20.12.1945
Neðri deild: 62. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki séð ástæðu til að taka til máls, nema út af því, sem gerðist við 2. umr., og út af orðum hæstv. forsrh.

Þeir, sem flytja málið, hafa ekki reynt að færa rök fyrir málinu, að miða þingfrestunina við 1. október. Þeir hafa bara talað um liðna tíð og það, sem áður hefur gerzt, og rökin eru þessi: Af því að þessi heimild var veitt fyrir 11 árum, þá er rétt að veita hana nú! — Það á að endurtaka bráðabirgðalagaleikinn frá því síðast í september. Og ég undirstrika það, að það var ekkert hliðstætt 1934 og haustið 1945 um afurðasölumálið, nema formið. 1934 var búið að kjósa um afurðasölumálið. Og ég verð að segja það, að mér þykir nokkuð langt seilzt til raka hjá hv. þm. V.-Ísf., ef ég hef skilið það rétt, að hann hafi helzt líkt því, sem þá gerðist, við það, sem gerðist í Krollóperunni í Berlín. — Hv. þm. V.-Sk. átti þátt í þessu þá. Og ég fullyrði, að það var aðeins gert vegna þess, hvernig málið var undirbúið.

Ég gat ekki komizt hjá því að taka eftir því, að hæstv. forsrh. hreyktist upp við ræðu hv. þm, V.-Ísf., og fannst honum víst þar lyft undir sinn málstað. En hv. þm. V.-Ísf. sýndi fram á það, sem honum fannst hliðstæður. Hann varði bráðabirgðal. 1934 og svo aftur það, sem ég talaði um, bráðabirgðalöggjöf vegna landbúnaðarins áður en þing kæmi saman. En mér sýnist samt sem áður ekki ástæða fyrir hæstv. forsrh. að hreykjast upp af þessu, því að náttúrlega gagnrýndi hann setningu bráðabirgðal. 1934 með hinu mesta offorsi og m. a. það, að sú löggjöf skyldi vera gerð með bráðabirgðal. En þó hafði þá allt öðruvísi verið um hnútana búið en nú. Ég sé því ekki, að hæstv. forsrh. geti talið þetta gott innlegg fyrir sig, heldur gefur þetta tækifæri til að minna á, hve tækifærissinnaður hæstv. forsrh. er, fyrst honum þykir það góð latína að setja bráðabirgðalög um þessi landbúnaðarmál nú, en gagnrýndi að setja bráðabirgðalögin þá.

Hvað hefur gerzt hér? Hæstv. forsrh. hefur reynt að notfæra sér atburði, sem gerðust fyrir 11 árum, til þess að klóra yfir það, að nú kemur hann með annað mál, sem að ytra formi er dálítið svipað, en í eðli sínu allt öðruvísi vaxið mál. Og ég dreg ekki í efa, að ef nú verður haldið áfram á þessari braut, sem menn virðast vera ráðnir í, þá koma kannske aðrir menn eftir ekki 11 ár, heldur 1–4 ár, sem toga og teygja á allar lundir það, sem nú er gert, til þess að ná út yfir það að vera fordæmi fyrir því, sem þeir hyggjast að gera, kannske allt annars eðlis en það, sem nú virðist eiga að gerast hér. Þetta, að talið er, að fyrir 11 árum hafi verið gefið fordæmi fyrir því að setja bráðabirgðalög um landbúnaðarmál, og þess vegna sé það sjálfsagt, eins og það var gert á s. l. hausti, það gefur ástæðu til þess að fara gætilega í að vitna í fordæmi. Það er svo ákaflega freistandi — við skulum segja bara fyrir menn yfirleitt — að snúa út úr og misnota með öllu móti fordæmi, ef nokkurs staðar er hægt að ná fangstaðar á því.

Þetta vil ég segja út af þeirri gagnsókn, sem hafin hefur verið í sambandi við þetta mál, að það er náttúrlega alveg tómt mál að ræða í þessu sambandi, sem gerðist fyrir 11 árum, af því að efnislega lá þá fyrir allt annað en það, sem hér á að gerast. Og í öðru lagi, þó að eitthvað hefði gerzt hliðstætt þá, hefur það sýnt sig, að það er hættulegt að gera það, og því á það ekki, að endurtaka sig. Hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt, hversu hættulegt það er að veita ríkisstj. slíkt vald. Slíkir atburðir höfðu aldrei gerzt, þegar formlega líkar ráðstafanir voru gerðar fyrir 11 árum, og menn voru þá grandalausir og ætluðu mönnum yfirleitt ekki slíkt, sem nú er fram komið. Það má kannske álasa mönnum fyrir það, að þetta form var á haft, sem gat verið hættulegt. En nú hafa menn engar afsakanir lengur, því að nú þekkja menn til þess allt of vel það, sem gerzt hefur fyrir skömmu síðan.

Að lokum vil ég segja það, að mig undrar mjög, að hæstv. forsrh. og stjórnarliðið skuli sýna þá óbilgirni og frekju að geta ekki gengið inn á þann miðlunarveg að ákveða samkomudaginn ekki síðar en 1. september. Og ég get ekki litið öðruvísi á þetta en þannig, að það sé vegna þess, að þeir vilji hafa þann möguleika opinn og ætli sér að nota hann, að gera ráðstafanir eftir sínu höfði í hinum þýðingarmestu málum.

Það er harla léleg röksemd að bera það, sem í þessum efnum gerðist fyrir 11 árum, saman við það, sem virðist eiga að gerast í þessum málum nú. Því að þá var kosið um þessi landbúnaðarmál, en nú dettur mér ekki í hug, að hæstv. forsrh. og aðrir, sem með honum standa, láti það uppi fyrir eða um kosningar í vor, hvað þeir ætli í haust að gera í landbúnaðarmálunum. Það verður ekki kosið um það í vor, hvað á að gera í landbúnaðarmálunum. Því verður haldið vandlega leyndu. Hitt er það, að það verður talað um það þá, hvað gert hefur verið í því efni. En á því, sem af stjórnarliðinu verður í vor sagt um það, hvað stjórnin ætlist fyrir í landbúnaðarmálum, verður varla mikið byggt. — En í stað þess að vera með skraf um það, sem gerðist í landbúnaðarmálum, dálítið líkt að formi til því, sem nú var gert á s. l. hausti og virðist eiga að endurtaka, í stað þess hefði óneitanlega verið eðlilegra, að færð hefðu verið af stjórnarliðinu rök fyrir því að ákveða samkomudaginn 1. október. En það eru búnar tvær umr. um þetta mál, og það er ekki enn búið að sýna fram á það með einu orði, að þessi samkomudagur þingsins sé sá heppilegasti, og ekkert heldur búið að færa fram gegn þeim tveimur brtt., sem hér voru fluttar við þetta frv. og felldar án þess að það þætti viðeigandi að ræða þær. Hér hefur verið gizkað á, að það gæti vakað fyrir stjórnarliðum, að mönnum væri þægilegt að koma saman til þings 1. október, og einnig hitt, að að þeirra áliti væri nógur tími til þinghalds með því móti. Það hefur hins vegar verið bent á það, að reynslan hefur sýnt, að það hefur ekki reynzt nógur tími til þinghalds á árinu með því að þingið kæmi saman þá. Svo að ríkisstj. getur ekki miðað við það. Við hvað er þá miðað? Hvers vegna er þetta ofurkapp um að ákveða, að þingið skuli helzt koma saman 1. október? Svari þeir, sem geta svarað. Ríkisstj. hefur ekki svarað þessu. Og þá verður hver að hafa sínar hugmyndir um þetta, miðað við reynsluna. Og þær hugmyndir geta ekki orðið nema á einn veg.