20.12.1945
Efri deild: 57. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég sé alls ekki ástæðu til að tefja þetta mál með umr. hér í þessari hv. d. Það hefur verið rætt um þetta mál í hv. Nd., og hafa komið þar fram, að ég hygg, flest þau rök, sem mæla gegn þessu frv., og þá einnig þau rök, sem aðrir telja, að mæli með því, að það gangi fram.

Það, sem ég hef við þetta frv. að athuga, er það sama, sem kom fram í hv. Nd., að ég tel, að það hefði verið heppilegra að ákveða samkomudaginn 1. september, og að tvær ástæður séu til þess. Sú í fyrsta lagi, að fjögurra mánaða tími, frá 1. september til áramóta, er engan veginn of langur tími til þess að það þing, sem þá kæmi saman, gæti lokið störfum fyrir áramót. Undanfarandi reynsla bendir til þess, að ekki veiti af fjórum mánuðum til þess að aðalþing geti lokið störfum. Og af þeim ástæðum væri eðlilegt, að þingið kæmi saman 1. sept. — Í annan stað tel ég, að með þessu frv. sé gefið fyrirheit um það, — sem ég tel ekki gott fyrirheit, — að það eigi að gera út um verðlagsmál landbúnaðarins með bráðabirgðal., eins og gert var s. l. haust, og sé með ákvörðun þessa samkomudags Alþ. reynt að koma — í veg fyrir, að þau mál komi fyrir þingið. Rökin fyrir því, að slík vinnubrögð séu óeðlileg, — hafa verið færð fram áður, og ég er þeirrar skoðunar, að engin ástæða sé til að endurtaka þau hér.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. gangi fram. Hæstv. ríkisstjórn hefur sjálfsagt mikið meirihlutafylgi fyrir því hér á hæstv. Alþ. Það má gera ráð fyrir, að það verði að ákvörðun að kalla þing ekki saman fyrr en 1. október, einmitt af þeim ástæðum, sem ég nú síðar nefndi, nema einhverjar aðrar ástæður yrðu því valdandi, að ríkisstj. vildi kalla saman þing fyrr á árinu, sem er ekki hægt að segja um nú.

Ég mun af þessum ástæðum greiða atkv. gegn frv., án þess að halda uppi frekari umr. en orðið er. En ég verð að segja það, að ég tel þetta mjög misráðið, að miða samkomudaginn helzt við 1. október. Hins vegar mun ég ekki gera tilraun til þess að koma í veg fyrir þessi vinnubrögð frekar en þegar hefur verið gert, því að stjórnin mun sjálfsagt í þessu efni, eins og öðrum, fara sínu fram.