22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vil aðeins gera grein fyrir, hvers vegna ég greiði atkv. gegn þessu frv.

Í fyrsta lagi tel ég farið inn á alranga braut með því að selja kirkjujarðir, sérstaklega á þessum tíma, þegar fyrir dyrum kann að standa einhvers konar nýskipun og athugun á breyttum búnaðarháttum á Íslandi, því að þeim mun meira sem flyzt af jarðeignum hins opinbera í eigu einstaklinga, þeim mun erfiðara kann að verða að framkvæma þá nýskipun, sem fyrir dyrum kann að vera. Það eru bætur á íslenzkum landbúnaði og einhvers konar nýtt skipulag, sem helzt gæti orðið til þess, að íslenzkur landbúnaður yrði stundaður með betri árangri en nú er án þess að þurfa að fara þær neyðarbrautir, sem farið hefur verið inn á undanfarin ár út af sölu landbúnaðarafurða. Ég vil því alvarlega mæla gegn því, að slík heimild yrði veitt, og tel, að það yrði mjög mikið víxlspor, ef það yrði samþ.

Sömuleiðis vil ég hvað efni frv. snertir mjög taka undir það, sem fram kom hjá hv. 11. landsk. og hv. þm. V.-Húnv. Ég álít, að það komi ekki til mála, ef frv. er samþ., sem ég mun ekki ljá liðsinni til, að ekki verði undanskilin vatns- og jarðhitaréttindi, svo mikil nauðsyn sem á því kann að verða, að þau séu notuð í almannaþágu, þegar verið er á ferðinni með frv. til nýrra raforkulaga, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið sjálft hafi aðalforgöngu og framkvæmd í raforkumálum. Því tel ég mjög misráðið, ef nú yrði opnaður vegur til þess, að einstaklingar, sem búa á þjóð- og kirkjujörðum, gætu fengið þessar jarðir keyptar, án þess að undanskilin væru þessi miklu verðmæti, sem án efa verða mikið notuð í framtíðinni í almannaþágu.

Ég vil líka taka undir það, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að mér skilst, að eftir 2. gr. muni koma fram mikið misrétti hvað snertir verðlag á þjóð- og kirkjujörðum, ef þar á að fara eftir því, hver leigumálinn er á þessum jörðum. Það er ekki fullnægjandi skýring fyrir mig, sem hv. 2. þm, Skagf. hefur fram borið út af 2. gr. frv. Mér skilst, að eftir ýmsum gömlum leigumálum muni ábúandi geta fengið jörðina fyrir svo lítið verð, að óviðunandi er að láta hana af hendi fyrir svo lítið verð. Ég vil því taka undir þær raddir, sem fram hafa komið í umr., að ef farið er inn á þá háskalegu braut að leyfa sölu á þjóð- og kirkjujörðum, jafnvel þótt sú kvöð fylgi, að jarðirnar eigi að falla undir gildandi reglur um ættaróðul og erfðaábúð, þá sé nauðsynlegt að endurskoða frv. nánar, áður en það er gert að l., til að koma í veg fyrir, að þeir vankantar, sem bent hefur verið á, verði lögfestir.

Ég mun því, eins og ég hef skýri frá, fyrst og fremst greiða atkv. gegn frv., en ef meiri hl. d. er því meðmæltur, sem hér á að slá föstu þvert ofan í þá meginreglu, sem hingað til hefur gilt í íslenzkri löggjöf, og opnar öll hlið fyrir því, að allar þjóð- og kirkjujarðir verði seldar einstaklingum, þá ættu þeir, sem vilja breyta þeirri meginreglu, samt að athuga, að breyta þarf frv. mikið til bóta, ef afgreiðsla þess á ekki að verða okkur til lýta.