20.12.1945
Efri deild: 54. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

152. mál, gjaldeyrissjóður og alþjóðabanki

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Ég hef lítið um þetta mál að segja umfram það, sem stendur í greinargerðinni. Það er flutt í neðri deild af hv. fjhn. eftir beiðni minni. Aðalefni frv. er það, að lagt er til, að ríkisstj. sé heimilað að taka þátt í stofnun gjaldeyrissjóðs og alþjóðabanka samkv. tillögum, sem samþ. voru á fundi hinna sameinuðu þjóða í Bretton Woods í Bandaríkjunum síðastliðið sumar.

Í fylgiskjali er gerð grein fyrir hlutverki þessarar stofnunar, en það er að efla alþjóðaviðskipti og styðja að aukinni framleiðslu eftir stríð og beita til þess aðferðum, sem þessi alþjóðafélagsskapur á yfir að ráða. Ætlazt er til, að gjaldeyrissjóðurinn kaupi gjaldeyri, sem lítil eftirspurn er eftir, og komi í veg fyrir gengisbreytingar, sem stafa af samkeppni.

Það mun mega fullyrða, að bæði gjaldeyrissjóðurinn og alþjóðabankinn verði stofnaðir fyrir lok þessa mánaðar. Nágrannaþjóðirnar hafa undanfarið verið að samþ. lög um þátttöku í þessum stofnunum, og hafa borizt um það fréttir frá Noregi og Danmörku.

Fundinn í Bretton Woods sátu 44 þjóðir, en vafalaust eiga margar þjóðir eftir að bætast við, sem ekki áttu kost á að sækja þá ráðstefnu. Ég býst við, að ekki séu skiptar skoðanir um, að þetta mál hafi þýðingu fyrir okkur Íslendinga. Þessar stofnanir geta hjálpað okkur til að leysa gjaldeyrisspursmál okkar og hjálpað öðrum þjóðum til að hafa verzlunarviðskipti við Ísland, en á því hafa verið nokkrir erfiðleikar.

Ekki verður hjá því komizt, að nokkur útgjöld verði af þessu fyrir ríkissjóð, en þetta er ekki glatað fé, og má miklu fremur búast við, að það gefi góða vexti a. m. k. óbeint. Gert er ráð fyrir, að sú upphæð, sem við verðum að greiða, nemi alls einni millj. kr. til hvorrar stofnunarinnar. Þetta fé skal þó ekki allt leggja fram í reiðu fé. Í gulli eða dollurum þarf ekki að greiða nema sem svarar ísl. kr. 1756350,00 og á ríkissjóður ekki að þurfa að greiða vexti af hærri upphæð vegna þátttökunnar. Kr. 6049650,00 þurfa að vera handbærar í íslenzkum bönkum, en sem svarar 800 þús. kr. til alþjóðabankans er eingöngu ríkisábyrgð á skuldbindingum bankans.

Þá vil ég benda á, að samkv. 6. gr. frv. eru með þessu frv., verði það samþ., úr gildi felld lög um gjaldeyrisvarasjóð, þar sem þessi stofnun mun gegna hinu sama hlutverki. Hins vegar þótti mér rétt að halda ákvæði því, sem tekið er í 4. gr. frv. um, að bönkum sé óheimilt að taka lán erlendis án vitundar ráðherra. Undanþeginn þessu er þó Landsbanki Íslands. Enn fremur er haldið ákvæðinu um að gefa ársfjórðungslega skýrslu til hagstofunnar um skuldir í erlendum gjaldeyri.

Í frumdráttum að reglugerð fyrir gjaldeyrissjóðinn og alþjóðabankann er gert ráð fyrir því, að hver þjóð hafi einn fulltrúa í fulltrúaráði gjaldeyrissjóðsins og bankaráði alþjóðabankans. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ráðherra skipi þessa menn ásamt varamönnum til 5 ára í senn.

Ég vænti, að hv. þdm. hafi haft svo góð tækifæri til að kynna sér þetta mál, að þeir telji ekki nauðsynlegt, að það fari til nefndar. Frv. hefur verið svo athugað, að ekki ætti að vera hætta á mikilli missmíði. Vildi ég því mælast til, að frv. verði samþ. án þess það fari til n., þar sem það þyrfti helzt að fá fulla afgreiðslu í dag.