05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

64. mál, ábúðarlög

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að mér virðist hér í hv. d. gæta nokkurs misskilnings um þetta frv. Það hefur verið rætt um það eins og það ætti að gilda um jarðir yfirleitt. En þetta er alls ekki svo, heldur á þetta frv. aðeins við um jarðir, sem eigendur búa ekki á og annaðhvort nytja að einhverju leyti sjálfir eða nytja ekki og þess vegna níðast niður, þannig að hús falla og að því rekur síðast, að þær verða ekki byggilegar. Ákvæði þessa frv. eiga við þessar jarðir, en ekki þær, sem í ábúð eru. Ég vil vekja athygli hv. þdm. á þessu.

Mér fannst hv. 6. þm. Reykv. halda því fram, að hér væri verið að leggja kvaðir á jarðeigendur, sem ekki hafi þekkzt áður. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Ég held, að ábúðarl. leggi vissar kvaðir, að vísu vægar, á eigendur jarða um að húsa þær, og á það hefur verið drepið af öðrum hv. þm. hér. Og það er kunnugt, og þekkja sjálfsagt margir, að það er að verða svo meira og meira nú, að einhverjir menn einhvers staðar, hingað og þangað um landið, eiga jarðir, en hirða ekki um að hafa þær í ábúð. Þessar jarðir rýrna og verða að engu, sveitarfélagi og þjóð til lítils gagns og eigendum sjálfum vitanlega líka. Og mér finnst sjálfsagt að setja ákvæði til varnar því, að þetta verði svona áfram. Það er ekki víst, að þetta sé rétta ráðið, sem ákveðið er í þessu frv. til þess að varna þessu, en mér finnst þetta reynandi.

Ég hygg, að að sumu leyti hafi eitthvað verið til í því, sem hæstv. landbrh. sagði, að þegar hann var ungur, hafi verið auðvelt að þekkja úr jarðir, sem ekki voru í sjálfsábúð, vegna þess, hve þær voru illa setnar. En ég býst við, að sú breyt., sem gerð var á ábúðarl., að nú á að byggja jarðir til lífstíðar, hafi haft alvarlega þýðingu um það, að sú breyt. er á orðin, að minni munur er á jörðum annars vegar, sem eru í leiguábúð, og hins vegar í sjálfsábúð.

Ég læt mig engu skipta, hvort þessu frv. verður vísað til landbn. aftur. Það má vel vera, að nm. hafi við þessa umr. tekið eftir einhverju, sem mætti taka til yfirvegunar, þó að ég búist ekki beint við því.