22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Pétur Ottesen:

Ég á dálítið bágt með að skilja þann úlfaþyt, sem þetta frv. hefur vakið hér í d., og þær stefnuyfirlýsingar, sem fulltrúar tveggja stjórnarflokka hafa fundið sig knúða til að bera fram í sambandi við þetta frv. Það er vitanlega alkunnugt fyrir löngu síðan, að kommúnistar og jafnaðarmenn eru á móti því, að einstaklingar þjóðfélagsins hafi það olnbogarými í þjóðfélaginu, að þeir megi eiga það ábýli, sem þeir búa á og hafa lífsframfærslu sína af og þar sem þeir starfrækja þá framleiðslu, sem er vitanlega undirstaða þess að verulegu leyti, að þjóðfélag okkar getur staðizt. Þetta er alkunnugt, og þess vegna virtist mér það út af fyrir sig gersamlega óþarft í sambandi við þetta frv., að fulltrúar þessara flokka færu hver í kapp við annan að bera hér fram stefnuyfirlýsingar sínar. Mér virðist einnig, að þeir leggi allt of mikið í þetta frv., því að ef þeir vilja setja þær skorður í löggjöfina, að enginn bóndi, sem býr á jörð ríkisins, geti átt þess kost að eignast þessa jörð, þá er árás á þetta frv. út af fyrir sig alveg þýðingarlaus. Maður skyldi ætla, að þessi stefna þeirra kæmi þá fram í því að flytja till. um að nema gersamlega úr l. þá heimild, sem þar er til þess, að einstakir bændur geti fengið ábýlisjarðir sínar keyptar, því að þetta frv. felur ekkert í sér annað en það að taka af þeim bændum, sem óska að fá jarðir sínar keyptar, það ómak, sem í því felst að fá erfðaábúð á jörðunum, og þá um leið að hrinda úr vegi þeirri fyrirhöfn, sem þetta er fyrir þá menn, sem með þessi mál fara fyrir ríkisvaldið, því að þetta er gersamlega þýðingarlaus og óþörf krókaleið. Ekkert annað felst í þessu frv., ekki nokkur skapaður hlutur. Ég sé því ekki, hvernig þetta frv. getur verið grundvöllur fyrir eða gefið ástæðu til almennra umr. um, hvort jarðirnar eigi að vera ríkiseign eða eign einstaklinga. Um þetta gætum við rætt. Við, sem lítum svo á, að mesta öryggið fyrir framþróun og velfarnað landbúnaðarins sé í því fólgið, að allar jarðir í landinu komist í sjálfsábúð, getum fært fram fyrir þessari skoðun okkar rökstuðning með mörgum og áþreifanlegum dæmum að fornu og nýju, eins og þeir geta borið fram rök fyrir sinni þjóðnýtingarskoðun, en þessi hlið málsins liggur alls ekki fyrir. Andstaða gegn þessu frv. getur því ekki byggzt á öðru en því, að þeir geti ekki unnað bændum þess að losna við þessa fyrirhöfn og vilji ekki horfa í það í þessu sambandi, þó að ríkissjóður verði að bera nokkur útgjöld, sem eru því samfara að skipta um leigumála á jörðum. Svona horfir þetta mál við.

Ég vil aðeins út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um þetta mál, að það gæti orðið mikill þröskuldur í vegi fyrir nýsköpun í landbúnaðinum, — þeir halda sig við það heygarðshornið, — ef þetta frv. yrði samþ., taka fram, sem ég hef áður skýrt frá, hvað í þessu frv. felst samanborið við það, sem er í l. um erfðaábúð og óðalsrétt, — ég vil aðeins segja það: Hvernig heldur hann, að þessi nýsköpun fari fram á landbúnaðinum? Á hverju á að byggja, og hver verður grundvöllurinn undir þessari nýsköpun? Skyldu það ekki verða þeir, sem stunda búskap á jörðunum, sem verða þátttakendurnir í þessari nýsköpun? Mér finnst, að eigi að standa fyrir framkvæmdum einmitt þeir menn, sem eru beinir þátttakendur í nýskipaninni. Heldur háttv. 4. þm. Reykv. (StJSt), að ekki þurfi annað en að stofna nýbyggingarráð og samþykkja lög á Alþ. til þess, að láta gróa 2 strá þar, sem eitt greri áður í þessu þjóðfélagi. Nei, það þarf að taka höndunum til í sveitum landsins og þá vitanlega að hagnýta alla nýjustu tækni, sem til er. Og ekkert nýsköpunarráð hefur þurft, því að ég tel bændurna ganga langt á undan með þær framkvæmdir. Undir eins og raknaði úr með þeirra fjárhag, þá sneru þeir sér að því að fá sér nýjar vélar, auka ræktunina, bæta húsakostinn og í því sambandi hafa þeir gert mjög mikilsverðar samþykktir, sem eru ræktunar- og húsagerðarsamþykktir, sem hlotið hafa viðurkenningu Alþingis. Það þarf ekkert að reka á eftir þeim með þetta, því að þeir hafa verið í þessum efnum í fararbroddi. Það, sem veldur því, að ekki er lengra komið í þessu efni, er, að þeir hafa að litlu og ekki nema takmörkuðu leyti getað aflað sér þeirra véla og annarra stórvirkra tækja, sem og auk þess, að ekki hefur verið þess kostur nema að litlu leyti að flytja þessi landbúnaðartæki inn í landið. Það liggja fyrir svo miklar pantanir á slíkum vélum. Og það er búið að verja miklum tíma til undirbúningsstarfsemi í landinu, til þess að geta notað þessar vélar þegar þær koma. Það verður að ganga að því af fullum krafti og með oddi og egg að framkvæma þá nýsköpun, sem svo mikið er talað um nú, en bændur voru búnir með ýmsum ráðstöfunum og í verki líka að sýna, að þeir höfðu hafið áður en hið mikla nýsköpunarumtal hófst með okkar þjóð. Ég vildi aðeins benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að ef hann heldur, að fólkið, sem býr og enn þá heldur tryggð við sveitir þessa lands, ef það með þeirri skipan að vera eigendur þessara jarða standi í vegi fyrir nýsköpuninni, þá er það mikill misskilningur hjá honum. Og ég get sagt það sem mína skoðun, ég skal ekki segja um, hve mikið hann leggur upp úr minni skoðun, að því fyrr náum við því takmarki, sem við keppum að og lagður hefur verið grundvöllur að í lögum um ræktunar- og húsagerðarmál, því fyrr og auðveldar sem fleiri af jörðunum eru í einkaábúð. Þetta er mín skoðun í þessum efnum. — Það getur vel verið, að það sé fullkomin ástæða til að taka til athugunar þá bendingu, sem hv. þm. V.-Húnv. (SkG) gerði hér í sambandi við þann útreikning, sem er á söluverði þessara jarða, því að það er alveg rétt hjá honum, að þegar jarðir eru leigðar í erfðaábúð, þá er í sambandi við þá breytingu ákveðið eftirgjald eftir jörðina, og við sölu á þessari jörð á svo að leggja það eftirgjald, sem þá hefur verið ákveðið, til grundvallar fyrir söluverðinu. Nú getur það verið, og ég vil skjóta því til landbn., að sambandið í þessu efni sé ekki eins náið á um ákvæðið, sem um þetta er í l., og þess, sem hv. þm. V.-Húnv. telur, að sé í þessu frv., og því væri ástæða til, að taka þetta út af fyrir sig til athugunar. En það er líka sú eina aths. við þetta frv., sem fram hefur komið í umr. og ég álít, að beri að taka sérstaklega til athugunar í sambandi við afgreiðslu þess.