23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

106. mál, byggingarsamþykktir í sveitum

Jón Sigurðsson:

Þetta frv. er samið af milliþn. búnaðarþings og samþ. af búnaðarþingi, en var síðar sent landbn. Nd.

Það er langt síðan heimildarl. voru gefin út til byggingarsamþykkta. Engum mun blandast hugur um, að á því var þörf, þó að það mætti á sínum tíma nokkurri andúð. Meðfram voru þessi lög nauðsynleg vegna skipulagningar og brunahættu. Nú eru aftur á móti engin lög sem heimila sveitarfélögum að setja byggingarlöggjöf eða byggingarsamþykktir. Það má segja, að ekki hafi verið þörf á slíku meðan hús voru almennt byggð úr torfi og timbri. En með nýju byggingarlagi, eins og nú tíðkast, er slíkra samþykkta þörf, því að það er augljóst, þar sem nú er mest byggt úr varanlegu byggingarefni, að það skiptir ekki litlu máli, hvernig hús eru sett, bæði með tilliti til landslags og annarra húsa. Það er ekki óalgengt að sjá heim á sveitabýli, þar sem hús eru sett niður eins og hrossatað sitt í hverri áttinni og auk þess hornskökk, slíkt er mjög leiðinlegt og hefði mátt komast hjá því, ef leiðbeiningar hefðu verið gefnar um þessi mál.

Þetta er þó sem betur fer ekki mjög algengt, því að víðar eru hús vel sett, en hitt stingur menn illa.

Nú er miklu fé varið til bygginga í sveitum, en bændastéttin hefur yfir takmörkuðu fé að ráða, en þörfin mikil. Þess vegna er nauðsynlegt, að þær byggingarframkvæmdir, sem gerðar eru, komi að sem beztum notum. Eftirlit byggingarsjóðs og nýbýlastj. hefur verið mjög takmarkað og ófullkomið. Býlin, sem byggingar hafa verið reistar á, eru dreifð um landið og því erfitt að framkvæma eftirlitið, enda hafa eftirlitsmennirnir oft ekki komið á staðina fyrr en eftir á, og þá engu verið hægt um að þoka. Það er því þörf á auknu eftirliti. Auk þess hefur ekkert tillit verið tekið til jarðskjálftahættu, sem þó er víða mjög mikil. Ég var ekki alls fyrir löngu á ferð austanfjalls. Þar var verið að byggja hús við veginn. Það var byggt úr steinum, en sáust ekki merki um neina járnbindingu. Ef harður jarðskjálftakippur kæmi, gætu slík hús kostað mörg mannslíf. Á Dalvík reyndist það svo fyrir nokkrum árum í jarðskjálfta, að steinhús, sem ekki voru járnbent, hrundu, og var sérstakt lán, að ekki varð manntjón að. Og ef jarðskjálftar kæmu eins og voru 1896, mætti búast við miklu tjóni og jafnvel manntjóni. Það er því fyllilega tímabært að taka til athugunar, að mönnum sé ekki leyft að byggja í algerðu hugsunarleysi um þessi mál. Gömlu torfbæirnir voru hættulegir, en þó verða ójárnbent steinhús mun hættulegri, því að þeir voru með löngum veggjum og fóru sjaldnast allir í einu, svo að fólk hafði tíma til þess að forða sér.

Þó að ekki væri annað en þetta, væri rík ástæða fyrir sýslunefndir að gera samþykktir um þessi mál.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að starfandi sé byggingarfulltrúi, sem getur verið sameiginlegur fyrir tvær eða fleiri sýslur, eftir því hvað verkefnið er mikið. Er það gert með tilliti til kostnaðar og að slíkur maður hafi ávallt nægilegt að gera. Þá er einnig gert ráð fyrir, að byggingarog landnámssjóður og nýbýlasjóður taki nokkurn þátt í þeim kostnaði, sem af þessu hlýzt. Er það gert með tilliti til þess, að þessi maður taki að sér það eftirlit, sem verið hefur með peim húsum, sem byggð hafa verið með stuðningi frá þessum sjóðum, en þetta eftirlit hlýtur að verða miklu fullkomnara með þessu skipulagi heldur en eins og nú er, að maður sé sendur einhverntíma sumarsins að líta eftir byggingunum. Einnig á þessi maður að geta haft eftirlit með ýmsu öðru, sem ég hirði ekki að fara út í, sem frv. greinir.

Þetta frv. varð eiginlega til, þegar n., sem ég gat um áðan, var að ræða um húsagerðarsamþykktir. Þá var n. ljóst, að þarna vantaði lið inn í, og til þess að þetta væri í lagi, þyrfti eftirlitið að vera meira en nú er. Ég geng þess ekki dulinn, að einstaka manni kann að þykja, að hér sé gripið fram fyrir hendurnar á sér og sum ákvæðin séu of ströng. En ég vil benda á, að ákvæðum slíkrar samþykktar er ekki ætlað að ná til annarra húsa en þeirra, sem byggð eru fyrir framtíðina, ekki aðeins þá, sem eru að byggja, heldur líka fyrir komandi kynslóðir, og þá tel ég, að nokkur ástæða sé til að hafa þetta eftirlit, svo að byggingarnar verði þannig, að komandi kynslóðir geti notað þær.

Að endingu skal ég geta þess, að þetta frv. hefur verið borið undir húsameistarana Hörð Bjarnason og Þóri Baldvinsson, og hafa þeir tjáð sig geta mælt með frv. í bréfi, sem þeir hafa skrifað n. á sínum tíma.