20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Eysteinn Jónsson. Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að minnast á eitt eða tvö atriði. — Hæstv. ráðh. var nú að tala um þetta fordæmi sitt, sem hann er svo hrifinn af, og sagði, að það væri að því leyti frá okkar sjónarmiði sennilega lakara fordæmið frá 3.933 en það, sem nú stæði til að samþ. með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og sagði hæstv. ráðh., að þá hefði verið ákveðið fortakslaust, að þingið skyldi koma saman 1. október, en nú væri hámarkið 1. október. Þetta er einkennilegur frásagnarmáti hjá hæstv. ráðh., og ætla ég nú að lesa lagagr. um þetta frá 1933 og frv., sem nú er á ferðinni hér, með leyfi hæstv. forseta. Lagagr., sem samþ. var á þinginu 1933, hljóðar svo:

„Reglulegt Alþingi skal árið 1934 koma saman hinn 1. dag októbermánaðar, hafi konungur ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu.“ En frv., sem hér liggur fyrir, hljóðar svo: „Reglulegt Alþingi 1946 skal koma saman 1. dag októbermánaðar, hafi forseti Íslands eigi tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu.“ — Þetta þarf ekki skýringar við. Þó að þetta sé smátt atriði, þá er það nóg til að sanna frásagnarmátann hjá hæstv. forsrh., því að auðvitað er þetta tvennt hliðstætt að forminu til, og að því leyti hefur hæstv. forsrh. rétt fyrir sér, að þetta er fordæmi, sem samþ. var 1933. En hitt er slúður, að hér í frv., sem fyrir liggur, sé skemmra gengið en gert var 1933. — En það, hvernig hér er að farið, sýnir, hvernig óhlutvandir menn fara að, sem skortir þolinmæði til þess að fara rétt í hlutina, vilja losa sig við stjórnarandstöðuna á einfaldan hátt, hvernig óhlutvandur meiri hluti á Alþ. getur leiðzt út í að fara lengra og lengra á snið við þingræðið. — Það eru rök, sem alltaf eru notuð of mikið, við skulum bara segja af okkur öllum, að tala um eitthvað, sem áður hefur verið gert og undir allt öðrum kringumstæðum, og yfirleitt að halda því fram, að þó að menn hafi gert eitthvað fyrir áratugum undir öðrum kringumstæðum, þá geti þeir ekki sóma síns vegna lagt til, að öðruvísi sé haldið á málum löngu síðar. Þetta eru ekki rök, heldur óviðurkvæmilegt skraf. Því að ef menn hafa gert skyssur, þá á að leiðrétta þær, en ekki endurtaka, — auk þess, sem hv. þm. V.-Sk. (SvbH) hefur mjög greinilega bent á það hér, að það er bara allt annað ástand um starfsemi þingsins nú heldur en var á árunum 1933 og 1934. Þingið er nú orðið miklu nátengdara fjárhagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar en þá var. Þannig hefur þróunin gengið í þá átt á þeim tíma, sem liðinn er síðan, og þess vegna er það höfuðvilla að fela ríkisstj. að hafa alveg vald á þinghaldinu.

Að lokum vil ég aðeins benda hv. þm. á, að hæstv. forsrh. hefur ekki gert neina tilraun til þess að færa fram ástæður fyrir því, að 1. október er valinn sem samkomudagur Alþ. Og þó að hér hafi farið fram umr. um þetta mál í tvo klukkutíma, þá hefur hann ekki reynt að finna ein einustu skynsamleg rök fyrir því, að skynsamlegt og rétt sé að velja einmitt 1 október, og ekki treyst sér til eða a. m. k. ekki gert tilraun til þess að mótmæla rökum þriggja þm., sem glögglega hafa sýnt, að það er mjög illa valinn tími 1. október sem samkomudagur Alþ. í haust, eins og á stendur, og að einmitt sá tími er valinn, gefur tilefni til þess, að menn tortryggi hæstv. ríkisstjórn alveg sérstaklega. Hæstv. forsrh. hefur sem sé ekki gert tilraun til að rökstyðja það frv., sem hér liggur fyrir, heldur segir bara: Þetta er ákveðið. Þetta verður gert, hvað sem þið viljið. — Svo talaði hæstv. forsrh. um það, að ég hefði farið ógætilega að honum. Það er eins og hann eigi við, að það þurfi að fara að honum eins og styggum hesti, þannig að ef ekki er farið gætilega að honum í fyrsta skipti, er reynt er að ná honum, geti hann fælzt, svo að ekki verði auðið að höndla hann að sinni. Og hæstv. ráðh. sakar mig um að fara ekki gætilega að honum í þessu máll. En áður en ég hafði sagt mikið, hafði hann, hæstv. forsrh., lýst yfir með miklum hroka, að þessu yrði ekki breytt, sem í frv. er tekið fram, heldur samþ. þannig. Ef hæstv. forsrh. því hefur komizt eða er kominn í eitthvert styggðarástand, sem sagt kominn á það stig að fælast, þá hefur það ekki verið mér að kenna.