga svo mikið við þetta mál, bæði á Alþ. og utan þings, að það verður að ég hygg ekki til mikilla umbóta fyrir málið að vísa því nú aftur til n. (BBen: Vill hv. form. n. ómerkja orð hv. frsm.?) Hann sagði: Ef aðrir nefndarmenn mæla ekki á móti því. Og mér dettur ekki í hug að ónýta orð þessa heiðursmanns, síður en svo. En ég tek eftir því, sem hann segir, og reyni að fara rétt með hans orð, en ekki snúa þeim og afbaka þau, eins og sumir vilja fara með þetta frv,, sem hér liggur fyrir n. — Ég vil helzt, að gengið verði til atkv. um þetta mál nú þegar.