20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég verð að lýsa undrun minni yfir látalátum og skrípalátum, sem hér hafa verið höfð í frammi af hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Árn. Ég skil ekki þau ummæli hv. 10. landsk., að það sé af kæruleysi, sem við veljum 1. okt., og ég skil ekki þann hugsunarhátt frá sjónarmiði hans, sem vill 1. sept., en ekki 1. ág. Það má kannske færa einhver rök fyrir því, að það sé gott að kalla þing saman 1. sept., þó að ég geti ekki fallizt á þau rök, en hitt, að vilja 1. ág., eru bara skrípalæti.

Ég vil gera mitt til þess að lengja ekki þessar umr. og reyni því að vera fáorður, og það vita allir, að það verður gengið frá þessu núna áður en þingi verður frestað. — Ég hef heyrt öll þessi gífuryrði áður, sem eiga ekki neina stoð í veruleikanum. Andstæðingar okkar brýna raustina og hrópa hátt, að hér sé um eitthvert ógurlegt brot á þingræðinu að ræða. Þetta gerist snemma morguns í sölum Alþ., en þeir hrópa eins og þeir væru á kosningafundum. Mig minnir, að hv. 2. þm. S.-M. hafi orðið ráðh. kornungur og þetta gerðist einu sinni ekki á þingi. Eða man ég þetta kannske ekki rétt? Mig minnir líka, að hinn 9. des. 1933 hafi verið ákveðið, að næsta þing skyldi koma saman 1. okt. 1934. Ég fór að hugsa um það, hver hafi verið hinn eiginlegi verndari þingræðisins hér í þessari hv. deild. Það var hv. 1. þm. Árn. þáv. forseti Nd. Hvað sagði hann þá? Ekki eitt einasta orð. Í Nd. var málið rætt, þ. e. a. s., um það voru sögð 22 orð. Þá fannst engum þessara manna vera traðkað á þingræðinu: Nei, — þessir menn meina ekki neitt með þessu hjali sínu. Hv. 10. landsk. færir þó nokkur rök fyrir máli sínu, sem ástæða er til að athuga, þó að ég fyrir mztt leyti vilji ekki fallast á þau.

Ég álít, að það megi ljúka þingi fyrir jól, sem kemur saman 1. okt., ef fullur vilji er á því. En svo eru menn að halda ræður og tala um það, að verið sé að afnema lýðræðið, þegar maður reynir að feta dyggilega í fótspor fyrirrennara sinna undir forustu 1. þm. Árn. Þá voru einnig kosningar framundan og ný öfl komust til valda. 2. þm. S.-M. komst í ráðherrastól án þess að þing kæmi saman. Hér þarf ekki að kalla þingræðið til vitnis. Það er leiðinlegt, að svona þingvanir menn skuli vera með svona gjálfur, að verið sé að traðka á þingræðinu — og það að morgni dags. Þess konar skrípalæti falla ekki mér í geð. Það er margt annað, sem ástæða væri til að rifja upp, en ég sé ekki ástæðu til þess, þar sem ég vil ekki gera neitt til að tefja þessar umræður, en ég .vil aðeins benda þessum lýðræðisvinum, hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Árn., á, að hér er fylgt þeirra eigin fordæmi.