20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. forsrh. skal ég geta þess, að hv. 2. þm. Eyf. spurði mig að því, hvort Framsfl. mundi flytja þetta mál, en ég sagði honum, að flokkurinn mundi ekki gera það, og ræði ég þetta ekki frekar.

Í dag er 20. desember, og er í ráði að fresta fundum Alþingis til 1. eða 2. febrúar. Mér er þess vegna óskiljanlegt, hvers vegna þarf að ákveða nú þegar, hvenær reglulegt Alþingi kemur saman. Mér hefði þótt það heppilegri vinnuaðferð að láta það bíða þar til síðar í vetur að ákveða samkomudag næsta reglulegs Alþingis. Það er aldrei hægt að vita, hvað fyrir kann að koma, en ef beðið væri þar til síðari hluta vetrar með að taka ákvörðun um þetta atriði, þá værum við þó nokkru nær því að geta séð, hvenær heppilegt væri að ákveða samkomudaginn. En nú eigum við, sem nú sitjum á Alþingi, að láta það á vald stj., hvenær hið nýkjörna Alþingi kemur saman. Það ætti að koma saman í vor, þegar að loknum kosningum, en nú verður það kannske ekki fyrr en 1. október. Ég álít okkur alls ekki heimilt að leggja það á vald nokkurri ríkisstjórn að láta það dragast svo lengi, að Alþingi kæmi saman að afloknum kosningum. Þetta er bara principmál, sem undarlegt er, að allir skuli ekki geta verið sammála um. Það þarf að gæta þess, að ekki verði gengið á grundvallarreglur þingræðisins. Það er ómögulegt að segja, hvernig svona fordæmi yrði notað, til dæmis af þingmeirihluta. sem teldi hæpið, að hann gæti haldið stjórnartaumunum áfram. Það er ýmislegt, sem slík stjórn gæti verið búin að gera með bráðabirgðalögum, áður en þing kæmi saman. Ég er engu að spá og er ekki að segja, að þessi stjórn muni fara svona að ráði sínu. En eðlilegasta meðferð þessa máls væri sú, í fyrsta lagi að ákveða ekki frestunina fyrr en þing kemur saman aftur, og í öðru lagi að ákveða frestunina ekki nema rétt fram yfir kosningar. Það er ákaflega langt frá því, að við stjórnarandstæðingar séum ánægðir með þá reynslu, sem við höfum orðið fyrir í þessu efni. Stjórnin hefur notað sér heimild þingsins til hins ýtrasta, hún hefur ekki kallað það saman fyrr en hún mátti til. Það er ekkert vit í því að fresta nú að kalla þingið saman lengur en til 1. september. En stjórnin vill ekki, að það komi svo snemma saman. Það liggja þau mál fyrir til úrlausnar í þeim mánuði, sem stjórnin vill ganga frá áður en þing kemur saman. Í september verður tekin ákvörðun um mál, sem stjórnin veit, að hæpið er, að hún fái þingmenn til að standa með, og þess vegna vill hún ganga frá því með bráðabirgðalögum. Ég dreg í efa, að lögin um búnaðarráð hefðu komizt í gegn, ef þau hefðu verið borin fram á þingi. Þar sem það mál er, höfum við sönnun þess, hvernig núv. stjórn hefur notað þingfrestunarheimild sína í haust. Hún notaði sér hana til þess að vera laus við þingið sem lengst, eins lengi og kostur var. Hún gefur út lög einum eða tveimur dögum áður en þingið kemur saman. Þetta sýnir glöggt virðingu hennar fyrir þinginu. En jafnvel þótt við hefðum góða reynslu í þessu efni, væri það allt að einu ekki rétt né verjandi að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Með því að samþ. það mundum við gefa illt fordæmi um, að þing geti verið ósamankvatt marga mánuði eftir kosningar. Við hljótum að vera tortryggnir. Hvers vegna er miðað við 1. október? Hvers vegna ekki 1. september? Það er af því, að stjórnin vill hafa aðstöðu til að leika sama leikinn og í september s. l. Þetta er ætlunin.

Það má segja, að nógur sé tíminn til starfa frá 1. október. En hver er útkoman? Nú er 20. desember, og að undanförnu höfum við rembzt við með næturvökum að ljúka nokkrum þeim málum, sem mest kölluðu að, þótt mörg séu óleyst, og er ekki óeðlilegt, þótt stjórninni sé ekki rótt. En þó lét hæstv. forsrh. sem ekkert lægi á. Það fer nú bráðum að verða eins hjá okkur og í Frakklandi á árunum. Við verðum að fara að lengja árið til þess að koma þinghaldinu af. Það vita allir, hvað hér liggur á bak við. En ef stj. verður lífs auðið, ætti hún að geta komið þessum vilja sínum fram á þingi og fresta þinginu nú aðeins þar til kosningar hafa farið fram. Það er ónauðsynlegt og ekki sæmandi fyrir stjórnarmeirihlutann að vera með nokkrar baktjaldaráðagerðir í þessum efnum.