05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

64. mál, ábúðarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. Dal. hefur nú tekið af mér ómakið, því að ég er honum sammála um það, að þetta frv. sé ekki stórhættulegt. En um það atriði, sem hér hefur verið mest talað um, þ. e. kröfur á hendur ríkissjóði vegna byggingar á jörðum, sem hann á, er það að segja, að það er ekki farið fram á annað um það atriði hér í þessu frv. en það, að ríkissjóður standi í því efni jafnt að vígi og aðrir landeigendur, sem ekki búa á jörðunum sjálfir. Og ég verð að segja það út af því, að mér finnst það ríkinu tæplega sæmandi — eins og reyndar gert hefur verið undanfarið vegna breyt. á ábúðarl., sem komust inn hér á hæstv. Alþ. á sínum tíma, þegar ábúðarl. voru sett, því að þá var því frv. breytt, sem upphaflega var fyrir þingið langt — að gera hærri kröfur til þeirra þegna þjóðfélagsins, sem eiga jarðir í leiguábúð, heldur en ríkið gerir í þessu efni til sjálfs sin. Það kann að vera alveg rétt, sem hv. form. fjvn. segir, að ef ríkið á að fullnægja þeim skyldum í þessu efni, sem það leggur á aðra, þá þurfi að veita meira fé til þess en undanfarið hefur verið gert. En ég sé ekki annað en að það sé skyldugt til þess og því sjálfsagt að gera það.

Hæstv. landbrh., sagði áðan, hann er nú að vísu ekki við hér nú, að þegar hann hefði verið ungur og þeir, sem væru á svipuðum aldri og hann, þá hefði alveg mátt þekkja þær jarðir úr í sveitunum, sem hefðu verið í opinberri eigu, vegna þess, hve þær hefðu verið illa setnar. Ég er nú svo að segja nákvæmlega á sama aldri og hæstv. landbrh. er, og ég kannast nú ekki við þetta úr þeim byggðarlögum, þar sem ég er kunnugastur. Það voru aðrar jarðir, sem mátti þekkja úr þar og þá, vegna þess, hve illa þær voru setnar, sem voru þær jarðir, sem voru í leiguábúð, en í eigu einstaklinga. Þær mátti alveg þekkja úr í þá daga, vegna þess, , hve allt drafnaði þar niður. En nú, síðan ábúðarl. komu og þær kvaðir, sem lagðar voru með þeim á landsdrottna, þá er þetta töluvert að snúast við, þannig að það er víða svo, að það er ekki lifandi leið fyrir ábúendur á ríkisjörðum að fá nauðsynlegar umbætur gerðar á húsum, vegna þess að ríkið þrjózkast við að leggja frarri fé til þess. Nú væru náttúrlega fleiri leiðir færar til þess að ríkið byggði upp á jörðum sínum en það, að ríkið beinlínis legði fram fé í þessu skyni, og gengi það nokkuð í þá átt, sem hv. þm. Barð var að tala um, og það var það, að ríkið væri frjálslyndara en það nú er um það að veita ábúendum þessara jarða veðleyfi í jörðunum til lántöku, svo að þeir gætu tekið lán til framkvæmda, sem nauðsynlega þarf að gera á jörðum ríkisins, og það veðleyfi þyrfti að sjálfsögðu að vera ríflegt. Því að ég þekki til þess um marga ábúendur opinberra jarða, að þeir mundu hiklaust ráðast í lántöku, ef þeir fengju leyfi til þess að veðsetja jörðina að fullu, þó að þeir yrðu þá sjálfir að kosta einhverju til, til þess að geta byggt upp á þessum jörðum. Því að það er auðvitað, að ef svo atvikaðist, að þeir flyttu burt af þessum jörðum, þá væru þeir lausir við lánið, því að það hvíldi á jörðinni, og þeir þyrftu þá ekki að eiga meira á hættu en það, sem þeir legðu fram af eigin fé. En eins og nú er, þarf leiguliði oft að eiga það á hættu að tapa mestöllu því fé, sem hann kann að hafa lagt í umbætur á jörðinni, ef hann flytur þaðan. Þetta álít ég m. a. til athugunar, sérstaklega ef þetta frv. verður samþykkt.

Þessar þjóðjarðir eru nú með tvennum hætti, eins og menn vita. Það eru annars vegar þær gömlu þjóðjarðir með þeim gamla leigumála, sem var áður fyrr. Hins vegar eru aftur bæði þær þjóðjarðir, sem voru keyptar af ábúendum og eigendum nú fyrir nokkru, og fleiri, sem leiguliðarnir hafa fengið í erfðaábúð. Eins og ménn vita, gilda um þær jarðir sérstök ákvæði, og ábúendum þeirra er heimilt að taka lán út á jarðirnar. En það er ekki nema sem svarar helmingi landverðs, sem er lántakendum náttúrlega allt of lítið. Og ég vil gjarnan beina því til hv. landbn. um leið og þetta frv. er samþ., að hún athugi ákvæði laga um erfðaábúð og óðalsrétt hvað þetta snertir. Ég leit svo á, þegar þau lög voru sett og gerði tilraun til að laga það þá, að þessi heimild til veðsetningar jarða í erfðaábúð væri allt of lág.

Ég, sem sagt, tel, að þar sem ríkið hafi verið með beztu landsdrottnum þegar við hæstv. landbrh. og ég vorum unglingar, þá sé það nú orðið með þeim lökustu. Enda eru nú fáir landsdrottnar reyndar að verða nema ríkið.