22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Nefndin hefur athugað þetta frv. og borið það saman við l. um ættaróðul og erfðarétt. Það eina atriði, sem n. vildi breyta, var það, að í frv. er svo til ætlazt, að til þess að ábúandi geti fengið ábúðarjörð sína keypta þyrfti hann að hafa búið a. m. k. eitt ár, en í breyt. n. er farið fram á, að frestur þessi verði hækkaður upp í 3 ár.

Hitt atriðið er þannig, að eftir gildandi l. hefur ábúandi rétt á að fá jörðina keypta, ef hann hefur áður fengið erfðaábúð. Í frv. þessu er þetta fellt niður, enda hefur það komið í, ljós, að ábúendur taka erfðaábúð aðeins sem form til þess að öðlazt þannig kauparéttinn og kaupa jarðirnar svo rétt á eftir. Slík breyt. hefur mikið umstang í för með sér. En það er þetta umstang, sem menn vilja gjarnan losna við á þennan hátt, og þær mörgu umsóknir, sem liggja fyrir hverju þingi um, að ríkið heimili að selja jarðir, eru allar frá mönnum, sem geta öðlazt þennan rétt með því að taka jörðina fyrst í erfðaábúð, en það væri bæði sparnaður og hagræði bæði fyrir búendur og það opinbera, ef hægt væri að losna við þessa krókaleið. Að fenginni þessari reynslu hefur meiri hl. n., einn nm. hefur ekki getað fallizt á það, fallizt á, að eðlilegast væri að vera ekki að hanga í þessu, heldur veita mönnum þennan rétt, sem þeir geta öðlazt hvort sem er, og þar með er þá þingið leyst undan því að þurfa alltaf að vera að fjalla um þessi sömu mál á hverju einasta þingi: Við væntum svo, að eftir að hafa gert þessar breyt. og fært frv. til samræmis við það, sem er í l., geti hv. d. fallizt á frv. Ég skal aðeins geta þess, að seinni brtt., að fyrir umsókn komi umsögn, er aðeins leiðrétting á prentvillu.

Svo hef ég ekki fleira um málið að segja, en vænti aðeins, að það nái fram að ganga.