16.10.1945
Sameinað þing: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

16. mál, fjárlög 1946

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Það kemur ekki til mála, að ég á þeim stutta ræðutíma, sem mér er ætlaður, ræði hvert einstakt atriði, sem hv. 2. þm. S.-M. fór inn á í ræðu sinni, en mun meta mest að víkja að því, sem hann sagði um afgreiðslu fjárl. Ef til vill vík ég svo að eldhúsumr. hans, ef tími vinnst til. Hann talaði í mjög háum tónum um það, að í fjárlfrv. því, sem nú liggur fyrir Alþ., væru útgjöldin óeðlilega há, og talaði um gjaldþrot ríkissjóðs. Ég er sannast að segja dálítið undrandi, hvað þessi hv. þm. er ófeiminn að minnast á gjaldþrot ríkissjóðs. Sannleikurinn er sá, að þessi spádómur hefur heyrzt áður hjá þessum hv. þm. Þegar fjárl. fyrir 1945 voru til umr. á Alþ., talaði þessi hv. þm. mikið og var þá ekki síður í háum tónum en nú. Hann var þá með spádóma um það, að tekjuhallinn mundi aldrei geta orðið minni en 20–30 millj. króna. Ég býst við, að ýmsir hafi lagt nokkurn trúnað á orð hans þá. En reynslan, sem jafnan er ólygnust, hefur sýnt, að þm, var þarna með algera falsspádóma. Sem betur fer er hægt að fullyrða á þessari stundu, að talsvert verulegur tekjuafgangur verður á árinu 1945, þó að ekki sé hægt að segja, hversu mikill hann verður. Eftir þessa reynslu ætla ég, að hv. þm. geti ekki tekið neinum illa upp, þó að spádómar hans um afkomu næstá árs verði ekki heldur teknir mjög hátíðlega. Ég hygg það sönnu nær, sem síðasti ræðumaður drap á í byrjun ræðu sinnar, að fjárlfrv., sem nú er lagt fyrir þingið, þ. e. tekjuáætlun þess, sé frekar varleg en óvarleg. Hinu má búast við, ef að venju fer, að útgjaldaliðir fjárl. hækki undir meðferð Alþ. Það hefur víst jafnan verið svo, að fjárl. væru afgr. með meiri útgjöldum en þegar frv. voru lögð fyrir Alþ. Búast má því við, að svo fari enn, og að óhjákvæmilegt verði að gera ráð fyrir nýjum tekjustofnum, ef á að afgr. tekjuhallalaus fjárlög. En þetta mun verða nógur tími að tala um við síðari umr. fjárlaganna.

En svo kemur það einkennilega í ræðu hv. þm., að þó að hann í byrjun legði höfuðáherzluna á, að útgjöldin samkv. fjárl. væru allt of há, deildi hann mjög á fjármálastj. fyrir það, að allt of litlu fé eigi að verja til ýmiss konar framkvæmda. Hann taldi upp marga útgjaldaliði, sem sumpart lækkuðu frá því, sem verið hefur á yfirstandandi ári og þörf væri að hafa hærri en áætlaðir eru. Þetta er náttúrlega að mörgu leyti rétt. Ég býst við, að það fari jafnan svo við undirbúning fjárl., að bæði fjmrh. og aðrir í ríkisstj. hafi mikla tilhneigingu til þess að verja meira fé til ýmiss konar opinberra framkvæmda í landinu en þeir treysta sér til að mæla með, að gert verði. Í landi, þar sem svo að segja allt er ógert, er enginn vandi að koma auga á verkefni, sem þarf að hrinda í framkvæmd. En hins verður að gæta, að ef ekki á að stefna út í ófæru, verður að stilla framkvæmdum svo í hóf, að gjaldgetu borgaranna sé ekki ofboðið. Að öðru leyti sýndi hæstv. samgmrh. fram á það, hvernig hv. þm. fór með ýmsa útgjaldaliði, sem hann gerði að umræðuefni, hve fjarri lagi það er, að útgjöld til ýmissa opinberra framkvæmda séu minni nú en verið hefur á undanförnum árum. Það er vafalaust, að aldrei hefur verið meira ætlað til opinberra framkvæmda en gert er í þessu fjárlagafrv. Það er næsta undarlegt að heyra þennan hv. þm. deila á stj. fyrir það, að hún hafi ekki gert ráð fyrir fjárveitingum vegna útgjalda, sem ráðgerð séu í frv., sem ennþá eru ekki komin fyrir Alþ. Mér þætti gaman að vita, hvar hv. þm. getur bent á það í þingsögunni, að í fjárlfrv. séu teknir upp útgjaldaliðir til framkvæmda, sem engin till. hefur komið fram um.

Hv. þm. margstagaðist á því, að ekkert væri ætlað til nýsköpunar atvinnuveganna. Ég veit ekki vel, hvernig á að skilja þessi orð þm. Er það hans vilji, að nýsköpun sú, sem vonandi verður hér, verði gerð fyrir reikning ríkissjóðs? Vill hann koma á ríkisrekstri hér á landi? Mér hefði fyrir nokkrum árum ekki þótt undarlegt að heyra þessi orð af vörum hv. þm., en því undarlegra nú, eftir því sem hann og aðrir hafa greint stefnu flokks hans á síðari árum. Annars er náttúrlega rangt, að ekkert sé gert af hálfu stj. til að afla fjár til nýsköpunarinnar. Það má minna á, að fyrir Alþ. liggja tvö frv., sem gera ráð fyrir stórkostlegum fjárútlátum, með lántökum að vísu, til nýsköpunar sjávarútvegsins. Það eina, sem þessi hv. þm. benti réttilega á, er, að í þetta frv. vantaði fjárveitingu til hjálparstofnunar hinna sameinuðu þjóða. Það er ekki ætlað neitt fé til þessa í frv., en það stafar ekki af athugaleysi, heldur af því, að það liggur ekkert fyrir enn, hve miklu fé þarf að verja í þessu skyni, og mun sumpart stafa af því, að ríkisstj. hefur í bakhendinni nokkur úrræði í þessu efni, sem ég hirði ekki um að ræða að þessu sinni, en fjvn. verður gert kunnugt um það, og þessi hv. þm. getur fengið að vita það, hvenær sem er. Nú vildi þessi hv. þm. benda á úrræði til þess að minnka útgjöld ríkissjóðs. Hann talaði um niðurskurð á rekstrarútgjöldum ríkisins. Þetta kann að vera rétt, en það getur orðið nokkuð langur tími, þangað til það verður athugað, því að á því eru mikil vandkvæði vegna hins óviðunandi húsnæðis, sem hið opinbera á við að búa. Hitt getur hv. þm. ekki lagt ríkisstj. til ámælis, þó að hún hafi farið eftir settum lögum og veiti fé til þess, sem ákveðið er skv. lögum.

Hv. þm. var að tala um það, að komið hafi æ betur í ljós, að Framsfl. hafi haft rétt fyrir sér um nauðsyn þess að lækka dýrtíðina. Það hefur annar ræðumaður, hæstv. samgmrh., bent á með óyggjandi rökum, hvern þátt Framsfl. hafi átt í því að koma dýrtíðarflóðinu af stað, hér á landi.

Og þegar þessi hv. þm. margendurtekur þetta, fer að verða ástæða til að auglýsa eftir því, hvað það er, sem Framsfl. hefur lagt til úrlausnar í dýrtíðarmálunum. Hann hefur hrópað um nauðsyn þess að lækka dýrtíðina, en ég veit ekki til þess, þegar utanþingsstjórnin var við völd, að hann tæki mikið undir tilraunir hennar til að lækka dýrtíðina. Ég veit ekki, hvað Framsfl. hefur gert til að fá dýrtíðina lækkaða. En það er enginn vandi að sjá, að það kemur að því, sem ég hef margsinnis bent á, að verður að gerast, en vandinn liggur í því, með hverjum ráðum það verður gert.

Hv. 2. þm. S.-M. var að vitna í ummæli frá síðasta þingi um að hverfa frá uppbótarstefnunni, og er það rétt með farið hjá honum, að ég hef ekki látið mörg tækifæri ónotuð til að benda á nauðsyn þess. Ég kem ekki auga á, hvaða skynsemi er í því, þegar hagur framleiðenda stendur betur en venjulega, að þá skuli ríkissjóður vera að sligast með niðurgreiðslur á ákveðnum framleiðsluvörum landsmanna. Það er rétt, að það hefur ekki náðst nein lausn á þessu máli, sem ég er ánægður með. Mér kemur ekki til hugar að hræsna með það. Og þó að ég og hv. 2. þm. S.-M. séum ekki ánægðir með þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið í þeim málum, þá má þrátt fyrir það ekki gleyma því, að stórfelld breyting hefur orðið frá því, sem var undanfarin ár, því að ef haldið hefði verið áfram, eins og gert hefur verið undanfarin 2–3 ár, mundu uppbæturnar hafa numið tvöfaldri þeirri fjárupphæð, sem nú verður. Það segir gamall málsháttur: Hálfnað er verk þá hafið er. Og er þá komið inn á þá braut að vinna að því að lækka dýrtíðina, og ég er svo bjartsýnn að halda, að haldið verði áfram á þessari braut og að það eigi ekki mjög langt í land, að horfið verði alveg frá henni.

Hv. þm. skal ekki hafa neinar áhyggjur af því, hvenær ég afhendi mína lausnarbeiðni. Ég skal reyna að láta hana bera öðruvísi að en hv. 2. þm. S.-M. bar að með sína lausnarbeiðni. Ég skal reyna að vera búinn að því, áður en ég hef stefnt þjóðinni í voða með minni fjármálastjórn.

Það má vel vera rétt hjá hv. þm., að fjárupphæðin, sem ætluð sé til niðurgreiðslunnar, sé allt of lág. Hann beitir þeim rökum, að fyrst niðurgreiðslur ættu að gilda allt árið 1946, þá væri fjárupphæðin miklu lægri en hún ætti að vera. Það er ekki gert ráð fyrir, að niðurgreiðslufyrirkomulagið standi lengur en til 15. sept. 1946.

Það er erfitt að vita fyrir fram, hve mikið fé þarf til þess að standast niðurgreiðslurnar, en ég efast um, að hv. þm. geti bent á aðra sennilegri upphæð en þá, sem tekin er upp í fjárlagafrv.

Þessi hv. þm. var eins og venjulega með harmagrát út af veltuskattinum. Ég veit, að sumum, sem hv. þm. stendur nærri, þykir veltuskatturinn óréttlátur, af því að hann kemur jafnt niður á alla. En það gæti verið til athugunar, hvort ekki sé um fleiri skatta að ræða, sem þörf væri á að koma jafnt niður á alla.

Þá talaði þessi hv. þm. um það, að tekna hafi verið aflað með því að eyða af dollarainnstæðu landsins, og veit ég ekki, við hvað hann hefur átt með því. Er það meining hans, að það hafi átt að svelta þjóðina á þessu ári? Ég hygg, að það hefði ekki verið leyft að flytja inn á þessu ári aðrar vörur en þær, sem nauðsynlegt hefði verið að afla, ef átt hefði að lifa sams konar lífi í landinu og gert hefur verið undanfarin ár, án þess að skerða dollarainneignina. Það er ekki skemmtilegt að eyða dollurum eins og gert hefur verið, en ég hygg, að það sé bezt að nota þá, áður en farið er að svelta þjóðina.

Hv. þm. talar um við hvert tækifæri, að allt fjármagn sé upp étið, og þetta er sami maðurinn, sem skildi við fjármálastjórnina árið 1939. Ég sé ekki kost á að svara því með öðru. Hann talaði um misréttið í skattamálunum og fjármálunum. Því hefur verið svarað af síðasta ræðumanni, þó ekki beinlínis. Hann benti á það, sem rétt er, að það er ekki lengur hægt að lifa á því einu saman að vera framsóknarmaður, og ég býst við, að þetta óréttlæti gangi honum til hjarta.

Mér þykir heldur verra að geta ekki minnzt lítils háttar á það, sem þm, sagði um landbúnaðarlöggjöfina. Hún er að vísu ekki til umr., og læt ég hana því mæta afgangi, en ef til vill gefst tækifæri síðar til að ræða hana fyrir alþjóð.

Ég vil ekki misnota þann ræðutíma, sem mér er ætlaður. Vil hins vegar segja það, að ég get ekki fundið, að neitt það hafi komið fram í ræðu hv. 2. þm. S.-M., sem bendi til þess, að fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir hæstv. Alþingi, sé óvarlega samið, eða að ríkisstj. sé vítaverð fyrir að hafa sýnt gáleysi við samningu frv.