20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. V.-Sk. minntist víst eitthvað á þingfrestunina 1934. Þá var enginn ágreiningur um 1. október sem samkomudag reglulegs Alþ. 1934. Í þá daga heyrði maður hins vegar oft talað um það, innan Framsfl. aðallega, að það væri mjög óþægilegt fyrir bændur og aðra þm. utan af landi að þurfa að mæta á Alþ. fyrr en 1. október, og bezt væri, ef hægt væri að komast hjá því. Stjórnmálaráðstafanir utan þings tíðkuðust þá oft. Ríkisstjórn var mynduð árið 1934, án þess að kallað væri saman þing, og árið 1927 var líka mynduð ríkisstjórn án þess að kalla saman þing. Slíkar stjórnarráðstafanir geta verið gerðar hvenær sem er, og ég hef ekki heyrt, að það sé talið einræði að gefa ríkisstjórn heimild til að kalla saman þing ákveðinn dag. Því að þessi lög ákveða, ef frv. verður samþ. óbreytt, að ekki megi kalla Alþ. saman síðar en 1. október, en ef ríkisstj, sér ástæðu til að kalla það saman fyrr á árinu, þá gerir hún tillögu til forseta Íslands um það.

Ef svo færi, að stj. bærust kröfur frá meiri hl. Alþingis að kosningum loknum, að þing yrði þá kallað saman, þá er vitað, að hæstv. stj. mundi taka það til greina. En ef svo ólíklega kynni að vilja til, að hæstv. stj. hagaði sér þannig, að það væri í ósamræmi við okkar þingræði, þá felur það í sér skyldu fyrir forseta til að taka þar í taumana.

Það eru nokkuð mikil gífuryrði, þegar í sambandi við svona hluti er haldið fram af kristilega sinnuðum mönnum að öðru leyti, að með því að samþ. þetta frv. sé alveg eins að farið og nazistarnir þýzku gerðu í Krollóperunni. Um leið og hv. þm. heldur því fram, afsannar hann sitt mál, því að í Kroll hefði aldrei verið leyft að halda slíka ræðu á móti stj. sem hann hélt nú, því að þá hefði hann aldrei fengið að fara frjáls þaðan út, en hér vill hann fá að sleppa út bakdyramegin, þó að hann hafi ekki viljað segja „Heil“ fyrir ríkisstj.