16.10.1945
Sameinað þing: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

16. mál, fjárlög 1946

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Áður en ég vík að fjárlagafrv. fyrir 1946, vil ég leyfa mér að gera grein fyrir fjárhagsafkomu ársins 1944 og að svo miklu leyti sem auðið er, fyrir afkomu þessa árs.

Heildartekjur ársins 1944 voru í fjárlögum þessa árs áætlaðar kr. 94,3 millj. (Hér og í greinargerð þeirri er á eftir fer verður yfirleitt reiknað í hundruðum þúsunda, þannig að 50 þús. og meira er hækkað upp, en lægri tölum sleppt). Tekjurnar reyndust hins vegar kr. 127,4 millj. kr., eða 33,1 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þeir liðir, sem aðallega hafa farið fram úr áætlun, eru þessir:

1. Tekju- og eignarskattur: áætl. 20 millj. kr., varð 24,1 millj. kr.

2. Vörumagnstollur: áætl. 8 millj., varð 10,2 millj. kr.

3. Verðtollur: áætl. 30 millj., varð 36,1 millj. kr.

4. Gjald af innlendum tollvörum : áætl. 1,3 millj., varð 1,8 millj. kr.

5. Stimpilgjald: áætl. 1,5 millj., varð 2,3 millj. kr.

6. Veitingaskattur: áætl. 0,25 millj., varð 0,5 millj. kr.

7. Tekjur af ríkisstofnunum : áætl. 16,6 millj., urðu 38,8 millj. kr.

8. Óvissar tekjur: áætl. 0,1 millj., urðu 2,2 millj. kr.

Nokkrir aðrir tekjuliðir fóru lítils háttar fram úr áætlun, en ekki svo að máli skipti.

Tekjur af ríkisstofnunum skiptast þannig:

a) Póstsjóður: Tekjuhalli áætl. 0,3 millj. kr., en tekjuafgangur varð 0,4 millj. kr.

b) Sími: Tekjuafgangur áætl. 0,4 millj., en varð 0,7 millj. kr.

c) Áfengisverzlun: Tekjuafgangur áætl. 10,3 millj. kr., en varð 29,0 millj. kr.

d) Tóbakseinkasala: Tekjuafgangur áætl. 5,7 millj. kr., en varð 7,6 millj. kr.

e) Ríkisútvarp ásamt viðtækjaverzlun: Tekjuafgangur áætl. 0,25 millj. kr., en varð 0,65 millj. kr.

f) Ríkisprentsmiðjan (Gutenberg) :

Tekjuafgangur áætl. 0,2 millj. kr., en varð 0,4 millj. kr.

g) Landssmiðjan: Tekjuafgangur. áætl. 0,1 millj. kr., en rekstrarhalli varð 0,3 millj. kr. h) Í fjárlögum var gert ráð fyrir, að tekjur og gjöld af áburðareinkasölu og grænmetisverzlun ríkisins stæðust á, en hjá báðum stofnunum hefur orðið lítils háttar tekjuafgangur (af áburðareinkasölu 0,2 millj. kr, og grænmetisverzlun 0,1 millj. kr.

Afkomu ríkisbúanna þykir eigi ástæða til að gera grein fyrir hér, en yfirleitt var hún þolanleg á árinu 1944. Mestum hagnaði skilaði Hvanneyrarbúið, tæpum 34 þús. kr.

Í óvissum tekjum er langstærsti liðurinn innb. frá Bifreiðaeinkasölu ríkisins, 1,3 millj. kr.

Tveir tekjuliðir stóðust ekki áætlun. Stríðsgróðaskattur var áætl. 12 millj. kr. og hluti ríkissjóðs því 6 millj. kr., en hann reyndist 9,6 millj. kr. og hluti .ríkissjóðs því 4,8 millj. kr. Fasteignaskattur var áætl. 0,85 millj. kr., en reyndist aðeins 0,6 millj. kr.

Rekstrarútgjöld ársins 1944 voru áætluð 89,8 millj. kr., en urðu 124,1 millj. kr., og fóru þannig 34,3 millj. kr. fram úr áætlun:

Skulu hér taldir þeir gjaldaliðir, er aðallega hafa farið fram úr áætlun:

1) Alþingiskostnaður var áætl. 0,55 millj. kr., en varð 2,12 millj. kr. og hefur því farið fram úr áætl. um 1,57 millj. kr.

2) Kostnaður við stjórnarráðið var áætl. 1,5 millj. kr., en varð 2,2 millj. kr. og hefur því farið 0,7 millj. kr. fram úr áætl.

3) Dómgæzla og lögreglustjórn áætl. 4,7 millj. kr., en varð 7,0 millj. kr. og hefur því farið fram úr áætl. um 2,3 millj. kr.

4) Opinbert eftirlit áætl. 0,6 millj. kr., en varð 0,85 millj. kr. og hefur þannig farið 0,25 millj. kr. fram úr áætlun.

5) Kostnaður við innheimtu skatta og tolla áætl. 2,2 millj, kr., en varð 2,9 millj. kr. og því farið fram úr áætl. um 0,7 millj. kr.

6) Vegamál áætl. 14,2 millj. kr. Kostnaður varð 17,5 millj. kr. og umframeyðsla því 3,3 millj. kr.

7) Samgöngur á sjó áætl. 2,3 millj. kr. Kostnaður varð 3,0 millj. kr. og umframeyðsla því 0,7 millj. kr.

8) Kennslumál áætl. 11,4 millj. kr. Kostnaður varð 13,7 millj. kr. Umframeyðsla því 2,3 millj. kr.

9) Listir og vísindi (15. gr. A.) Áætl. kostnaður 1,6 millj. kr. Varð 2,0 millj. kr. Umframeyðsla því 0,4 millj. kr.

10) Landbúnaðarmál. Áætlaður kostnaður 7,4 millj. kr. Varð 7,7 millj. kr. Umframeyðsla því 0,3 millj. kr.

11) Eftirlaun og tillag til lífeyrissjóðs áætluð 1,3 millj. kr., en urðu 2,6 millj. kr. Umframeyðsla því 1,3 millj. kr.

Auk þessara áætlunarliða er greitt út samkvæmt heimildarlögum samtals um 5,7 millj. kr. Langstærsta greiðslan er til hjálpar- og endurreisnarstofnunar hinna sameinuðu þjóða, rúmlega 4,7 millj. kr.

Þá eru loks greiðslur samkv. sérstökum lögum, en þær nema samtals 17,2 millj. kr. Þar af niðurgreiðsla á kjöti á innlendum markaði 11,1 millj. kr. og á mjólk 3,9 millj. kr. eða samtals tæpar 15 millj. kr. Útflutningsuppbætur námu hins vegar rösklega 9,5 millj. kr., svo að heildargreiðslur ársins vegna landbúnaðarafurða hafa orðið sem næst 24,5 millj. kr. Önnur hæsta greiðslan samkv. sérstökum lögum er vegna stríðstrygginga sjómanna, tæplega 0,7 millj. kr. Þá eru ómagastyrkir 0,3 millj. kr. Orlofsfé 0,3 millj. kr., tillag í hafnarbótasjóð 0,3 millj. kr. Minni fjárhæðir hirði ég eigi að greina.

Í fjárlögum ársins 1944 var tekjuafg. áætl. 4,5 millj. kr. En eins og áður er sagt, urðu tekjur ársins kr. 127,4 millj. en gjöld kr. 124,1 millj. og tekjuafgangur því tæplega kr. 3,3 millj., eða nákvæmlega talið kr. 3280126. —

Í fjárlögum sama árs var greiðsluhalli áætlaður kr. 357670,00, en hann hefur orðið 13312000,00. Það, sem mestu veldur um þennan sjóðhalla, er aukið rekstrarfé til ríkisstofnana og eignaaukning þeirra, en sú fjárhæð nemur samtals rúml. 8,1 millj. kr. Enn fremur lán til ýmissa ríkisfyrirtækja 1,7 millj. kr., til byggingar sjómannaskólans 2 millj. kr. og lækkun á geymslufé 1,5 millj. kr. Þá voru keypt hlutabréf í Útvegsbankanum fyrir 0.7 millj. kr. Afborganir af lánum voru 1,9 millj. kr.

Sjóður í ársbyrjun var kr. 20503000,—

Rekstursafg. kr. 3280000,—

Samtals kr. 23783000,—

Greiðsluhalli kr. 13312000,—

og sjóður í árslok kr. 10471000,—

Rétt er að geta þess, að á árinu var tekið innanlands 10 millj. kr. lán. Af því voru notaðar 3,5 millj. kr. til greiðslu á láni í Bretlandi (eftirstöðvar lánsins frá 1921), en 6 millj. kr. af láninu voru geymdar á sérstökum reikningi til næsta árs og það notað í ár til greiðslu á síðasta brezka ríkisláninu.

Að sjálfsögðu er eigi unnt að gefa jafnöruggar upplýsingar um afkomu þessa árs, eða þess, sem liðið er af því. Til þess vantar enn þá margvísleg gögn. Það mun þó óhætt að fullyrða, að svo framarlega, sem ekkert ófyrirsjáanlegt ber að höndum, mun verða nokkur rekstrarafgangur á árinu. Í lok septembermánaðar voru heildartekjur ríkissjóðs 104,3 millj. kr., auk 2,5 millj. kr. eftirstöðva frá fyrri árum, sem innheimtar hafa verið á árinu. Þeir tekjuliðir, sem sýnilega fara mikið fram úr áætlun, eru þessir :

1. Tekju- og eignarskattur, ásamt tekjuskattsauka, var áætl. 28,5 millj. En álagðir munu þessir skattar nema 33,5 millj. kr., og þótt einhver vanhöld kunn að verða á greiðslum, ætti þessi skattstofn þó að fara talsvert fram úr áætlun.

2. Álagður stríðsgróðaskattur mun nema sem næst 11 millj. kr. og hlutur ríkissjóðs því verða um 5,5 millj., eða 1 millj. kr. meira en áætlað var.

3. Verðtollur var áætl. 28 millj. kr., en var í sept.lok kominn upp í 31,1 millj. kr.

4. Vörumagnstollur var í sept.lok 9,2 millj. kr., en var áætlaður 9 millj. kr.

5. Stimpilgjald var í sept.lok orðið 2,4 millj. kr., en var áætl. 1,7 millj. kr.

6. Tekjur af ríkisstofnunum voru í sept.lok 29,2 millj. kr., áætlaðar 29,9 millj. kr.

Þar sem ég mun verða að víkja nánar að þessum tekjustofnum í sambandi við fjárlagafrv., skal ég eigi fjölyrða frekar um þá nú.

Gjöld ríkissjóðs í septlok námu samtals 86,9 millj. kr. Fyrirsjáanlegt er, að ýmsir gjaldaliðir munu fara fram úr áætlun, en engir þó þannig, að ég telji ástæðu til að gera þá að sérstöku umræðuefni, enda í flestum tilfellum erfitt að gera sér grein fyrir endanlegri útkomu. Á það má minna, sem öllum hv. alþm. raunar er kunnugt, að á fjárlögum yfirstandandi árs var engin fjárveiting til uppbóta eða niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðir, en þær greiðslur námu í sept.lok sem næst 19,2 millj. kr.

Eins og ég áður sagði, voru heildartekjurnar í sept.lok 104,3 millj. kr., en gjöldin á sama tíma 86,9 millj. kr. Tekjuafgangur á þessum tíma nemur því um 17,4 millj. kr. Ef allt fer með felldu, vildi ég mega gera mér von um, að afkoma versni ekki þá 3 mánuði ársins, sem eftir eru. Ef hins vegar t. d. siglingar stöðvuðust, eins og nú virðist nokkur hætta á, gæti það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu ríkissjóðs.

En þótt útlit sé fyrir sæmilega góða rekstrarafkomu, er viðhorfið nokkuð annað með sjóðreikning. Í septemberlok stendur sjóðreikningur raunverulega 7 millj. kr. verr en rekstrarreikningur, en sá mismunur á fyrir sér að vaxa. Til þess að koma í veg fyrir misskilning, skal þó fram tekið, að hér er eigi reiknað með 15,7 millj. kr., sem standa inni hjá ríkisstofnunum og embættismönnum, en talið er með tilföllnum tekjum á rekstrarreikning. Þeir gjaldaliðir utan rekstrarreiknings, sem mestu nema, eru skuldagreiðslur 3,3 millj. kr., fyrir utan þær 6 millj. kr., sem geymdar voru frá f. á., greiðslur til sjómannaskólans 1,2 millj., til vitabygginga og áhaldahúss 1,1 millj., ríkisspítalar með 0,7 millj. kr. og til kaupa á varðbátum 0,9 millj. k:.

Nokkra smærri liði hirði ég ekki að greina. Þótt yfirlit það, sem ég nú hef gefið yfir afkomu þessa árs, sé næsta ófullkomið, þá vænti ég samt, að það nægði til þess að gefa heildaryfirsýn yfir fjárhagsafkomu ársins. Að ýmsu mun ég víkja nánar í sambandi við fjárlagafrv. fyrir 1946, og mun ég nú næst gera það að umræðuefni.

Síðan í styrjaldarbyrjun hafa tekjur ríkissjóðs hækkað ár frá ári. Síðustu 5 árin hafa tekjurnar verið svo sem hér segir:

1940

27,3

millj.

kr.

1941

50,4

-

1942

86,7

-

1943

110,8

1944

127,4

Á yfirstandandi ári verða tekjurnar að minnsta kosti 145 millj. kr. og þó sennilega nokkru meira. En þess er að gæta, að á síðasta Alþingi voru lagðir á nýir skattar, er nema munu allt að 20 millj. kr. Þessi mikla tekjuaukning stafar fyrst og fremst af góðri afkomu atvinnuveganna, af háu kaupgjaldi og þar af leiðandi mikilli kaupgetu og mikilli eyðslu.

Á undanförnum árum hefur farið saman hagstætt árferði til lands og sjávar og mjög hagstætt útflutningsverð á aðalútflutningsvörum landsins. Þegar semja á tekjuáætlun fyrir árið 1946, er óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir, hverjar líkur muni til, að framhald verði á þessu. Aðalútflutningsvörur landsins eru ýmiss konar matvörur. Alkunnugt er, að matarskortur er nú í flestum löndum Norðurálfu og raunar víðar. Líkur virðast benda til, að eftirspurn verði allmikil eftir útflutningsafurðum landsins og þá einnig sæmilegt verð á þeim. Hins vegar má ekki gleyma því, að viðskiptalönd vor munu nú keppa að því að komast aftur á heilbrigðan grundvöll í fjármála- og viðskiptalífinu, eftir alla styrjaldarvímuna, og má því gera ráð fyrir, að fast verði sótt á um verðlækkun á ýmsum vörum. Útlit er fyrir, að talsverð aukning atvinnutækja verði á næsta ári, og gæti það vegið nokkuð á móti þeirri verðlækkun, er verða kynni. Að öllu athuguðu sýnist því ekki ástæða til sérstakrar svartsýni um afkomu atvinnuveganna á næsta ári, svo framarlega sem árferði og aflabrögð yrðu sæmileg. En um það verður fyrirfram aldrei vitað. Út frá þessu höfuðsjónarmiði er tekjuáætlunin gerð, þó svo, að reynt er að stilla bjartsýninni í hóf. Skal ég nú víkja nokkuð að hinum einstöku tekjustofnum.

Fyrsti tekjuliðurinn er tekju- og eignarskattur, ásamt tekjuskattsauka, en gert er ráð fyrir, að hann verði framlengdur óbreyttur.

Eins og ég áður gat um, munu þessir skattar samtals verða nálægt 33,5 millj. á þessu ári, en í fjárlagafrv. fyrir 1946 eru sömu tekjur áætlaðar 26 millj. Þessi lækkun stafar að mestu af því, hversu síldveiðarnar brugðust á síðasta sumri. Afleiðing þess hlýtur að verða sú, að mörg útgerðarfyrirtæki, sem á undanförnum árum hafa greitt allmikinn tekjuskatt, greiða lítinn eða engan skatt á þessu ári. Að öðru leyti verður eigi annað séð en að atvinna manna á yfirstandandi ári hafi gengið vel, og að sjálfsögðu mun launahækkun sú hjá opinberum starfsmönnum, sem varð á fyrri hluta þessa árs, hafa í för með sér nokkra hækkun á tekjuskatti. Má því vera, að fært hefði verið að áætla þennan tekjustofn eitthvað hærri, og verður það að sjálfsögðu tekið til athugunar í háttv. fjvn.

Stríðsgróðaskattur mun á yfirstandandi ári verða um 11 millj. króna, en í fjárlagafrv. áætlaður aðeins 6 millj. króna og er því lækkaður nálega um helming. Gildir sama um þennan lið og þann næsta á undan, að aflaleysið á síldarvertíð er einasta orsök lækkunarinnar. Vörumagnstollur var 30. sept. tæplega 9,2 millj. kr., og mun því sennilega á þessu ári verða sem næst 12 millj. kr., svo framarlega sem siglingar stöðvast ekki. Allar líkur eru til, að innflutningsmagn verði eigi minna á næsta ári en þessu, og geri ég því ráð fyrir, að tekjustofninn megi teljast varlega áætlaður.

Verðtollur var í septemberlok rúmlega 31 millj. króna, og má því telja víst, að hann losi 40 millj. kr. á þessu ári. Í fjárlagafrv. er hann áætlaður 33 millj. kr. Nú er þess að gæta, að lækkun á farmgjaldi og vátryggingum, sem þegar er orðin og sennilega má gera ráð fyrir, að haldi áfram á næsta ári, hefur í för með sér talsverða lækkun á verðtolli. Hins vegar er það og ljóst, að þegar útflutningsmöguleikar vaxa frá Bretlandi og Norðurlöndum, mun verða aukning í innflutningi á ýmsum vörutegundum hjá oss. Það er því eigi ósennilegt, að þetta tvennt geti vegið nokkuð hvort á móti öðru, og vildi ég því ætla, að tekjustofninn sé ekki óvarlega áætlaður.

Innflutningsgjald af benzíni er hækkað um 100 þús. kr. frá því, sem það var áætlað í fjárlögum yfirstandandi árs, og er það gert með tilliti til fjölgunar á bifreiðum, sem orðið hefur á þessu ári.

Gjald af innlendum tollvörum er hækkað um 300 þús. kr. frá fjárlögum þessa árs, og er þar stuðzt við reynslu yfirstandandi árs.

Fasteignaskattur er óbreyttur. Lestagjald af skipum hefur verið hækkað um 40 þús. kr. og bifreiðaskatturinn um 300 þús. kr., og er hann, eins og benzíngjaldið, miðaður við bifreiðafjölgunina.

Aukatekjur eru í fjárlögum yfirstandandi árs áætlaðar 800 þús. kr., en höfðu í septemberlok náð þeirri fjárhæð. Þær eru því hækkaðar um 300 þús. kr., og virðist það ekki óvarlegt, þegar þess er gætt, að hækkun sú á skattstiganum, sem gerð var á síðasta þingi, kom ekki í gildi fyrr en í marzmánuði. — Stimpilgjald var í septemberlok 2,4 millj. kr., en er áætlað aðeins 2,5 millj. kr. Líklegt þótti, að mikil fasteignasala á þessu ári hefði ráðið allmiklu um það, hve mikið stimpilgjaldið fer fram úr áætlun, og þótti því eigi rétt að áætla það hærra en 2,5 millj. kr. Vera má, að hér sé óþarflega varlega farið í sakir.

Vitagjald var í septemberlok 400 þús. kr., en þar sem líklegt þykir, að skipakomur verði hér meiri á næsta ári, og þar sem vitagjaldið er einn af þeim tekjustofnum, sem hækkaðir voru á síðasta Alþingi, þótti rétt að áætla það 600 þús. kr. á næsta ári.

Leyfisbréfagjöld hafa verið áætluð 100 þús. kr. — Erfðafjárskattur óbreyttur kr. 200 þús. og veitingaskattur 600 þús. kr., en hann var í sept.lok kominn upp í rúmlega 460 þús. kr.

Skattar og tollar hafa þannig samanlagt verið áætlaðir 81,8 millj. kr. á móti 77,4 í fyrra, eða 4,4 millj. kr. hærra en á síðasta ári.

Skal þá næst vikið nokkuð að ríkisstofnunum. Póstur og sími eru samanlagt áætl. með rekstrartap, er nemur um 200 þús. kr., auk þess sem á 20. gr. er gert ráð fyrir nýbyggingum hjá símanum, er nema 3 millj. kr. Þessar stofnanir eru því allþungur baggi á ríkissjóði, og getur það naumast talizt eðlilegt, sérstaklega með stofnun eins og landssímann.

Það, sem annars skiptir máli í þessu sambandi, er , tekjuáætlun áfengisverzlunar og tóbakseinkasölu. Nettótekjur áfengisverzlunarinnar voru í septemberlok 21,5 millj. kr., og má því telja víst, að þær losi 30 millj. kr. á þessu ári. Í fjárlagafrv. eru þær hins vegar áætlaðar tæplega 22,5 millj. kr., eða rúml. 25% lægra en þær munu verða á yfirstandandi ári. Ég þykist vita, að einhverjir muni telja þessa áætlun óvarlega, því jafnskjótt og um þrengist með fé hjá almenningi, muni kaup á þessum vörum fara stórminnkandi. Það er að sjálfsögðu erfitt að staðhæfa, hvernig verða muni um þetta í framtíðinni, en eins og áður hefur verið vikið að, virðist ekki bein ástæða til þess að gera ráð fyrir stórfelldum samdrætti í atvinnulífinu á næsta ári, og þá ekki heldur ástæða til að ætla, að notkun munaðarvara fari mjög lækkandi. Nú verður þó eigi annað sagt en að 25% lækkun á einu ári sé allmikið stökk niður á við, og sýnist mér því eigi ástæða til að telja áætlunina óvarlega. Þess er og að gæta, að tekjur af áfengisverzlun hefðu orðið allmiklu meiri á þessu ári en raun er á, ef eigi hefði framan af árinu verið allmikill hörgull á áfengisvörum, er stafaði af sjóslysum. Hin raunverulega lækkun, sem reiknað er með, er því talsvert meiri en 25%.

Tekjur af tóbakseinkasölunni eru áætlaðar 7,75 millj. kr., en þær voru í sept.lok 7,7 millj. kr., og má því gera ráð fyrir, að þær verði á árinu sem næst 10 millj. kr. Er hér um svipaða niðurfærslu að ræða og á áfengisverzluninni, að því undanteknu þó, að tekjur tóbakseinkasölu hafa eigi rýrnað á yfirstandandi ári vegna vöruskorts. Hins vegar má telja líklegt, að ef kaupgeta almennings minnkaði, mundi það koma fyrr niður á áfengiskaupum en tóbaks.

Aðrar ríkisstofnanir en þær, er nú hafa verið nefndar, skipta litlu máli um tekjuáætlunina, og mun ég því eigi ger a þær frekar að umræðuefni.

Tekjuliði þá, sem um ræðir í 4. og 5. gr., mun ég eigi gera að sérstöku umræðuefni, enda skipta þeir litlu máli fyrir heildarafkomuna.

Eins og sjá má af rekstraryfirlitinu í 21. gr., eru heildarrekstrartekjur ársins 1946 áætl. 114,2 millj. kr., eða rúmlega 13 millj. kr. minna en þær reyndust vera á árinu 1944 og að minnsta kosti 30 millj. kr. minna en útlit er fyrir, að þær verði á þessu ári. En þess ber þá einnig að gæta, að gert er ráð fyrir, að tveir tekjustofnar, sem samtals munu gefa 12–14 millj. kr. á þessu ári, verði eigi framlengdir. Er þar um að ræða veltuskattinn og ísfiskgjaldið. En þrátt fyrir þá tekjurýrnun, sem af þessu leiðir, má mikið breytast frá því, sem verið hefur hin síðari árin, til þess að tekjuáætlunin fáí eigi staðizt.

Næst skal þá vikið að gjaldaáætluninni.

Um 6.–10 gr. er ekkert sérstakt að segja. Áætlunin er byggð á reynslu þessa árs og hinir ýmsu útgjaldaliðir áætlaðir svo nærri lagi sem auðið er að gera fyrirfram.

Utanríkisþjónustan er þegar orðin allhár útgjaldaliður, og má án efa gera ráð fyrir, að hann eigi fyrir sér að hækka. En um það þýðir eigi að fást, það er óhjákvæmileg afleiðing þess, að vér höfum nú tekið öll vor mál í eigin hendur. Á hitt ber og að líta, að utanríkisþjónustan færir oss án efa allmikinn óbeinan hagnað, þó jafnaðarlegast sé erfitt að telja hann í tölum.

Um 11. gr. er að mestu það sama að segja. að áætlunin er þar byggð á reynslu þessa árs, Sumir útgjaldaliðir þessarar greinar eru orðnir ískyggilega háir. Má t. d. benda á lögreglukostnað, sem nálgast orðið 1½ millj. kr. Landhelgisgæzlan er áætluð 3 millj. kr. og kostnaður við að innheimta tolla og skatta, ásamt tollaeftirlitinu, nemur nákvæmlega 2½ millj. kr. Í sambandi við hina háu fjárveitingu til landhelgisgæzlunnar er rétt að geta þess, að fest hafa verið kaup í Bretlandi á 3 vönduðum og hraðskreiðum bátum, sem ætlazt er til, að notaðir verði til landhelgisgæzlu eftirleiðis, enda verði Þór þá seldur. Bátar þessir með öllum útbúnaði munu kosta nokkuð yfir 1 millj. kr., og reynist þeir hentugir til landhelgisgæzlunnar, verður eigi annað sagt en að vel hafi tekizt með öflun skipa til þeirrar notkunar.

Í 12. gr. mun vekja mesta eftirtekt hinn mikli rekstrarhalli á ríkisspítulunum, sérstaklega á Landsspítalanum, þrátt fyrir hækkun á daggjöldum. Styrkur til sjúkrabygginga, læknabústaða og sjúkraskýla er áætlaður 1 millj. kr., og mun það hvergi nærri hrökkva til að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar verða um framlag úr ríkissjóði til þessara stofnana. — Um þessar greinar er það að öðru leyti sameiginlegt, að útgjöldin hafa hækkað mjög vegna hinna nýju launalaga. Þess skal getið, að við samningu fjárlaganna hefur verið reiknað með vísitölu 275, en nú má telja líklegt, að hún verði nokkru hærri, og leiðir það að sjálfsögðu til útgjaldaaukningar.

Kem ég þá að 13. gr. Framlög til nýrra akvega eru áætluð 1 millj. kr. lægri en í síðustu fjárlögum. Mér er fullljóst, að skiptar verða skoðanir um, hvort hér sé rétt stefnt, og enginn neitar því, að þörf sé nýrra vega. En hins verður að gæta, að nýtt viðhorf hefur skapazt hin síðari árin í vegagerðinni. Reynslan hefur leitt í ljós það, sem raunar áður var vitað, að vegagerð með nýtízku áhöldum verður mörgum sinnum ódýrari en með handverkfærum, sem aðallega hafa verið notuð hér á landi fram á síðustu tíma. Á þessu ári hefur verið aflað margra stórvirkra vegavinnuvéla, og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að vegavinnuvélar verði keyptar fyrir 800 þús. kr. á næsta ári. Þrátt fyrir þá lækkun, sem lagt er til á framlaginu til nýrra vega, ættu því afköstin síður en svo að minnka. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé mjög hæpinn ávinningur að veita meira fé til nýbyggingar vega en sem því svarar, er unnið verður með vélum. Þess verður þó að gæta, að ef sú leið yrði valin, er naumast unnt að dreifa vegafénu eins mikið og gert hefur verið á síðari árum. Kostnaður við flutning vélanna er meiri en svo, að það gæti borgað sig að nota þær við lagningu smáspotta; sem veittar eru til. 5–10 þús. kr. Veit ég í raun og veru ekki, hvort nokkur skaði væri skeður, þó breytt væri til í þessu efni, vegarspotti, sem er nokkur hundruð metrar, getur að vísu gert nokkur þægindi fyrir 1 eða 2 heimili, en þjóðhagslega þýðingu hefur hann sjaldnast. Vænti ég, að háttv. fjvn. taki það til rækilegrar athugunar, hvort ekki gæti verið ástæða til að breyta einhverju um stefnu í þessum efnum.

Rétt er að vekja athygli á því, að í fjárlagafrv. eru engar tillögur gerðar, um skiptingu vegafjárins. Stafar það af því, að yfirstjórn vegamálanna var eigi undir það búin að gera tillögur um skiptinguna, þegar fjárlagafrv. var samið, en kvaðst hins vegar munu bera fram tillögur til fjárveitinganefndar þar að lútandi.

Til nýrra brúa er lagt til, að varið verði á næsta ári 1,5 millj. kr., og er það nokkuru minna en í fjárlögum yfirstandandi árs, ef þar er talin með 500 þús. kr. endurfjárveiting. Útlit er fyrir, að smíði Ölfusárbrúar verði lokið á þessu ári, og mun hún kosta nær 2 millj. kr., en fjárveitingin til hennar var aðeins 1 millj. kr. í fjárlögum þ. á. Bróðurparturinn af brúarframlaginu mundi því ganga til að standast kostnað af gerð Ölfusárbrúarinnar. Þess ber þó að gæta, að enn þá er óeytt af brúarfjárveitingu ársins 1943 325 þús. kr. og af fjárveitingu ársins 1944 312 þús. kr. Enn fremur er gert ráð fyrir, að á næsta ári verði gerð brú á Jökulsá á Fjöllum fyrir fé úr brúasjóði, en í honum munu verða um næstu áramót nálægt 1,4 millj. kr. Það verður því að teljast vafasamt, að á næsta ári verði unnt að koma upp fleiri brúm en fjárveitingar eru fyrir, þótt látið verði sitja við 1.5 millj. kr., eins og tekið hefur verið upp í frumvarpið.

Viðhald og endurbætur vega eru áætl. 8 millj. kr., eða 1 millj. kr. meira en í núverandi fjárlagafrumvarpi.

Því miður er það samt sem áður svo, að þessi áætlunarliður mun fremur verða of lágur en of hár. Vegaviðhaldið er orðið ákaflega þungur baggi á ríkissjóði, og virðist mér, að vegamálastjórnin ætti vel að athuga, hvort eigi mundi auðið að gera það eitthvað ódýrara með betri áhöldum.

Til strandferða er lagt til, að veittar verði 2 millj. kr., og satt að segja er mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hvort sú fjárveiting muni nærri lagi. Kostnaður verður án efa talsvert hærri á þessu ári, en ef til vill mætti gera sér vonir um, að útgerðarkostnaður færi eitthvað lækkandi, að minnsta kosti vátryggingar skipanna og áhættuþóknun skipshafna. — Annars mun þessi útgjaldaliðar þurfa sérstakrar athugunar við í háttv. fjárveitinganefnd.

Til nýrra hafnargerða er áætlað, að varið verði 2 millj. kr. á næsta ári, og er það aðeins minna en í fjárlögum þessa árs. En þar gildir að nokkru hið sama og um vegina, að fullkomnari tækni á að geta aukið afköstin. Á hitt þarf ekki að minnast, að sú aukning útgerðarinnar, sem gert er ráð fyrir að fram fari á næsta ári, mun gera nauðsynina á nýjum hafnarmannvirkjum enn þá meira aðkallandi.

Til flugvallagerðar og lendingarbóta fyrir flugvélar er áætlað 450 þús. kr. fyrir utan 400 þús. kr., sem teknar eru á 20. gr. til flugvallar í Vestmannaeyjum og lendingarbóta á Ísafirði.

Um 14. gr. hef ég ekki margt að segja. Til húsabóta á prestssetrum er áætl. 500 þús. kr., og til endurbóta á gömlum húsum 200 þús. kr., og er það 100 þús. kr. meira en á núverandi fjárlögum. En auk þess er tekin á 20. gr. 150 þús. kr. fjárveiting til kaupa á jörðinni Hesti í Borgarfirði, en raunverulega er þar ekki um annað að ræða en fjárveitingu til byggingar íbúðarhúss fyrir prestakallið. Á árinu 1944 hafði sem sé verið gerður samningur milli landbúnaðarráðuneytisins og kirkjumálaráðuneytisins þess efnis, að kirkjumálaráðuneytið afhenti prestssetrið Hest til þess að koma þar upp tilraunabúi, gegn því að reist yrði íbúðarhús yfir sóknarprestinn á Hvanneyri. Við þá skuldbindingu hefði að sjálfsögðu átt að standa á þessu ári, en þar sem engin fjárveiting var á fjárlögum yfirstandandi árs, þykir óhjákvæmilegt að fara fram á hana á næsta ári.

Styrkur til þess að reisa barnaskóla utan kaupstaða er áætl. 1,2 millj. kr. Kröfur munu fram koma um miklu hærra fjárframlag í þessu skyni, en samt sem áður þótti ekki fært að leggja til, að meira fé yrði veitt, enda hefur þessi liður verið hækkaður um 50% frá því, sem er í fjárframlögum þessa árs. Enn fremur er lagt til, að veitt verði 800 þús. kr. til stofnkostnaðar héraðsskóla, 830 þús. kr. til byggingar gagnfræðaskóla og samtals 1 millj. kr. til byggingar húsmæðraskóla í kaupstöðum og sveitum. — Er hvor liður til húsmæðraskólanna hækkaður um 100 þús. kr. frá því, sem er í fjárlögum þessa árs.

Framlag til íþróttasjóðs er látið haldast óbreytt, 600 þús. krónur. Kröfur komu fram um stórfellda hækkun á þessum lið, en ekki þótti fært að taka þær til greina.

15. gr. er í flestum atriðum óbreytt eins og hún er í gildandi fjárlögum, að öðru leyti en því, að flestir útgjaldaliðir hafa hækkað nokkuð, sumpart vegna launahækkunar og sumpart vegna hækkaðrar dýrtíðarvísitölu. Kostnaður við atvinnudeild háskólans er kominn upp í 1,2 millj. kr., og mun sá kostnaður vafalaust fara hækkandi á næstu árum, ef taka á tækni í þjónustu atvinnuveganna í ríkara mæli en verið hefur.

Á 16. gr. hafa heldur eigi verið neinar stórbreytingar. Jarðabótastyrkur hefur þó verið hækkaður úr 1 millj. kr. upp í 1,7 millj. kr. Jarðabótastyrkurinn í ár mun hafa numið sem næst 1,3 millj. kr., og er líklegt, að jarðabætur þessa árs verði nokkru meiri. Tillag til kreppulánasjóðs er rúmlega 340 þús. kr. og mun verða síðasta framlagið til hans. Kostnaður vegna sauðfjársjúkdóma er áætl. 200 þús. kr. hærri en í þessa árs fjárlögum, og stafar það af niðurskurði í Mývatnssveit og Bárðardal austan Skjálfandafljóts.

Styrkur til byggingar iðnskóla í Reykjavík er óbreyttur frá síðasta ári, 300 þús. kr.

17. gr. er að mestu óbreytt frá núgildandi fjárlögum, og ætla ég, að í henni sé ekkert, er gefi tilefni til sérstakra athugasemda.

Um 18. gr. Dýrtíðaruppbót, sem greidd var á laun embættismanna og eftirlaun samkv. heimild í 22. gr. fjárlaga undanfarinna ára, féll niður af embættislaunum við gildistöku nýju launalaganna, en var látin haldast á eftirlaunum, og hefur henni nú verið bætt við hvern einstakan lið, en í núgildandi fjárlögum er hún áætluð í einu lagi á 18. gr. II. x. kr. 72000,00.

Sama máli gegnir um aukauppbótina, en hún er í núgildandi fjárlögum áætluð í einu lagi á 18. gr. II. y. kr. 110000,00.

Samkvæmt 10. gr. laga um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 8. gr. laga um lífeyrissjóð barnakennara ber ríkissjóði að greiða í nefnda sjóði 6% af launum fastráðinna starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana. Eru hér áætluð 6% af öllum launum, sem áætl. eru á fjárlagafrv., einnig þeim, sem áæti. eru í 3. gr. A.

Framlag ríkissjóðs samkv. 6. gr. reglugerðar um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 4. gr. reglugerðar frá 25. apríl 1945 um lífeyrissjóð barnakennara — en láðst hefur að vitna í síðarnefndu reglugerðina í frumvarpinu — verður að sjálfsögðu ekki áætluð nákvæmlega, en með því að framlagið fyrir árið 1944 nam ca. kr. 122000,00, þótti ekki varlegt að áætla það lægra en kr. 200000,00 í frumvarpinu.

Fjárveiting til óvissra útgjalda er hækkuð úr 250 þús. kr. upp í 500 þús. kr., og er það vafalaust samt sem áður of lágt.

Óviss útgjöld færð á 19. gr. urðu 1944 rúml. 1,7 millj. kr., og mun raunin jafnaðarlega hafa verið sú, að miklu meira hefur verið greitt út en áætl. hefur verið. En á 19. gr. eru svo auk þessa áætl. 12 millj. kr. til niðurgreiðslu á nokkrum landbúnaðarafurðum. Því verður eigi neitað, að þessi áætlun er mjög af handahófi gerð. Með þeirri breytingu, sem gerð hefur verið á tilhögun niðurgreiðslnanna, er fyrirfram mjög erfitt að segja um, hverju þær muni nema: Ef gert væri ráð fyrir, að niðurgreiðsla á kjöti næði samtals til 80 þús. manna, mundi kjötmagn, sem greitt væri niður, nema 3200 tonnum, og fjárhæðin þá sem næst 14 millj. kr. Niðurgreiðslur á mjólk munu nema að minnsta kosti 3 millj. kr., og yrðu þá heildarniðurgreiðslurnar á þessum tveim vörutegundum 17 millj. kr. En af þeirri fjárhæð ætti rúmur fjórði partur að koma á yfirstandandi ár. Ef þessi áætlun væri eitthvað nærri lagi, er sýnilegt, að útgjöldin mundu frekar verða yfir 12 millj. kr. en undir. Auk þess ber þess svo að gæta, að engin fjárveiting er til fyrir þeim hluta niðurgreiðslnanna, er kemur á þetta ár. En ef til vill gæti maður leyft sér þá bjartsýni að gera sér vonir um, að það mundi samt sem áður ekki valda rekstrarhalla á árinu. Ég geri ráð fyrir, að áframhaldandi verði unnið að því að finna aðra hagkvæmari lausn á þessum verðlagsmálum en niðurgreiðslurnar. Fyrirfram verður þó ekkert um það sagt, hvort þær tilraunir muni bera árangur.

Ég hef nú drepið á allar þær greinar fjárlaganna, er við koma rekstrarreikningi. Eins og rekstraryfirlitið í 21. gr. ber með sér, er gert ráð fyrir, að heildarútgjöldin verði 115244 450 kr., en tekjurnar, eins og áður er sagt, áætlaðar 114162711 kr. og rekstrarhalli áætlaður 1081739 kr.

Þessi tekjuhalli nemur tæplega 1% af heildartekjunum, og má því telja, að tekjur og rekstrarútgjöld standist á.

Öðru máli gegnir um greiðslujöfnuðinn. Innborganir á 20. gr. nema aðeins 2,6 millj. kr., en útborganir 14,4 millj. kr. Af þeirri fjárhæð eru 2,5 millj. kr. afborganir af skuldum. Til eignaaukningar ríkisstofnana fara 4,1 millj. kr., þar af 3 millj. kr. til eignaaukninga landssímans. Vel gæti komið til mála að heimila landssímanum að taka lán til þeirra framkvæmda. Þar er aðeins um arðberandi fyrirtæki að ræða sem stofnunin ætti að vera vel fær um að standa undir. Til viðbótarhúsnæðis fyrir ríkisspítalana er gert ráð fyrir 1 millj. kr., og væri vafalaust þörf á að hækka þá fjárveitingu. Til vita eru áætlaðar 1,4 millj. kr. og til flugvallargerðar í Vestmannaeyjum og lendingarbóta á Ísafirði, 2. greiðsla af þremur, samtals 400 þús. kr. Þá er áætlað 1 millj. kr. til menntaskólahúss í Reykjavík. Skólinn heldur á næsta ári 100 ára afmæli sitt, og mun samhljóða álit menntamálastjórnar, að eigi verði lengur beðið með endurbætur á húsakynnum hans. 1 millj. kr. er áætlað til Sjómannaskólans og mun þó eigi nægja til að fullgera hann. Til byggingar bændaskóla í Skálholti er áætlað 1 millj. kr. Það virðist vera einróma álit síðasta Alþingis, að reisa bæri bændaskóla á Suðurlandsundirlendinu, þótt skiptar væru skoðanir um hvar skólasetrið ætti að vera.

Á þessa árs fjárlögum voru veittar 250 þús. kr. til undirbúnings skólastofnunar, og hefur þegar verið hafizt handa með mælingu og uppdrætti af landi Skálholts og vegargerð að hinu væntanlega skólasetri. — Þá er lagt til, að 100 þús. kr. verði veittar til að koma upp bústað fyrir skólastjóra á Hólum. Húsrúm er mjög ófullnægjandi fyrir skólann, og hefur Búnaðarfélag Íslands mælt mjög eindregið með tilmælum skólastjóra um, að komið verði upp sérstöku húsnæði fyrir hann. Gert er ráð fyrir, að þetta sé fyrri fjárveiting af tveimur. Teikning og kostnaðaráætlun liggur enn þá ekki fyrir og því eigi unnt að segja, hver kostnaður verður. — Aðra útgjaldaliði 20. gr. tel ég eigi ástæðu til að gera að umræðuefni.

Eins og ég þegar hef bent á og sjá má af sjóðsyfirlitinu í 21 gr., er áætlaður greiðsluhalli, er nemur 12,8 millj. kr. Er það nálega sama fjárhæð og ætlað er til niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðir og má af því sjá, að enn sem komið er væru ekki miklir örðugleikar á að fá greiðslujöfnuð á fjárlögin, ef aldrei hefði verið lagt út á þá óheillabraut. Nú býst ég við, að spurt verði um, hvar taka eigi fé til að jafna greiðsluhallann, hvort það verði gert með nýjum skattaálögum eða með lántökum eða jafnvel með niðurskurði á fjárlögum. Ég er enn þá ekki reiðubúinn til að svara, hverjar tillögur stjórnin muni gera um þetta. Ég geri ekki ráð fyrir, að fjárlögin verði afgreidd fyrr en í desembermánuði, og verður þá betur séð fyrir um afkomu þessa árs. En fyrsta skilyrði fyrir því, að unnt sé að gera sér grein fyrir, hverra fjármuna þurfi að afla, er að vita, hvernig sjóðreikningur stendur í lok ársins.

Að nauðsynjalausu mun stjórnin ekki bera fram nýjar skattatillögur, enda er mér ekki ljóst, hvar bera ætti niður.

Áður en ég lýk máli mínu, þykir mér rétt að gefa nokkurt yfirlit yfir skuldir ríkissjóðs, eins og þær eru nú. Brezku lánin eru nú öll uppborguð, og erlendar skuldir eru engar, nema lítilsháttar í Danmörku. Væru þær einnig greiddar, ef ekki stæði á samkomulagi um, í hverjum gjaldeyri greitt skuli. Danmörk hefur lagt mikla áherzlu á að fá greiðslu í dollurum. en eins og viðskiptum vorum nú er háttað, getum vér naumast greitt í öðru en sterlingspundum.

Skuldalistinn í september er á þennan veg:

Innlend lán:

Í árslok 1944

kr.

22087000

Afborganir til 30/9

1133000

20954000,—

Dönsk lán:

Í árslok 1944

5932000

Afb. fallnar í gjaldd.

30/9 '45

320000

5612000,—

Ensk lán:

Í árslok 1944

9242000

Afb. til 30/9 '45

8216000

1026000,—1)

Lausaskuldár:

Í árslok 1944

9663000

Viðbót til 30/9 '45

720000

10383000, —2)

1) Þetta eru lán til síldarverksmiðja ríkisins. 2) Af þessari upphæð eru lausaskuldir í útlöndum kr. 7025000,— og þar af ógr.afb. og vextir af dönskum lánum kr. 5551,00. — Eins og sjá má af þessu yfirliti, hafa skuldir ríkissjóðs lækkað stórlega á síðari árum. Í árslok 1939 voru þær 46,9 millj. kr. og hafa því minnkað á þessum 6 árum um 9 millj. kr., og það, sem ekki er minna um vert, er að þá voru skuldirnar að miklu leyti við önnur lönd, nú eru þær nálega allar innanlands.

Hagur landsins að öðru leyti verður eigi annað sagt en að standi með blóma. Verzlunarjöfnuður hefur haldizt nokkurn veginn, það sem af er þessu ári. Má að vísu búast við nokkuð verri útkomu þá mánuði, sem eftir eru, vegna lítils útflutnings á síldarafurðum, sem jafnaðarlega hafa verið stærsti útflutningsliðurinn síðari mánuði ársins.

Innieign bankanna var lítið eitt minni í lok síðustu viku en á sama tíma í fyrra, en þess er að gæta, að á þeim tíma hefur allmikið verið greitt upp í ýmis atvinnutæki, sérstaklega skip og efni til skipa. Hagur ríkisins út á við verður því að teljast mjög góður. Hins vegar verður því eigi neitað að verðbólgan, sem skapazt hefur í landinu hin síðustu ár, gerir ýmsa erfiðleika inn á við, og að því kemur fyrr eða síðar, að vér verðum nauðugir viljugir að horfast í augu við þá staðreynd, að snúa verður við. Erfiðleikum mun það valda, hvenær sem að því kemur, en léttara ætti það þó að verða, ef þá verða til taks nóg atvinnutæki, þannig að allir, sem unnið geta, hafi næga vinnu.

Og það, sem gefur beztar vonir um bjarta framtíð fyrir land og þjóð, er einmitt það, að útlit er fyrir, að takast muni að afla nægra tækja til þess að allir hafi nóg verkefni. Ef svo giftusamlega tekst til, er naumast heldur ástæða til að kvíða afkomu ríkissjóðs.

Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að leggja til, að fjárlagafrumvarpinu verði vísað til hv. fjvn.