22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Frsm,. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 11. landsk. (STh) sagði, þá tel ég sjálfsagt að taka hans aths. til greina og tel víst, að landbn. verði fús til að flytja brtt. um hana. Um þetta frv. er það að segja, að það er algerlega sniðið eftir ákvæðum, sem eru í gildandi l., og þar er þetta ekki tekið fram og því ekki heldur tekið upp í frv., en úr því að bent hefur verið á þetta, tel ég rétt, að það verði tekið með.

En út af því atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. (StJSt) kom inn á, og þar sem hann segir, að verið sé að opna upp á alla gátt, þá vil ég leyfa mér með leyfi hæstv. forseta að lesa nokkur orð úr gildandi l., það er úr l. um ættaróðal og erfðaábúð. Í 34. gr. l. segir svo: „Allar jarðir og hjáleigur, sem eru í eigu ríkissjóðs, kirkna landsins eða sjóða, sem eru almannaeign (Kristfjárjarða, gjafasjóða, sem ekki má skerða, sýslusjóða eða hreppssjóða), skal, þegar þær losna næst úr ábúð eða þegar núverandi ábúandi. óskar þess, byggja á erfðaleigu eftir lögum þessum.“ — Og enn fremur segir svo í 47. gr. sömu laga: „Ábúendur þjóð- og kirkjujarða og annarra opinberra stofnana og sjóða, — nema ákvæði gjafabréfa og skipulagsskráa mæli gegn því, — sem hafa fengið erfðaábúð á jörðum sínum, hafa rétt til að fá ábúðarjarðir sínar keyptar, ef þeir, eftir því sem við á, fullnægja ákvæðum 1. gr. og auk þess eftirtöldum skilyrðum: — “ Lögin mæla svo fyrir, að það skuli byggja á erfðaábúð og hafi ábúandi sjálfur ekki erfðaábúð, þá skuli hann fá hana næst þegar jörðin losnar úr ábúð eða þegar hann óskar þess. Og skv. 47. gr. l. skulu þeir menn, sem hafa erfðaábúð, eiga rétt á að fá jarðirnar keyptar, ef fullnægt er vissum skilyrðum. Ég sé ekki, að hægt sé að segja, að með þessu sé verið að opna upp á gátt, þegar allar sölur í heild eru háðar sömu skilyrðum, sem fyrst og fremst eru þetta, að gera jarðirnar að ættaróðali til að fyrirbyggja, að þær lendi í braski. Ég get ekki skilið, að þetta sé nýtt og að verið sé að opna allt upp á gátt.