20.12.1945
Neðri deild: 61. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

148. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Frv. þetta er samið af nýbyggingarráði og flutt af fjhn. samkv. ósk minni. Ég get vísað til ræðu hv. frsm. meiri hl. n. Þegar lög um nýbyggingarráð voru samin, vakti fyrir Alþ. að taka af innstæðum þjóðarinnar og auk þess tekjum hennar og verja því til kaupa á framleiðslutækjum. Hv. þm. V.-Húnv. drap réttilega á, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir, til þess að sjóðirnir ætust ekki upp, og liggur fyrir að taka þau mál til athugunar á sínum tíma. Ég hef ekki gögn um það í dag, hvernig þessi mál standa, en þjóðin hefur haft miklar tekjur og safnað miklum fjárfúlgum erlendis. En þetta er e. t. v. breytt að miklu leyti. Ég skal ekkert fullyrða um þetta, en sú mynd, er fram kom hjá hv. þm., er ekki rétt af gjaldeyrisöflun og eyðslu þjóðarinnar, því að hér dvaldi her, sem hefur eflaust skilið eftir mikið fé.