27.11.1945
Neðri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Pétur Ottesen:

Ég vil mjög taka undir það, sem hv. 1. þm. Árn. beindi til hv. frsm. þessa máls um það, að mér finnst í alla staði óeðlilegt að undanskilja skilyrðislaust öll afnot af vatni og jarðhita. Þá mætti náttúrlega, ef þessu væri fylgt bókstaflega, segja, að undanskilið væri allt vatn til heimilisnota. Mér finnst, að ákvæði, sem grípa yfir svona öfgar og fjarstæðu, eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að koma fram í löggjöfinni. Ég andmælti þess vegna þeim bendingum, sem komu fram við 2. umr. í þessa átt, og ég stend við það. Um námuréttindi er allt öðru máli að gegna, því að það er almennt viðurkennt, að þau séu undanþegin, og mér finnst engin ástæða til að ganga lengra í þessu frv. Ég vil þess vegna gera það að minni till., að ekki verið gengið lengra í þessu frv. en að undanskilja námuréttindi.