23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

78. mál, aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1945

Eysteinn Jónsson:

Ég hef hugsað talsvert um þetta mál. Mér er ljóst, að það getur verið örðugt að koma þessu fyrir. Ég vil þó slá því föstu sem eðlilegri meginreglu, að ekki geti komið til mála, að ríkið fari að ganga í ábyrgð fyrir hlutafjárútgerð, sem væri þannig varið, að eigendurnir sjálfir vildu ekki taka ábyrgð á lánum. Þetta hlýtur að vera sjálfsögð meginregla. Og ef við sleppum þessari meginhugsun, hvar getum við þá fótað okkur? Alls hvergi. Þá er hægt að stofna hlutafélög í öllum mögulegum atvinnugreinum með sama sem engu hlutafé, og svo ef út af ber, þá er hægt að færa áhættuna yfir á það opinbera. Mér skilst, að allir séu sammála um, að koma verði í veg fyrir, að fyrirtæki þurfi að stöðvast. Mér skilst, að allir séu sammála um, að það verði að koma í veg fyrir, að framleiðslufyrirtæki stöðvist vegna óhagstæðra aðstæðna yfir sumarið, en þá er eðlilegt, að eigendurnir gangi ekki verr fram en ríkissjóður í því að sjá fyrirtækjunum borgið. Hitt er annað mál, eins og ég gat um og hv. 2. þm. Eyf. kom inn á, að það er hugsanlegt, að einn sérvitringur, sem ekkert vill á sig leggja, geti sett félagið í vanda, og þess vegna hef ég ekki viljað hafa þetta skilyrði alveg fortakslaust, því að það gætu komið aðrar ábyrgðir í staðinn, sem sjóðsstjórnin mæti gildar. Eins er það ekki meiningin, að stjórnarvöldin einskorði trygginguna við persónulega ábyrgð. Fyrst koma hlutafélögin með þær tryggingar, sem þau hafa, og má búast við, að í mörgum tilfellum verði þær lélegar. En ef sjóðsstjórninni finnst þær ekki nægar, þá kemur persónuleg ábyrgð til.

Mér er kunnugt um, að hæstv. atvmrh. hefur áhuga fyrir, að þetta mál verði afgr. til Ed. fyrir helgi, en ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, að málinu verði frestað, en það mætti alveg eins athuga í Ed., ef einhverjir formgallar væru á þessu, sem ég held, að sé ekki. Aðalatriðið er prinsipið, hvort menn vilja, að ríkissjóður láni félögum með takmarkaðri ábyrgð, nema eigendurnir komi með ábyrgðir sínar, en það finnst mér, að allir geti verið sammála um.