19.11.1945
Efri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

23. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég hef ekki getað orðið samferða samnm. mínum í þessu máli. — Ég þarf ekki að tala langt mál til að skýra sérstöðu mína, því að eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, er þetta mál sama eðlis og breyt. á jarðræktarl., sem nú hefur verið hér til umr., og höfuðrökin með og móti að sjálfsögðu þau sömu í báðum málunum.

Ætlunin með þessu frv., sem hér er um að ræða, er sú að fella burt úr l. þær kvaðir, sem 47. gr. l. um byggingar- og landnámssjóð felur í sér, sem til eru orðnar vegna þess styrks, sem það opinbera hefur lagt til þeirra býla, sem um er að ræða, en þau ákvæði voru sett fyrst og fremst í því skyni að koma í veg fyrir, að hægt sé að selja þessar eignir með langtum hærra verði en þær hafa kostað eiganda. Ég álít, að þetta hafi verið gert í því skyni að sporna við slíkri verðhækkun á fasteignum. Ég álít alrangt að nema nú burt allar slíkar hömlur við að jarðeignir hækki í verði, en setja ekkert í staðinn.

Ég tók eftir, að hv. frsm. meiri hl. sagði, að það mundi syngja í tálknunum á kaupstaðabúum, ef svipaðar kvaðir yrðu lagðar á hús þeirra og nú væru lagðar á þau býli, sem frv. fjallar um. Mig furðar, að hv. frsm. skuli segja þetta. Ég veit ekki annað en að ekki sams konar kvaðir, heldur miklu ríkari, séu lagðar á húseignir í kaupstöðum. Ég veit ekki betur en að almennt sé bannað að selja íbúðir í verkamannabústöðunum eða hús, sem byggð eru samkvæmt þeim l., fyrir hærra verð en þau kosta, þegar búið er að draga það frá, sem er fastákveðið fylgifé, og mér er ekki kunnugt, að ein einasta íbúð í verkamannabústöðunum hafi verið seld án þess að þetta hafi verið gert. Þó er þess að gæta, að styrkur til verkamannabústaða er sama og styrkur sá, sem greiddur er samkv. þessum l., og styrkurinn til verkamannabústaðanna er eingöngu í því falinn að greiða vaxtamismun á lánum, sem veitt eru til byggingarinnar. En samkv. þessum l. er ekki aðeins um greiðslur vaxta að ræða, heldur beinan styrk. En hv. frsm. og þm. Dal. voru í þessu sambandi að halda því fram, að ekkert slíkt ætti sér stað um eignir kaupstaðarbúa eins og þessi l. ákveða. En því fer alls fjarri. Og ég veit ekki betur, hvað verkamannabústaðina snertir, en að þetta ákvæði hafi reynzt botnþétt. Mér er ekki kunnugt um, að nokkur íbúð hafi verið seld hærra verði en vera ber, þótt verðlag á þeim hafi breytzt mjög mikið. — Ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. og vísa til þess, sem ég hef áður fram borið í sambandi við það. Og ég vil endurtaka það, að ég álít, að það þurfi að færa ákvæði l. í það form, að það nái tilgangi sínum, og það ætti að vera hægt, eins og reynslan sýnir með verkamannabústaðina.