12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

Hermann Jónasson:

Það, sem hv. frsm. um þetta sagði, er rétt frá skýrt, en ég tel þó rétt að vekja athygli Alþ. á því, að með þessu er, a. m. k. að nokkru leyti, gengið inn á alveg nýtt fordæmi. Það hefur, eftir því sem ég, man bezt, verið skipt um þingfulltrúa á þann hátt, að t. d. Sigurjón Ólafsson hefur tekið hér sæti í stað 4. þm. Reykv. (StJSt), þegar hann var erlendis. Enn fremur Ásmundur Sigurðsson í stað 11. landsk. þm. (STh), þegar hann var einnig erlendis, enn fremur Katrín Thoroddsen í stað 2. þm. Reykv. (EOl), einnig þegar hann var erlendis. Það hefur enn fremur verið tekið gilt, að Haraldur Jónasson tæki hér sæti í stað 2. þm. Skagf., og þau forföll, sem þá lágu fyrir, voru störf hans á búnaðarþingi og í mþn., sem Búnarfélagið hafði skipað hann í, og átti hann því mjög annríkt. Nú er ákvæði greinarinnar þannig, að ef landsk. þingmaður er forfallaður sökum veikinda eða annars, tekur varamaður sæti í hans stað, en hann skýrir forseta frá, í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara o. s. frv. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um það, í hverju þessi forföll eru fólgin, og ef við göngum inn, á það, að einhver þingmaður geti horfið af þingi og sagt: Ég þarf að fara burt, — án þess að gera nánari grein fyrir, þá verðum við að gera okkur það ljóst, að við erum að ganga inn á alveg nýtt fordæmi. Ég vil þess vegna vekja athygli á því, að ég hygg, að það hafi ekki verið til þess ætlazt, að þingmenn gætu gengið hér út og inn og tilkynnt forseta, að þeir þyrftu að fara burtu, án þess að gera nánari grein fyrir því, og senda svo varamann hingað í sinn stað. En ég hygg, að það sé á valdi Alþ., en ekki forseta, að úrskurða um það, hvort forföll séu þannig, að það beri að taka þau gild, og það beri að leggja það undir atkv. Alþ.