05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

64. mál, ábúðarlög

Bernharð Stefánsson:

Það er náttúrlega tilgangslaust að ræða við menn eins og hv. 6. þm. Reykv., sem býr til ræður, sem hann segir, að aðrir menn hafi flutt, alveg eftir því, sem honum hentar, og leggur svo út af því. Ég aðeins tók undir þau ummæli hv. þm. Dal., form. landbn., að frv. þetta mundi ekki vera að neinu leyti hættulegt. Á hinn bóginn gerði ég að aðalumtalsefni kost, sem ég taldi vera á frv. Það var mitt aðalumtalsefni. — Það var ekki ég, sem innleiddi hér umr. um ofbeldi, heldur hv. 6. þm. Reykv., sem fór að tala um ofbeldi í sambandi við 17. gr. jarðræktarl., sem ekki kom þessu máli við. Ég aðeins anzaði þessum ummælum hans og benti honum á það, sem hann getur ekki neitað með nokkrum rökum, að hér stendur til að beita bændastétt landsins meira ofbeldi en þekkzt hefur hér á landi og í nokkru lýðræðislandi, sem sé, að tekin verða af henni öll ráð um sölu afurða hennar og lífsafkomu. Meira hef ég ekki við þennan hv. þm. að segja.