20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala mörg, orð, en get ekki látið hjá líða að svara því með örfáum orðum, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði hér síðast, áður en fundi var frestað. Hann sagði meðal annars, að enginn ágreiningur hafi verið um það árið 1933 að fresta þá þingi til 1. okt. og að sérstaklega hafi menn innan Framsfl. talið óþægilegt að láta þing koma saman fyrr að haustinu en þá. Það er vitanlegt, að þeir, sem stunda landbúnað, vildu helzt vera lausir við það að þurfa að koma til þings á mesta annatíma ársins, þegar ekki liggur neitt sérstakt fyrir svo sem að ákveða löggjöf í mjög mikilvægu og merku máli, sem verður að vera lokið í sept. og áður en 1. okt. kemur, og er það þá vitanlega ekki nema eðlilegt, að þeir þingfulltrúar, sem eiga heima úti á landi og stunda landbúnaðarstörf, óski þess að geta lokið þeim störfum á heimilum sínum áður en þeir hverfa til þingsetu. En þegar komin er löggjöf, sem snertir atvinnuveg þeirra sérstaklega og taka verður fyrir til meðferðar í septembermán., þá hygg ég, að það sé enginn fulltrúi á Alþ. frá landbúnaðinum, sem ekki óski eftir því að fá að taka þátt í afgreiðslu mála, og vilji heldur hverfa frá heyskap heima og gegna þeirri skyldu, sem þeim er falin í þessu efni, en að farið sé að dæmi nazista, að binda fyrir munninn á þessum þm., eins og mér virtist hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) vera að minnast á. Hann sagði hér nokkur gífuryrði, sem enginn munur er á og á starfsaðferðum nazistanna. Það mundi áreiðanlega enginn annar en hann tala sér þau orð í munn hér. Ég segi hér, því að það, sem hér skeði, er að ýmsu leyti líkt þeim starfsháttum, sem viðhafðir voru í Krollóperunni í Þýzkalandi 1934, og er jafnvel enginn munur á, og enn verður munurinn minni eftir þá ræðu, sem hv. þm. V.-Ísf. flutti hér áðan. Hann reyndi ekki að mótmæla dæmunum, sem ég hafði tekið, að þau líktust nazistaflokk og nazistalöggjöf, en þó sagði hann einn mun á, sem ég hafði ekki minnzt á, að þannig væri engum leyft að tala hjá nazistum, og mér var bent á að komast út um bakdyrnar, og þar með er auðheyrt, að þessi hugsun er farin að bærast í huga hv. þm. V.-Ísf., sem hann ræddi um, og þó lýsti hæstv. forsrh. (ÓTh) því yfir, að þetta væri bezti lýðræðissinninn í stjórnarliðinu. Við skulum svo athuga þetta svolítið betur. Er ekki einmitt frv., sem hér er á ferðinni, sú eina leið, sem stjórnarliðið hefur til að binda fyrir munninn á andstæðingunum í máli, sem miklu skiptir og þeir eru kjörnir til að fjalla um á Alþ. stjórnarliðið hefur ekki stormsveitir eins og nazistarnir og fangabúðir til að láta her flytja andstæðingana í til að þagga niður í þeim, svo að ef stjórnarliðið vill þagga niður í andstæðingunum, svo að þeir fái ekki að ræða þau mál, sem þeir eru kjörnir til að leysa, þá er það eina leiðin að fara þingræðisleiðina til þess að útiloka þá frá því að geta tekið þátt í meðferð mála, og það er sú leið, sem verið er að fara hér. Ég sé ekki, með hverjum ráðum stjórnarliðið ætti að geta bundið fyrir munn andstæðinganna á annan veg en þennan. Ég sé það ekki. — Við erum kjörnir hér sem sérstök stjórnarandstaða fyrir hönd bændastéttarinnar yfirleitt, til þess að fjalla um þau mál, sem hana varðar mestu, og við eigum skv. löggjöf að fjalla um þau mál með því að annaðhvort framlengja þau brbl., eins og gert var á s. l. hausti með þeim endemum, að stjórnarandstaðan fékk ekkert um þau að segja, eða að setja ný lög um þetta efni. Og með því að ákveða, að Alþ. megi ekki koma saman fyrr en 1. okt., þá er beinlínis verið að gera ráðstafanir til að binda fyrir munn stjórnarandstöðunnar með því að leysa þau mál, sem hún hefur mestan áhuga á og á beinlínis að skipta sér af. Er verið að gera þessa ráðstöfun af því, að stjórnarliðið hefur ekki möguleika til þess að beita okkur ofbeldi á Alþ., með því að láta leysa málin á þeim vettvangi, sem við höfum ekki aðgang að, og í staðinn fyrir að leysa málin hér á Alþ. á að flytja þau upp í stjórnarráð, þar sem stjórnarandstaðan hefur ekki aðgang að, en loka Alþ. á meðan. Þar af leiðandi er það berlegt, að þessi hugsun, sem hv. þm. V.-Ísf. var að reyna að tala um áðan, um að mér hefði ekki verið leyft að tala eins og ég hafði gert áðan, ef þeir hefðu verið svipaðs sinnis og nazistarnir hefðu verið í þessu efni, það er bersýnilegt, að þessi hugsun og þessi aðferð, sem þeir eru nú að beita, er sú eina leið, sem þeir hafa til að geta fetað í fótspor nazistanna til að binda fyrir munn andstæðinganna, þegar um aðaláhuga- og hagsmunamál þeirra er að ræða. Og þegar svona er orðið um hið græna tréð, hv. þm. V.-Ísf., sem hæstv. forsrh. sagði um, að væri bezti lýðræðissinninn í stjórnarliðinu, hvernig mun þá orðið um hin? Það kemur að sjálfsögðu vel í ljós við atkvgr. um þetta frv. Það er ekkert annað, sem farið er fram á með þessu frv., en það, að fulltrúar bændanna skuli hvergi koma nærri, þegar tekin eru til meðferðar samkv. lögum aðalhagsmunamál bændastéttarinnar, og að þeir skuli engin afskipti hafa af því, hvernig þau eru leyst, heldur sé það gert með brbl. að hætti einræðisstjórna, og að Alþ. skuli loka á meðan það er gert í stjórnarráðinu, þar sem stjórnarandstaðan hefur engan aðgang að. Ég get ekki ímyndað mér, hvað annað geti legið til grundvallar þessu, að velja 1. okt., og það hefur aldrei skeð fyrr en á s. l. ári, að fresta að kalla saman Alþ. fram yfir þann tíma, sem mikilvæg löggjöf varð að fá meðferð fyrir á s. l. ári, og hefur sjálfsagt þótt svo ágætt þá, að þeir vilja nú halda þeirri aðferð áfram á ný. Ég hygg, að það séu fáar stéttir í þjóðfélaginu, sem mundu sætta sig við það að vera beittar slíku ofbeldi eins og bændastéttin var beitt á s. 1. hausti og nú er stefnt að, að gert verði aftur. Hvað mundu verkalýðsfélög landsins segja, ef löggjafinn setti á stofn gerðardóm, sem ákvæði kaup og vinnutíma? Við skulum segja, að þetta gilti til 1. sept., og við skulum líka ganga út frá því, ef slíkt væri, að þá ætti að taka málið til meðferðar aftur. Hvað mundu verkalýðsfélögin segja, ef bannað væri, að Alþ. kæmi saman, þegar fjalla ætti um málið, og fulltrúar verkalýðsins væru útilokaðir frá því að láta álit sitt uppi á því, sem um er rætt? Og ég vil spyrja fulltrúa verkalýðssamtakanna á Alþ., hvort þeir óska eftir því að skapa slíkt fordæmi, því að þeir vilja mjög oft vitna til fordæmanna. Og ef þetta er ekki tilgangurinn með frv., þá er mér algerlega óskiljanlegt, hver hann getur verið, því að það er með fullum rökum búið að sýna fram á, að það er ekki hægt frá 1. okt. til jóla að ljúka öllum þingstörfum, en eigi að fara að taka upp þá venju að láta þing, sem halda á þetta ár, koma að miklu leyti yfir á næsta ár á eftir, þá eru það furðuleg vinnubrögð, ef engar sérstakar ástæður eru til þess. Og ég vildi mega fá að heyra einhver önnur rök en þessi, ef þau eru til. Ég hef lýst því, að þetta frv. er beinlínis gert til þess að reyna að varna fulltrúum bændastéttarinnar á Alþ. þess að geta haft nokkra íhlutun um aðaláhugamál og hagsmunamál bændastéttarinnar, sem ákveðið er að leysa samkv. lögum. En ríkisstjórnin ætlar þrátt fyrir kosningar að sitja til fyrsta okt., nema hvort tveggja sé. Ef önnur rök eru fyrir þessu frá stjórnarliðinu, þá væri mér mjög kært að heyra hver þau væru.