08.02.1946
Efri deild: 62. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Frsm. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur hlotið afgreiðslu í hv. Nd., og að því er ég bezt veit er nokkurn veginn fullt samkomulag um frv. sjálft, þ. e. þau fyrirmæli, sem í þessu frv. felast, þó að ágreiningur væri í hv. Nd., eins og víðar, um jarðasölumálið í heild, hvort selja eigi ríkissjóðsjarðir eða ekki.

Það er svo um þetta mál nú, að ábúendur þjóð- og kirkjujarða eiga rétt á því að fá jarðir sínar keyptar, ef þeir búa við erfðaábúð, ef ábúðarrétturinn á jörðunum er arfgengur. Fyrir þessu eru sett sérstök skilyrði í l. um ættaróðal og erfðaábúð, þar á meðal það, að jarðir, sem þannig eru keyptar, skuli gerðar þá strax að ættaróðulum. Þetta frv. gerir ráð fyrir þeirri breyt., að ekki aðeins þeir ábúendur, sem búa við erfðaábúð, heldur allir ábúendur opinberra jarða, skuli geta fengið þær keyptar með sömu skilyrðum. Hv. þdm. kannast við það, að þegar átt hefur að selja opinbera jörð ábúandanum og ábúandinn hefur ekki búið við arfgenga ábúð, þá hefur orðið að setja um þá sölu sérstök lög. En verði þetta frv. að l., þá hverfur sú fyrirhöfn, og það gilda þá sömu reglur um ábúanda að þessu leyti, hvort sem hann hefur búið við arfgenga ábúð eða ekki. Aðeins hefur í þessu frv. einu atriði verið breytt, sem sé því, að að undanförnu hefur það verið eitt af höfuðskilyrðunum fyrir sölu, að ábúandi hefði búið á ábýli sínu samfleytt í 5 ár, en nú er þetta ábúðartímaskilyrði lækkað í 3 ár. Að öðru leyti eru söluskilyrðin hin sömu og áður. Hér er að vísu í 2. málsgr. 2. gr. bætt við einu varúðarákvæði viðvíkjandi sölu á þessum jörðum, sem sé því, að ef ábúandi kaupir ábýlisjörð sína og gerir hana að ættaróðali, eins og vera ber, en svo kemur til sölu á þeirri jörð síðar, þá á ríkissjóður forkaupsrétt.

Það hefur ekki orðið fullt samkomulag um þetta mál í landbn. En 3 nefndarmanna, sem skrifa undir nál. á þskj. 341, leggja það til, að þetta frv. verði samþ.