13.12.1945
Efri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

78. mál, aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1945

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál, ég vil aðeins greina afstöðu mína til málsins í n. Þó að ég hafi ekki skrifað undir nál. með fyrirvara, hef ég ekki verið að öllu leyti fús að fylgja málinu óbreyttu. Það, sem mér er kunnugt um málið, er það, að stj. hefur verið sammála um, að það nái fram að ganga, þó því aðeins, að tryggt væri, að ríkissjóður þyrfti ekki að bera fjárhagslegt tjón af þessu máli. Afstaða mín hefur því miðazt við það eitt að tryggja það, að ríkissjóður þyrfti ekki að bera fjárhagslegt tjón af þessum lánum. Hér er gengið inn á að tryggja ákveðnum aðilum lán með miklu lægri vöxtum en þeir gætu fengið í bönkunum, og er það út af fyrir sig talsverð hjálp, þó að ekki sé einnig farið á sama tíma inn á þá braut að gefa áhættulaust — sem ríkið kannske sæi aldrei — það fé, sem hér á að lána. Þess vegna er það, að ég hef beitt mér fyrir því að fá breyt. á 6. gr. frv., þannig að lánstíminn yrði aldrei yfir 5 ár og það væri metið á sama tíma og lánin væru veitt, hvað lánstíminn þyrfti að vera langur. Ég teldi réttast, að slík rekstrarlán, sem hér um ræðir, væru ekki veitt til lengri tíma en eins árs, en til samkomulags mun ég ekki gera ágreining út af þessu atriði.