26.10.1945
Neðri deild: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

42. mál, fyrirhleðsla Héraðsvatna

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er í aðalatriðum shlj. l. um fyrirhleðslu Þverár og Markarfljóts, að því leyti, sem þar gat átt við. Um efni frv. að öðru leyti skal ég taka það fram, að það er með Héraðsvötn eins og ýmis önnur jökulvötn, að þau hafa bylt sér um héruðin frá alda öðli, hlaðið undir sig og flutt sig til. Það er vitanlegt öllum, að ekki þarf annað en að líta í Sturlungu til þess að sjá, að vatnsföllin hafa fallið annars staðar en þau falla nú. Um langt skeið hafa Héraðsvötnin fallið austan megin héraðsins, en fyrir 40 árum fluttu þau sig til og hafa fallið síðan vestan við Steinsstaðahólminn meðfram Reykjatungu og Vindheimabrekkunum. Þegar þetta gerðist, voru meðfram brekkunum breiðir og sléttir bakkar og allvíðáttumikið sléttlendi, en nú er svo komið, að Vötnin hafa brotið nær allt þetta land undir sig og eru komin upp undir klappir og brotna þar á bergi. Norðar tekur við Vallhólmurinn, sem eins og kunnugt er er marflöt slétta með sendnum valllendisbökkum, sem ekki veita hina minnstu fyrirstöðu, og mylja Vötnin þetta land niður takmarkalaust, og hefur það aukizt ár frá ári. Norðan við Vindheimabrekkurnar eru fornir farvegir Héraðsvatnanna, og stefna þeir í tvær áttir. Liggur aðalfarvegurinn og sá, sem stafar mest hætta af, vestur með Vindheimabrekkunum og vestur í Svartá. Þessi farvegur er hættulegri að því leyti, að hann er með flughalla alla leið vestur í Svartá. Hinn farvegurinn eða fleiri en einn stefna allir norður Vallhólminn, og eru þeir ekki með eins miklum halla, en gætu þó engu að síður orðið hættulegir, ef mikill hluti vatnanna félli í þá. Okkur þm. Skagfirðinga hafði verið skýrt frá því, hve hættan hefði aukizt mikið á þessum slóðum, og fórum við því fram eftir til þess að sjá þetta með eigin augum. Verð ég að segja það, að mér hefur ekki oft brugðið eins í brún og er ég kom þangað, því að þar, sem ég reið um fyrir tveim árum eftir sléttum bökkum, var nú ekkert annað en aurar. Urðum við allir stígvélafullir og urðum að gæta þess í sumum kvíslunum, að hestarnir færu ekki á sund, en vötnin eru þarna komin fast að vestasta varnar garðinum. Ég vil taka það fram, að Skagfirðingar í þeim sveitum, sem hér eiga hlut að máli, hafa ekki horft á þetta aðgerðalausir. Það eru meira en 20 ár síðan byrjað var að hlaða fyrir Vötnin, og hafa alls verið byggðir þarna 4 varnargarðar. Tvo þeirra eru Vötnin búin að brjóta, en hafa nú brotizt fyrir endann á þeim þriðja, og er nú loks eftir síðasti varnargarðurinn, er liggur frá Arnarbergi í Vindheimabrekkum þvert yfir aðalfarveginn, sem áður er um getið, og norður á Vallhólminn. Takist Vötnunum að brjóta þennan garð, geta þau fallið með öllum sínum þunga vestur í Svartá. Hins vegar mundi Svartá ekki taka nema 1/4 af því vatnsmagni, en hitt mundi falla norður yfir Vallhólminn, sléttlendið og alla leið til sjávar. Við þetta mundi ekki aðeins Vallhólmurinn og sú blómlega byggð, sem á honum er, breytast í aura og sanda, heldur einnig öll beztu engjalönd héraðsins. — Þetta er hliðin, sem snýr að bændum héraðsins, en þetta mál hefur einnig aðra hlið, sem sé, að þjóðvegurinn norður til Eyjafjarðar liggur yfir Vallhólminn, en þegar svo er komið, að Vötnin hafa brotið vestasta garðinn og flæða yfir Hólminn, mundi vegurinn verða með öllu ófær. Þetta mundi hafa það í för með sér, að flytja yrði veginn og byggja tvær stórbrýr á Svartá og Héraðsvötn, sem mundi kosta mikið fé og lengja leiðina. En þetta mál snertir ekki aðeins Skagfirðinga, því að hér eru mikil og þýðingarmikil mannvirki í húfi, sem mundu kosta ríkissjóð of fjár, ef illa færi. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. verið ljóst, og viljum við flm. fyrir hönd Skagfirðinga votta þeim þakkir okkar fyrir það, sem þær hafa til þessara mála lagt fyrir hreppinn, sem þar hefur verið gert á undanförnum tímabilum. Nú er þetta hins vegar að verða svo þungur baggi á bændum þarna, að þeir treysta sér alls ekki til að standa undir þessu á sama hátt og verið hefur. Mig minnir, að framlagið úr ríkissjóði hafi verið 1/4 og mest upp í ½, að ég ætla, en þetta eru nú að verða svo geysimikil árleg útgjöld, að þetta er orðin há upphæð á margar jarðirnar, ef því er jafnað niður á þær. Þetta er ástæðan fyrir því, að við þm. Skagf. flytjum þetta frv., og einnig til þess að tryggja það, að þessi fyrirstaða verði undir opinberu eftirliti, vegna þess hve mikið er þarna í hættu. Við þm. Skagf. teljum, að það sé ekki eðlilegt og ekki forsvaranlegt, að það sé algerlega háð samkomulagi einhverrar stjórnar innan héraðsins, hvað mikið er gert á hverjum tíma. — Ég skal taka það fram, að við flm. höfum borið þetta frv. undir vegamálastjóra, og er það því flutt að því leyti í samráði við hann. Hafði hann ekkert við frv. að athuga. — Vegna þess, hve hættan er nú sérstaklega yfirvofandi, var byrjað í haust á þeim aðgerðum, sem taldar voru nauðsynlegar. Vegamálastjóri lét athuga þetta, og lét hann flokk manna fara að vinna þarna við garðinn, og verður væntanlega unnið að því áfram í vetur að treysta garðinn svo sem unnt er. Að sjálfsögðu verður að halda þessu verki áfram, þótt því fylgi að sjálfsögðu mikill kostnaður, því að hér er í rauninni það sama að gerast og manni skilst hafi verið í Rangárvallasýslu, þegar Markarfljót brauzt vestur yfir Þverá til forna.

Svo ætla ég ekki að eyða frekari orðum um þetta mál, en óska eftir, að því verði vísað til 2. umr. og þá líklegast til landbn., því að mér skilst, að svona frv. hafi verið hjá þeirri n. áður, þótt það gæti líka heyrt undir samgmn., því að þetta er mál, sem snertir mjög samgöngur og sérstaklega þjóðvegi landsins, en finnst samt eðlilegra að því verði vísað til landbn., því að sams konar mál hefur verið þar áður.