19.11.1945
Efri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

23. mál, byggingar- og landnámssjóður

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það eru aðeins örfá orð. Það kom fram hjá hv. þm. Barð., að því er mér skildist, að hann hefur ekki skoðað þetta mál nægilega niður í kjölinn. Það, sem við, sem flytjum þetta frv., viljum fá afnumið með afnámi þessarar gr., er að sá, sem fengið hefur styrk samkv. byggingarl., hefur engan rétt til að selja fasteignina nema með leyfi sjóðsstjórnar, og hann hefur ekki leyfi til að selja hana nema eftir fasteignamati að viðbættu því, sem jörðin hefur hækkað við millimat. Þess vegna lítur nýbýlasjóðsstjórnin alltaf eftir því, að jörðin sé ekki seld hærra en fasteignamat ákveður, og hún hefur líka leyfi til að banna að selja hana.

Ég held því, að ef þetta mál er athugað, þá sjái menn, að þetta muni geta betur farið, og mig langar til að æskja þess, að minn ágæti sessunautur, hv. þm. Barð., athugi þetta betur ag greiði atkv. með frv. nú til 3. umr.