17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

148. mál, nýbyggingarráð

Frsm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er samið af nýbyggingarráði. Í raun og veru hefði þetta átt að tilheyra lögum þeim, sem upphaflega voru sett um nýbyggingarráð. Þegar ákveðið var, að 350 millj. kr. skyldi varið til nýsköpunarinnar, var það ætlunin, að ekki skyldi á nokkurn hátt dregið úr þeirri eðlilegu nýsköpun, sem alltaf fer fram á hinum ýmsu sviðum. Þetta frv. á að tryggja, að alltaf sé notuð viss prósenttala af innstæðum landsmanna til kaupa á atvinnutækjum. Og hafði þó ekki verið gert ráð fyrir þeim hluta upphaflega, sem nemur svo og svo miklu af endurnýjun á tækjum. Þess vegna er nauðsynlegt, að til sé ákvæði í l. um nýbyggingarráð, sem tryggi þetta. Þetta er sparsemisákvörðun hjá þjóðarbúinu sem heild, að þjóðin ákveður að lifa ekki eingöngu á stríðsgróða og eyða honum upp, heldur skuli þjóðin leggja svo og svo mikið til hliðar árlega af andvirði útflutningsins og nota það til nýsköpunar eða endurnýjunar tækja atvinnuveganna, en taka sérstaklega til nýsköpunar þessar 300 millj. kr., sem gert er með ákvæðum í sambandi við nýbyggingarráð, án þess að hugsa sér, að þeim sé varið til venjulegrar árlegrar endurnýjunar atvinnutækja. — Ég vænti þess, að hæstv. Alþ. verði sammála um að samþ. þetta frv.