14.11.1945
Neðri deild: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

66. mál, sveitarstjórnarkosningar

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 149, og skal gera grein fyrir henni. Brtt. þessi fer fram á það, að kjörgengi manna til sveitarstjórnarkosninga sé nokkuð rýmkað frá því, sem nú er samkv. l. Samkvæmt gildandi l. eru menn ekki kjörgengir í sveitarstjórnir eða bæjarstjórnir nema þeir hafi verið teknir á kjörskrá við næstu kosningar á undan, sem í kaupstöðunum er gert 11 mánuðum fyrir kjördag og í hreppunum með nokkru lengri fyrirvara. Af þessu leiðir það, að menn, sem flytjast inn í sveitirnar eða á milli sveitarfélaga, eru ekki kjörgengir, þótt þeir séu orðnir heimilisfastir fyrir nálega ári síðan. Þetta er í ósamræmi við kjörgengi manna til Alþingis, því að þar geta menn ekki aðeins orðið frambjóðendur, þótt þeir hafi verið stuttan tíma í kjördæmi, heldur geta þeir verið frambjóðendur, þótt þeir eigi heima í öðru kjördæmi. — Þessi brtt. mín er á þá leið, að menn skuli öðlast kjörgengisrétt, ef þeir hafi verið búsettir í þrjá mánuði fyrir kjördag í kaupstaðnum eða hreppnum. Ég sneið þetta með tilliti til þess, að ekki þyrfti að breyta kjörskrá út af þessari breytingu. En það má nú heita svo, að menn, sem hafa kosningarrétt í öðru sveitarfélagi, séu í raun og veru ókjörgengir, ef þeir eru annars staðar á landinu, ef þetta ákvæði helzt óbreytt, þ. e. a. s., ef menn flytja milli sveitarfélaga, því að engum dettur í hug að hafa menn á kjörskrá í bæjum eða hreppum, sem hafa búið þar áður, en eru nú fluttir búferlum frá. — Ég hygg, að hv. dm. muni fallast á þessa brtt., því að hún skerðir ekki rétt neins, en er í raun og veru ekkert annað en leiðrétting. Ég greiddi atkv. móti þeirri breyt., sem samþ. var hér við næstu umr. á undan á þessari sömu gr. í l., en lít svo á, að hv. d. hafi þar sýnt vilja sinn, er hún samþ. þá breyt., og hef þess vegna tekið hana upp, þar sem líklegt er, að hún standi áfram.