22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég gat ekki orðið samferða hv. meðnm. mínum í afgreiðslu þessa máls og hef því skrifað undir nál. með fyrirvara, og er það í fyrsta lagi af því, að ég er mótfallinn þjóðjarðasölu, en með þessu frv. er verið að gera greiðari aðgang að sölu jarða. Í l. um ættaróðul og erfðaábúð er gert ráð fyrir, að menn öðlist rétt til að kaupa jarðirnar, þegar þeir hafa fengið á þeim erfðaábúð, en það verður þó að fara gegnum þingið með þetta. Ef það hefur verið meiningin að setja þetta ákvæði í l. um ættaróðul til að koma í veg fyrir brask, þá er leiðinlegt, að strax eftir örstuttan tíma skuli vera komið með smábreyt. eingöngu til að gera auðveldari þau form, sem þarf að hafa fyrir þessum kaupum, og þar sem um er að ræða ríkisjarðir, álit ég, að ekki megi vera minna en að þingið fái að fjalla um þau mál í staðinn fyrir það, að eftir þessa breyt. kemur þjóðjarðasala þinginu ekkert við og þarf ekki einu sinni að koma jörðunum í erfðaábúð, heldur geta menn fengið jarðirnar keyptar með því að gera þær að ættaróðali. Ég er á móti því, að þetta sé gert þannig auðveldara, af því að ég er alveg á móti þjóðjarðasölu, og þess vegna mun ég greiða atkv. á móti frumvarpinu.